Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Þorgerður Katrín fór rangt með en þykir það miður

Ís­lensk stjórn­völd lögð­ust af mik­illi hörku á fær­eysk stjórn­völd ár­in 2017 og 2018 vegna fyr­ir­hug­aðra breyt­inga í sjáv­ar­út­vegi. Þar á með­al var Þor­gerð­ur Katrín Gunn­ars­dótt­ir sem hellti úr skál­um reiði sinn­ar yf­ir koll­ega sinn í Fær­eyj­um, Högna Hoy­dal.

Þorgerður Katrín fór rangt með en þykir það miður
Ráðherra verður „óð“ Þorgerður Katrín leyndi ekki reiði sinni í samtali við hinn færeyska starfsbróður sinn. Mynd: Hlíf Una

„Ég átti í talsverðum samskiptum við Högna Hoydal og ber mikla virðingu fyrir honum. En þetta mál ræddum við aldrei,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í samtali við Stundina í apríl fyrir tveimur árum. Þar fór Þorgerður Katrín hins vegar ekki rétt með.

Tilefnið var umfjöllun færeyskra fjölmiðla um harðar deilur sem urðu árin 2017 og 2018, þegar færeysk stjórnvöld boðuðu róttækar breytingar í sjávarútvegi. Meðal þess var bann við erlendu eignarhaldi í útgerðarfyrirtækjum. Lög sem hefðu gert Samherja að selja sinn hlut í stórútgerðinni Framherja árið 2023. Eftir mikla ágjöf hagsmunaaðila og þrýsting erlendis frá, ekki síst frá íslenskum stjórnvöldum, voru færeysku lögin samþykkt ári síðar en gildistöku þeirra frestað, fyrst til ársins 2023 en seinna til ársins 2032.

Høgni Hoydal, formaður Þjóðveldisflokksins færeyska, mælti upphaflega fyrir breytingunum í maí 2017, þá sjávarútvegsráðherra. Í viðtölum við færeyska og íslenska fjölmiðla vorið 2021, lýsti hann því hversu harkalega íslenskir stjórnmálamenn hefðu brugðist við áformunum og lagst af fullum þunga á stjórnvöld í Færeyjum, fyrir hönd Samherja.

 „Það er alls ekki venjulegt að íslenskir stjórnmálamenn geri svona en þetta snerist auðvitað um mjög miklar fjárhæðir. Það var þannig að menn sögðu að þetta gengi ekki þar sem Færeyjar myndu verða af íslenskri fjárfestingu fyrir vikið,“sagði Høgni í samtali við Stundina í apríl 2021. Hann var ófáanlegur til að gefa upp hvaða íslensku stjórnmálamenn um ræðir.

„Ég vil helst ekki segja meira. Ég var í miklum samskiptum við ráðherra og þingmenn á Íslandi á þessum tíma, þó ekki forsætisráðherra,“ sagði Högni. Kristján Þór Júlíusson þáverandi sjávarútvegsráðherra, neitaði að svara spurningum Stundarinnar um málið.

Þorgerður Katrín, sem hafði verið sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar frá ársbyrjun 2017 og þar til í nóvember sama ár, að Kristján tók við, kvaðst aldrei hafa rætt þetta mál við færeyska ráðherrann.

Beitti pólitískum þrýstingi

„Þetta mál ræddum við aldrei,“ sagði Þorgerður Katrín skýrt og afdráttarlaust. Til að leggja enn frekari áherslu á mál sitt sagði hún það skjóta skökku við að íslenskir stjórnmálamenn hefðu gagnrýnt Færeyinga fyrir að vilja setja sams konar lög og gilda á Íslandi, og komið hafa í veg fyrir að útlendingar taki þátt í íslenskum sjávarútvegi.

Það var þó akkúrat það sem íslenskir stjórnmálamenn gerðu í samskiptum við færeyska kollega sína í umrætt sinn. Eins og sést á upplýsingum um samskiptin, sem Heimildin fékk afhent úr tveimur færeyskum ráðuneytum í samstarfi við færeyska fjölmiðilinn Frihedsbrevet.

Ólíkt því sem Þorgerður hélt fram, var hún sjálf þátttakandi í þeirri gagnrýni; beitti pólitískum þrýstingi og hélt að sögn reiðilestur yfir manninum sem hún sagðist seinna aldrei hafa rætt þessi mál við.

Ráðherra verður „óð“

Í hádeginu þann 15. júní 2017 hringdi síminn í sjávarútvegsráðuneytinu í Færeyjum. Á línunni var sjávarútvegsráðherra Íslands. Erindið var að ræða frumvarp sem færeyski ráðherrann hafði lagt fyrir Lögþingið nokkrum vikum fyrr, þann 22. maí.

Heimildin fékk minnisblað um símtalið afhent í krafti upplýsingalaga frá færeyska sjávarútvegsráðuneytinu. Þar er því lýst hvernig íslenski ráðherrann kom sér beint að efninu í upphafi símtalsins og bað um skýringar á því hvað fyrirhuguð löggjöf þýddi fyrir erlenda hluthafa í færeyskum sjávarútvegi. Þorgerður Katrín dró ekki dul á það að þótt hún notaði fleirtölumynd og talaði um hluthafa, væri hún að tala um einn ákveðinn; Samherja. Önnur íslensk fyrirtæki eða hagsmunir voru enda ekki undir í Færeyjum.

Færeyski ráðherrann svaraði og sagði frumvarpið nú í höndum þingmannanefndar Lögþingsins þar sem unnið væri úr umsögnum og athugasemdum en að óbreyttu væri von á því að þingið tæki svo afstöðu til málsins á næstu vikum.

Hoyvíkur-samningurinn, gagnkvæmur viðskiptasamningur þjóðanna tveggja, var íslenska sjávarútvegsráðherranum og fleiri íslenskum stjórnmálamönnum ofarlega í huga í tengslum við þetta mál. Töldu þeir að það að banna Íslendingum að eiga í færeyskum sjávarútvegi væri brot á samningnum.

Færeyingar höfðu á móti lengi talið Hoyvikur-samninginn þarfnast endurskoðunar, enda væri hann þeim óhagstæður um margt. Hættan – og undirliggjandi hótun um að sá samningur væri í veði – var því ekki mikil ógn í augum færeyskra ráðamanna.

Eins og kom í ljós þegar Þorgerður Katrín er sögð hafa lýst því yfir í símtalinu að íslenskir fjárfestar, með sérstakri vísan til þess eina, Samherja, væru varðir af Hoyvikursamningnum.

„Þorgerður spurði þá hver staða íslenskra fyrirtækja yrði samkvæmt frumvarpinu. Minntist hún sérstaklega á Framherja og sagði íslenska fjárfesta njóta sérstöðu í færeyskum sjávarútvegi. Hún benti jafnframt á að hún áliti, sem lögfræðingur, að staðan liti ekki vel út,“ segir í nótum færeyska embættismannsins um símtalið.

Høgni Hoydal er sagður hafa svarað því til að færeysk stjórnvöld hefðu þegar rætt þessi mál við sendiherra Íslands í Færeyjum auk þess sem utanríkisráðherrar þjóðanna hefðu rætt það. Viðskiptasamningurinn væri á verksviði þeirra en Høgni er sagður hafa sagt að mögulega þyrfti því að breyta Hoyvíkur-samningnum.

Þetta síðastnefnda virðist hafa misboðið íslenska ráðherranum verulega. Við þessum orðum Høgna brást hún „verulega reið“ við eða eins og færeyski embættismaðurinn lýsir því „gjordist Thorgerður heldur óð“. 

Færeyski ráðherrann er sagður hafa reynt að benda Þorgerði Katrínu á að ekki stæði til að banna erlenda fjárfestingu eða þátttöku í sjávarútvegi á einni nóttu og gefa ætti ríflegan tíma, eða allt að fimm ár eins og þá leit út fyrir, til aðlögunar. Auk þess ætti bannið einungis við um eignarhald útgerða en ekki fiskvinnslu. Þetta virtist ekki friða íslenska sjávarútvegsráðherrann sem sagðist telja málið „mjög alvarlegt“ frá sjónarhóli Íslendinga, sem nytu að hennar viti sérstöðu, umfram aðrar þjóðir, vegna sögulegra tengsla og sérstaks sambands þjóðanna.

Þorgerður Katrín lýsti einnig óánægju sinni með að Høgni hefði ekki sagt henni frá því hvað stæði til, þegar ráðherrarnir höfðu hist þremur mánuðum fyrr í Brussel, þar sem fram fór árleg sjávarútvegssýning í apríl 2017.

Færeyski ráðherrann svaraði því til að frumvarpið hefði ekki verið lagt fram fyrr en í maí, auk þess sem hann teldi ekki að vantað hefði á að íslenskir stjórnmála- og embættismenn hefðu fylgst með málinu og vitað stefnu færeysku stjórnarinnar. Við þetta má bæta að hálfu ári fyrr hafði Høgni kynnt þessar fyrirhuguðu breytingar í ferð sinni hér á Íslandi og fjölmiðlar fjallað um hvað til stæði.

Símtalinu lauk svo færeyski ráðherrann á því að segja þeim íslenska að hann gæti engu lofað um breytingar á frumvarpinu, sem væri eins og áður sagði í þinglegri meðferð í Færeyjum.

Miður að hafa ekki farið rétt með

Þegar Heimildin hafði samband við Þorgerði Katrínu og bar undir hana frásögn af símtalinu og hvernig það stangaðist á við ummæli hennar um, sagðist hún ekki hafa munað fyrr en að hún rifjaði símtalið upp, að það hafi átt sér stað. 

„Mér finnst bara mjög leiðinlegt og miður að hafa ekki farið rétt með þetta“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

„Mér finnst bara mjög leiðinlegt og miður að hafa ekki farið rétt með þetta, sem er einfaldlega bara því um að kenna að ég mundi ekki eftir þessu tiltekna samtali,“ sagði Þorgerður Katrín.

„Þegar ég hef rifjað þetta upp núna og farið í gegnum minnispunkta sem ég á, sé ég betur hvernig þetta var í þessu samtali. Það voru þarna íslenskir hagsmunir undir og Færeyingar voru að fara gegn þjóðréttarsamningum. Í þessu tilfelli hafði Samherji, íslenskt fyrirtæki, fjárfest í skjóli þess. Á þessum tíma var Samherji líka bara umdeilt í mínum huga fyrst og fremst eins og önnur útgerðarfyrirtæki sem okkur þóttu ekki greiða sanngjarnt verð fyrir auðlindina. Og, já, ég var örugglega þung og reið. Høgni var líka fastur fyrir og þarna hafði verið tekist á um samninga í tengslum við deilistofna milli þjóðanna og örugglega komin smá kergja í okkur. Mér fannst að þarna hefði verið hægt að eiga betra samráð. Høgni gat alveg tekið upp símann og látið okkur vita af því hvað stæði til en það var bara ekki gert.“

En þetta var alveg vitað mál að þessi lagabreyting væri á dagskrá. Búið að fjalla um þetta í fréttum hér hálfu ári áður, þegar Høgni Hoydal kom hingað sérstaklega til að kynna þetta á opnum fundi?

„Já en það var aldrei á nokkrum tímapunkti neitt samráð haft við okkur þessar fyrirætlanir. Og gott og vel, ég get alveg skilið að í Færeyjum eins og hér uppi á Íslandi séu margir sem vilji síður að útlendingar fjárfesti í íslenskum sjávarútvegi, en engu að síður voru þessar heimildir til staðar inni í þessum þjóðréttarsamningi. Og það var þetta sem við vorum að verja og það er það sem ráðherrar eiga að gera.“

Kjósa
20
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Kári Jónsson skrifaði
    Hverju er Þorgerður Katrín tilbúin að ljúga til um næst ? Nei það er ekki hlutverk íslenskra ráðherra að hlutast til um innanríkismál annarra þjóða, með frekju og yfirgangi ! Kjósendur Viðreisnar ættu að spyrja sig viljum við hafa formann, sem þverbrýtur allar samskiptareglur og er tilbúin að ljúga til um það ?
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár