Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Carlsberg í Rússlandi ekki lengur danskt

Þann 19. júlí til­kynnti danski bjór­fram­leið­and­inn Carls­berg að Rúss­ar hefðu yf­ir­tek­ið, og þar með þjóð­nýtt, verk­smiðj­ur fyr­ir­tæk­is­ins í Rússlandi. Það var gert sam­kvæmt fyr­ir­skip­un Pútíns for­seta sem setti góð­vin sinn yf­ir fyr­ir­tæk­ið. Fleiri dönsk stór­fyr­ir­tæki ótt­ast að þeirra bíði sömu ör­lög.

Carlsberg í Rússlandi ekki lengur danskt
Taka til sín bjórinn líka Carlsberg er nýjasta dæmið um erlend fyrirtæki sem Rússar hafa tekið yfir og þjóðnýtt.

Í mars á síðasta ári, skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu, tillkynnti danski bjórframleiðandinn Carlsberg að öll framleiðsla á vegum fyrirtækisins í Rússlandi yrði stöðvuð, um óákveðinn tíma, eins og það var orðað. Nokkru síðar tilkynnti fyrirtækið að það hygðist selja verksmiðjur sínar í landinu en framleiðslunni yrði haldið áfram uns kaupandi hefði fundist. Baltika Breweries, eins og hið rússneska dótturfyrirtæki Carlsberg heitir, er með átta verksmiðjur í Rússlandi og var fyrir innrásina með tæplega 9 þúsund starfsmenn og um 27 prósenta markaðshlutdeild á rússneska bjórmarkaðnum. Rök stjórnenda Carlsberg fyrir því að halda framleiðslunni áfram uns nýr kaupandi fyndist voru annars vegar þau að starfsmennirnir héldu vinnunni og hins vegar að fyrirtæki sem væri í fullum gangi væri söluvænlegra en ef framleiðslan lægi niðri. Sú ákvörðun stjórnenda Carlsberg að halda framleiðslunni áfram mætti mikilli gagnrýni heima fyrir í Danmörku og reyndar víðar.

Tilskipun Pútíns

25. apríl síðastliðinn undirritaði Vladimir Pútín tilskipun þess efnis að Rússar geti yfirtekið erlend fyrirtæki sem starfi í landinu. Yfirtaka þýðir í raun þjóðnýting. Með tilskipuninni er Rússum heimilt að taka í sínar hendur fyrirtæki, að öllu leyti eða að hluta, sem hafa verið í eigu einkaaðila eða fyrirtækja, erlendra sem innlendra. Með þjóðnýtingunni er viðkomandi fyrirtæki sett undir stjórn ráðuneytis eða að stofnað verði opinbert félag sem fari með stjórnina. Þjóðnýtingin getur tekið til allra fyrirtækja, banka, samgöngufyrirtækja og orkuframleiðslufyrirtækja svo fátt eitt sé nefnt. Á tímum Sovétríkjanna voru fyrirtæki iðulega þjóðnýtt með þeim rökum að með því móti yrðu þau eign „fólksins“ og lytu stjórn þess. Sú varð þó ekki alltaf, og kannski sjaldnast, raunin. 

Góðvinurinn Taimuraz Bollojev kallaður til

Eins og áður var getið var tilkynnt um þjóðnýtingu Rússa á dótturfyrirtæki Carlsberg, Baltika Breweries, fyrir tíu dögum síðan. Stjórnendum Carlsberg var ekki fyrirfram tilkynnt um þessa ákvörðun og höfðu ekkert um hana að segja. Ákvörðunin kom „að ofan“.

Þegar ákvörðunin lá fyrir þurfti að finna hæfan mann til að setjast í forstjórastólinn hjá Baltik Breweries. Pútín leitaði ekki langt yfir skammt í þeim efnum en fól vini sínum Taimuraz Bollojev forstjórastarfið.

Góðvinur PútínsBollojev og Pútín hafa átt eitt og annað saman að sælda í gegnum árin.

Taimuraz Bollojev sem er sjötugur að aldri, og útlærður ölgerðarmaður, þekkir vel til Baltika Breweries þar sem hann gegndi starfi forstjóra um 13 ára skeið. Á forstjóraárum hans jukust umsvif Baltika Breweries mikið og þegar hann lét af forstjórastarfinu árið 2004, og seldi eignarhlut sinn í fyrirtækinu, var ölgerðin sú stærsta í Rússlandi og meðal stærstu framleiðenda á sínu sviði í heiminum.

Eftir árin hjá Baltika Breweries, sem Carlsberg keypti síðar, sneri Bollojev sér að fatagerð. Samkvæmt tilskipun frá Pútín fékk fatagerð Bollojev einkarétt á framleiðslu á öllum fatnaði fyrir rússneska herinn. Árið 2009 varð Bollojev, að beiðni Pútíns, forstjóri ríkisfyrirtækisins Olimpstroj sem sá  um uppbyggingu allra mannvirkja vegna vetrarolympíuleikanna í Sotji árið 2014.

Bollojev er fæddur og uppalinn í landamærahéraðinu Norður - Ossetíu  í Kákasus og í viðtali við fjölmiðil í St. Pétursborg kvaðst hann stoltur af upprunanum. Hann nefndi einnig að bjór væri eftirlætisdrykkur Osseta.

,,Þeir peningar sjást aldrei aftur“
Peter Chernyshov
fyrrverandi framkvæmdastjóri Carlsberg í A-Evrópu um tap fyrirtækisins vegna þjóðnýtingarinnar.

Bollojev hefur fjölmörg áhugamál, fyrir mörgum árum stofnaði hann ásamt Pútín júdófélag í St. Pétursborg, hann hefur líka mikinn áhuga á ísknattleik og veiðum.  Bollojev er mikill áhugamaður um tónlist, einkum óperur. Í áðurnefndu viðtali nefndi hann Placido Domingo og Luciano Pavarotti sem sína uppáhaldssöngvara.

Hvað verður um Baltika Breweries?

Tapaðir peningarCarlsberg mun verða fyrir um 400 milljarða tapi vegna þjóðnýtingar Rússa, að því er Peter Chernyshov segir.

Þessa spurningu lagði fréttamaður danska útvarpsins fyrir Peter Chernyshov, fyrrverandi framkvæmdastjóra Carlsberg samsteypunnar í nokkrum löndum Austur- Evrópu. Chernyshov kvaðst ekki í vafa um að ætlunin væri að koma Baltika Breweries í hendur útvalinna hollvina Pútíns. Hann sagði jafnframt að líklega næmi tap Carlsberg um 20 milljörðum danskra króna (400 milljarðar íslenskir) vegna þjóðnýtingarinnar. „Þeir peningar sjást aldrei aftur“ sagði Chernyshov.

Fleiri dönsk fyrirtæki gætu farið sömu leið

Jens Worning, fyrrverandi ræðismaður Danmerkur í St. Pétursborg, sagðist í viðtali við danska útvarpið telja að fleiri dönsk fyrirtæki með starfsemi í Rússlandi gætu farið sömu leið og Baltika Breweries. Hann nefndi sérstaklega skóframleiðandann Ecco og Rockwoll fyrirtækið sem framleiðir steinull.

Ecco rekur tvö hundruð verslanir í Rússlandi og hefur haldið starfseminni óbreyttri eftir innrás Rússa í Úkraínu. Fyrirtækið hefur vegna þessa legið undir mikilli gagnrýni, ekki síst í heimalandinu Danmörku. Margir danskir skósalar hafa hætt sölu á Ecco skóm og selja einungis skó sem til voru á lager, eða búið var að panta fyrir innrásina. Þótt stjórnendur Ecco hafi ekki verið fúsir til að upplýsa mikið um samdrátt í framleiðslu og sölu er vitað að samdrátturinn er verulegur.

Litlar líkur á þjóðnýtingu EccoJens Worning telur meiri líkur á þjóðnýtingu Rockwool en Ecco.

Áðurnefndur Jens Worning sagðist telja meiri líkur á að Rússar myndu þjóðnýta Rockwool fyrirtækið en Ecco enda væri grundvallarmunur á þessum tveimur fyrirtækjum. Ecco væri fyrst og fremst sölufyrirtæki sem seldi skótau, sem ekki væri framleitt í Rússlandi. Ef verslanirnar tvö hundruð yrðu teknar úr höndum Ecco myndi fyrirtækið einfaldlega hætta skósendingum til Rússlands. Öðru máli gegnir um Rockwool, fyrirtækið er með fjórar verksmiðjur í Rússlandi og um 1.200 starfsmenn. Steinullarframleiðslan er mjög vélvædd og krefst tiltölulega lítils mannafla. Rússneski herinn hefur um langt árabil verið mikilvægur viðskipavinur Rockwool og steinullin sem framleidd er í verksmiðjum fyrirtækisins í Rússlandi er einungis seld þar í landi. Jens Birgersson, framkvæmdastjóri Rockwool sagði nýlega í viðtali við dagblaðið Politiken að stjórn fyrirtækisins hefði markað þá stefnu að halda framleiðslunni í Rússlandi óbreyttri. „Við teljum það skárri kost að eiga og reka verksmiðjurnar fjórar áfram en að láta þær í hendur Rússa, sem myndi gerast ef við myndum hætta okkar starfsemi í landinu.“

Þess má í lokin geta að Rússar hafa nýlega þjóðnýtt franska mjólkurvöruframleiðslufyrirtækið Danone. Fyrirtækið var með framleiðslu á 13 stöðum í landinu og rúmlega 7 þúsund starfsmenn.

Steinullin áfram framleiddFramkvæmdastjóri Rockwool telur skárra að halda framleiðslu áfram heldur en að Rússar taki verksmiðjurnar yfir.

 

Kjósa
26
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár