Þórsmörk, sem á útgáfufélag Morgunblaðsins og tengdra miðla, einu starfandi dagblaðaprentsmiðju landsins og dreifingarfyrirtækið Póstdreifingu, tapaði 244 milljónum króna á síðasta ári. Félagið hagnaðist um 186 milljónir króna á árinu 2021 en á því ári frestaði það hins vegar greiðslu á staðgreiðslu launa starfsmanna og tryggingagjaldi upp á alls 192,9 milljónir króna, eða fyrir rúmlega þá upphæð sem nam hagnaðinum. Um var að ræða vaxtalaust lán úr ríkissjóði sem veitt var vegna kórónveirufaraldursins sem þarf að endurgreiðast að fullu fyrir mitt ár 2026. Greiðslur áttu að hefjast í fyrra.
Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Haraldi Johannessen, framkvæmdastjóra Þórsmerkur og annars ritstjóra Morgunblaðsins, að það sem ýtt hafi rekstri félagsins í tap á síðasta ári hafi fyrst og fremst verið áhrifin af falli Fréttablaðsins, sem hætti þó ekki starfsemi fyrr en í marslok 2023, og verðbætur á lán vegna hækkandi verðbólgu. „Erfitt rekstrarumhverfi fjölmiðla átti vitaskuld sinn þátt í hvernig fór hjá Fréttablaðinu og skyndilegt brotthvarf þess hafði umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur samstæðunnar í fyrra. Ástæðan er sú að við áttum saman dreifingarfyrirtæki og Fréttablaðið var stór viðskiptavinur þess.“
Ársreikningur Þórsmerkur hefur ekki verið birtur í ársreikningaskrá Skattsins. Í fréttinni kemur fram að tekjur samstæðunnar hafi numið tæpum fimm milljörðum króna á árinu 2022 og að eignir samstæðunnar um síðustu áramót hafi verið tæpir 4,2 milljarðar króna. Það eru svipaðar tekjur og samstæðan hafði 2021, þegar þær voru rúmlega 4,9 milljarðar króna, en eignastaðan hefur stórbatnað á milli ára. Eignir Þórsmerkur voru 2,5 milljarðar króna í lok árs 2021 samkvæmt samstæðureikningi en eru metnar á 4,2 milljarða króna í lok árs 2022, samkvæmt frétt Morgunblaðsins.
Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs fært í móðurfélagið
Dótturfélög Þórsmerkur; Árvakur, Landsprent og Póstdreifing, hafa heldur ekki skilað inn ársreikningi vegna síðasta árs til ársreikningaskráar. Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, skilaði hagnaði upp á 110 milljónir króna á árinu 2021. Rekstrartap félagsins var hins vegar 113 milljónir króna. Ástæðan fyrir hagnaðinum fólst í hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga, sem var jákvæð um 243 milljónir króna. Þar skipti langmestu hlutdeild í Landsprenti, en hún var 196 milljónir króna á því ári. Án þess hagnaðar sem Landsprent, sem rekur einu starfandi dagblaðaprentsmiðju landsins, sýndi hefði Árvakur því verið rekinn í tapi á árinu 2021.
Árvakur er á meðal stærstu viðskiptavina Landsprents sem átti kröfur á tengd félög upp á 730,3 milljónir króna í lok árs 2021. Þær kröfur, sem voru á Árvakur, uxu um 410,2 milljónir króna á tveimur árum, frá byrjun árs 2020 og út árið 2021. Með því sparaði Árvakur sér greiðslur tímabundið, en stórjók skuldir sínar við félag í sinni eigu.
Á hluthafafundi sem haldinn var 27. september í fyrra var ákveðið að færa Landsprent út úr Árvakri og til móðurfélagsins Þórsmerkur. Í fundargerð stjórnarfundar Þórsmerkur sagði að á sama tíma hafi verið samþykkt hlutafjáraukning upp á 400 milljónir króna „sem þegar hefur verið samþykkt á árinu og greidd til félagsins.“
Við skiptinguna lét Árvakur af hendi eignir sem metnar voru á 997 milljónir króna og skuldir upp á 721 milljón króna. Eignin sem færð var yfir var bókfært virði Landsprents. Skuldin sem færðist yfir var að uppistöðu skuld Árvakurs við Landsprent, sem hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum.
Eftir skiptinguna fóru eignir Árvakurs, sem á Morgunblaðið, mbl.is og K100 og tengda miðla, úr tæplega 2,2 milljarði króna í 1,2 milljarð króna og eignir Þórsmerkur hækkuðu að sama skapi um tæpan milljarð króna.
Áætlað tekjutap um einn milljarður
Þórsmerkur-samstæðan átti svo Póstdreifingu, eina fyrirtækið á Íslandi sem ræður við að dreifa dag- eða vikublöðum, á móti Torgi, útgáfufélagi Fréttablaðsins, auk þess sem framkvæmdastjóri Póstdreifingar á hlut í því. Torg ákvað í byrjun árs 2023 að hætt yrði að dreifa Fréttablaðinu inn á heimili fólks, líkt og gert hafði verið frá því að fríblaðið var stofnsett árið 2001. Með því að hætta dreifingu í hús áætlaði Torg að Póstdreifing yrði af um einum milljarði króna í tekjum á þessu ári, en heildartekjur þess fyrirtækis voru um 1,7 milljarðar króna árið 2021.
Þessi ákvörðun var upphafið að endalokunum hjá Torgi, sem reyndi að dreifa Fréttablaðinu á fjölförnum stöðum á borð við matvöruverslanir og bensínstöðvar í staðinn. Lesturinn hrundi og Fréttablaðið hætti að koma út í lok mars. Torg lýsti sig gjaldþrota í byrjun apríl. Lýstar kröfur í búið voru 1,5 milljarðar króna en eignir eru taldar vera um 100 milljónir króna. Póstdreifing var ekki á meðal þeirra sem lýstu kröfum í búið.
Himinháar afskriftir
Viðskiptabanki Árvakurs, Íslandsbanki, afskrifaði um 3,5 milljarða króna af skuldum félagsins í aðdraganda þess að félagið var selt nýjum eigendahópi undir hatti Þórsmerkur. Síðari lota afskrifta af skuldum Árvakurs við bankann átti sér svo stað árið 2011 og var upp á einn milljarð króna á þávirði. Þessar upphæðir eru mun hærri á núvirði.
Í maí 2019 var ákveðið að lækka hlutafé í Þórsmörk um einn milljarð króna. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskráar var það gert til jöfnunar á tapi.
Við það lækkaði hlutafé Þórsmerkur úr 1,6 milljarði króna í 606,6 milljónir króna. Það þýddi að eigendur félagsins hafa afskrifað milljarð af því fjármagni sem þeir settu inn í félagið.
Kjarninn greindi frá því í mars í fyrra að hlutafé í Þórsmörk hafi verið aukið um 100 milljónir króna þann 31. janúar sama ár. Aðilar tengdir Ísfélagi Vestmannaeyja og félag í eigu Kaupfélags Skagfirðinga greiddu stærstan hluta hennar.
Þetta var í þriðja sinn frá árinu 2019 sem nýtt hlutafé var sett inn í rekstur fjölmiðlasamsteypunnar til að mæta taprekstri hennar. Í byrjun árs 2019 var hlutaféð aukið um 200 milljónir króna. Kaupfélag Skagfirðinga og félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja lögðu til 80 prósent þeirrar aukningar. Sumarið 2020 var hlutaféð aukið um 300 milljónir króna og kom allt féð frá þeim eigendahópi sem var þegar til staðar. Að viðbættri þeirri hlutafjáraukningu sem ráðist var í í upphafi árs 2021 hefur móðurfélagi Árvakurs því verið lagt til 600 milljónir króna frá byrjun árs 2019.
Milljarðatap og miklu fé dælt inn
Frá því að nýir eigendur tóku við rekstri Árvakurs í febrúar 2009 undir hatti Þórsmerkur og til loka árs 2020 hefur útgáfufélagið tapað yfir 2,7 milljörðum króna. Eigendahópurinn, sem hefur tekið einhverjum breytingum á tímabilinu, hefur nú lagt Árvakri til samtals tvo milljarða króna í nýtt hlutafé.
Stærsti eigandinn er Guðbjörg Matthíasdóttir og börn hennar, í gegnum félögin Hlyn A og Ísfélag Vestmannaeyja. Samanlagt á sá hópur 28 prósent hlut.
Næst stærsti eigandinn eru Íslenskar Sjávarafurðir, í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, með 19,5 prósent eignarhlut.
Legalis, félag sem Sigurbjörn Magnússon, faðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og stjórnarformaður Þórsmerkur, veitir forstöðu á 13,9 prósent. Félagið Í fjárfestingar ehf., í eigu Katrínar Pétursdóttur, forstjóra Lýsis, og Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar, stjórnarformanns Ísfélags Vestmannaeyja, á 8,72 prósent. Auk þess á Lýsi beint 2,96 prósent hlut.
Félag Eyþórs Arnalds, Ramses II, á enn 12 prósent hlut en það keypti hlut Samherja í samstæðunni fyrir nokkrum árum síðan. Ramses II greiddi ekkert fyrir hlutinn, heldur fékk seljendalán. Það lán var svo afskrifað.
hendur sínar á samningi við fjölda morðingjan Pútin.