Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Ólafur Þ. Harðarson: Líklegast að Samfylkingin sé að sópa til sín lausafylginu

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn mæl­ist með 16 pró­senta fylgi og Ólaf­ur Þ. Harð­ar­son stjórn­mála­fræði­pró­fess­or seg­ist ekki muna eft­ir verri út­komu flokks­ins í skoð­ana­könn­un frá upp­hafi vega. Hann hef­ur þó fyr­ir­vara á könn­un­um fyr­ir­tæk­is­ins Pró­sents en þær hafi sýnt sig í að sýna meiri skekkj­ur en al­mennt er.

<span>Ólafur Þ. Harðarson:</span> Líklegast að Samfylkingin sé að sópa til sín lausafylginu
Fleiri kannanir þurfi til Ólafur segir, þó hann minnist þess ekki að hafa séð jafn lága fylgismælingu Sjálfstæðisflokksins, óvarlegt að fullyrði að fylgi flokksins sé komið jafn lágt og það mælist í könnun Prósents. Fleiri kannanir þurfi að koma sem sýni sömu niðurstöðu til að hægt sé að slá því föstu. Mynd: Vísindavefurinn

„Stóra myndin er mjög svipuð og hefur verið í öðrum könnunum en tilhneigingarnar eru kannski ýktari, sérstaklega með Sjálfstæðisflokkinn. Fljótt á litið man ég ekki eftir svona lágri tölu í nokkurri könnun, frá upphafi.“ Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor um nýja könnun skoðanfyrirtækisins Prósents sem sýnir Sjálfstæðisflokkinn fá verstu fylgismælingu í sögunni en Samfylkinguna halda áfram að styrkja stöðu sína.

Ólafur segir að þessi könnun sýni svipaða sviðsmynd og hefur verið að birtast í öðrum fylgismælingum að undanförnu. Hann vill þó slá varnagla við því að lesa of mikið úr könnuninni að svo komnu máli.

„Það þarf að hafa í huga að Prósent hefur stundum verið ákveðinn útlagi í könnunum, sveiflurnar hjá þeim hafa verið meiri en hjá öðrum könnunarfyrirtækjum. Það er dæmi um að síðasta könnun þeirra fyrir kosningar hafi verið töluvert langt frá kosningaúrslitum, svo ég hef aðeins meiri fyrirvara á könnunum Prósents en öðrum könnunum. Maður tekur í raun ekki mark á 16 prósenta mælingu Sjálfstæðisflokksins fyrr en nokkrar aðrar kannannir hafa staðfest slíkar tölur.

Hins vegar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið að mælast heldur verr undanfarið heldur en hann gerði á fyrri hluta kjörtímabilsins. Þá var flokkurinn alla jafna að mælast rétt undir kjörfylgi, oft með þetta 22 til 24 prósent, en í síðustu könnunum hefur hann verið að mælast undir 20 prósentum. Staða flokksins er því ekki góð í könnunum þessar vikurnar og þetta sínu versta niðurstaðan.“

Telur hvalveiðibannið ekki hafa mikil áhrif

Spurður hvort hann telji að hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra geti hafa haft einhver áhrif á fylgi, ýmist við Vinstri græn eða Sjálfstæðisflokkinn, segir Ólafur að það telji hann ekki.

„Það er mjög óalgengt að eitt mál hafi mikil áhrif á fylgi flokks. Það að hvalamálið yrði til þess að hnika fylgi Vinstri grænna eða Sjálfstæðisflokks, nú eða annarra flokka, eitthvað til er harla ólíklegt. Vinstri græn styrkja í raun kannski þann hóp sem þegar studdi flokkinn og hið sama má segja um Sjálfstæðisflokkinn, líklegt er að þeir sem eru mjög andvígir banninu hafi stutt flokkinn fyrir.“

„Þó það sé skipt um einn ráðherra er afar ólíklegt að slík skipti hafi mikil áhrif á fylgi einstakra flokka“

Ólafur segir einnig, aðspurður um hvort hægt sé að lesa eitthvað út úr þessum fylgistölum í samhengi við ráðherraskipti Sjálfstæðisflokksins þar sem Jón Gunnarsson vék úr ríkisstjórn en Guðrún Hafsteinsdóttir kom í hans stað, að svo telji hann ekki. „Þó það sé skipt um einn ráðherra er afar ólíklegt að slík skipti hafi mikil áhrif á fylgi einstakra flokka.“

Kristrúnar-áhrifin mögulega ýkt

Stuðningur við Samfylkinguna hefur þó aukist jafnt og þétt eftir að Kristrún Frostadóttir tók við formannsembætti í flokknum. Spurður hvort hann telji að það séu Kristrúnar-áhrif svarar Ólafur: „Eitthvað hlýtur það að vera og það er áreiðanlega tengt formannsskiptunum. Ég hef hins vegar talið að menn ýki oft þau áhrif sem persónueinkenni leiðtoga hafi á fylgi flokka. Hins vegar, ef leiðtogum tekst að koma stefnu flokka til skila á einfaldan og skýran hátt, þá getur það skilað sér í verulegum fylgisbreytingu. Ég held því að lykillinn í fylgisbreytingu Samfylkingarinnar liggi ekki fyrst og fremst í persónu Kristrúnar heldur því að hún endurnýjaði forgangsröð flokksins, lagði áherslu á það sem hún kallaði kjarnagildi jafnaðarstefnunnar og er með einfaldari og kannski skýrari skilaboð en flokkurinn hafði áður. Það hefur ekki orðið nein grundvallarbreyting á stefnu flokksins.“

Framsókn í svipaðri stöðu og var á síðasta kjörtímabili

Framsóknarflokkurinn mælist nú með sama fylgi og klofningsflokkurinn Miðflokkur, og getur tæplega unað vel við sitt. Ólafur segir að í síðustu nokkuð mörgum könnunum hafi Framsókn mælst með um tíu prósent. Nú sé flokkurinn að mælast með fylgi á pari við það sem oftast mældist á síðasta kjörtímabili. „Það sem gerðist í kosningunum síðast var að Framsóknarflokkurinn bætti mjög miklu við sig á tiltölulega skömmum tíma. Það er líklega það sem oft er kallað lausafylgi og nú virðist það að miklu leyti vera farið yfir til Samfylkingarinnar. Framsókn er á svipuðum slóðum og flokkurinn var mest allt kjörtímabil, og auðvitað eru menn fúlir yfir því. En það þarf að hafa í huga að það er frekar tilhneiging til þess að stjórnarflokkar tapi fylgi í könnunum frekar en stjórnarandstöðuflokkar. Auðvitað er þetta ekki sérstaklega gott fyrir Framsókn, í síðustu kosningum bakaði Sigurður Ingi Sigmund Davíð ef svo má segja en nú eru þeir komnir í sömu stöðu og á síðasta kjörtímabili.“

„Auðvitað eru menn fúlir yfir því“
Ólafur Þ. Harðarson
um fylgi Framsóknarflokksins

Ólafur segist telja að töluvert af fylgisaukningu Samfylkingarinnar megi skýra með því að flokkurinn sé að fá lausafylgi víða að frá hinum flokkunum. „Ein skilgreining á lausafylgi gæti verið sú að það væru kjósendur sem skiptu um flokk milli kosninga og núna undanfarin áratug hefur um helmingur kjósenda verið í þeim hópi. Það er gríðarlega hátt hlutfall og býður upp á möguleika á gríðarlegu umróti og miklum fylgisbreytingum, eins og við höfum séð. Ég hef ekki séð mikið af könnunum undanfarið sem segja okkur nákvæmlega hvernig fylgi hefur verið að streyma milli flokkanna, en miðað við tölurnar sem við höfum, þá virðist vera ljóst að Samfylkingin er að fá væntanlega mest fylgi frá Framsókn, sem þeir hafa verið að tapa frá kosningum, en líka frá Vinstri grænum.“

 

Kjósa
34
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Sigmundur Guðmundsson skrifaði
    *******************************************************************
    Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra seldi föður sínum hlut í ríkisbanka með afslætti.

    Í nágrannalöndunum væri stjórnmálaferli hans þess vegna lokið.

    Þar vilja stjórnmálaflokkarnir ekki hafa slíka menn í forsvari.
    *******************************************************************
    6
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár