„Það er mín skoðun, og það eru fleiri á henni af gömlu seðlabankastjórunum, að kannski hafi verið gerð mistök þar varðandi það hvernig var brugðist við kórónuveirufaraldrinum. Þá er ég ekkert að tala um Ísland sérstaklega.“
Þetta segir Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, í ítarlegu viðtali sem birtist við hann í 40 ára afmælisriti Vísbendingar sem kemur út í dag. Þar ræðir hann meðal annars stöðuna sem er uppi í hagkerfinu á Íslandi nú um stundir en líka stöðuna alþjóðlega. Auk þess horfir Már yfir þann áratug, frá 2009 til 2019, sem hann gegndi stöðu seðlabankastjóra og tjáir sig opinskátt um ýmis álitamál og átök sem komu upp á þeim tíma.
Mikill ruglingur í umræðu um aðhald
Már segir í viðtalinu að það sem sé í gangi á Íslandi sé eftirspurnarverðbólga. Umsvifin í hagkerfinu séu einfaldlega of mikil. „Við verðum að hætta að tala um að þetta sé fasteignamarkaðnum að kenna. Að þetta sé Reykjavík að kenna. Að þetta sé hinu og þessu að kenna. Þetta er bara það sem þetta er. Umsvifin eru umfram það sem kerfið þolir. Það er of mikil innlend eftirspurn og það verður auðvitað að kæla hana. Oft segir fólk: Já, það er verðbólga en góðu fréttirnar eru að það er mikill hagvöxtur. Það er hins vegar bara hin hliðin á sama peningnum.“
Hann segir mikinn rugling vera í umræðunni um aðhald í ríkisfjármálum. „Þegar hagfræðingar eins og ég tala um aðhald í ríkisfjármálum þá eigum við ekki við aðhald í ríkisútgjöldum heldur aðhaldið sem útgjöld og skattar hins opinbera hafa á innlenda eftirspurn. Því er hægt að ná fram bæði á skatta- og útgjaldahliðinni.“

Þótt verðstöðugleiki sé aðalmarkmið Seðlabankans þá geti það ekki verið eina markmið stjórnvalda sem hafi almennari markmið um að efla almannahag með sjálfbærum hætti. „Það er auðvitað hægt að ná niður verðbólgu á morgun með nógu drastískum aðgerðum. Með því að tæma hús, senda fólk úr landi í stórum stíl og loka heilu atvinnugreinunum. Þá dettur þenslan niður. En það er ekki það sem við viljum. Við viljum hafa aðlögunarferli að þessu markmiði og forðast of mikinn fórnarkostnað af of snöggri niðurkeyrslu verðbólgunnar. Við viljum gefa okkur tíma til þess.“
Ísland ræður ekki við svona vöxt
Mikill hagvöxtur á Íslandi á undanförnum árum hefur verið drifinn áfram af vexti í ferðaþjónustu. Í viðtalinu segir Már að hagvöxtur hérlendis, sem var 6,4 prósent, hafi ekki verið sjálfbær og að Ísland ráði ekki við svo mikinn vöxt. „Það ástand sem við erum að horfa upp á nú, og er ein ástæðan fyrir því að það er svona mikil umframeftirspurn í hagkerfinu, er snörp viðreisn ferðaþjónustunnar. Þá þarf að beina sjónum að því að vera með einhvers konar stýritæki sem dempar sveiflur og vöxt í ferðaþjónustu þegar hann verður of mikill.“
Aðspurður um hvers konar stýritæki, bendir Már í fyrsta lagi á að það þurfi ekki að vera með örvandi hvata fyrir grein sem sé orðin jafn öflug og raunin er með ferðaþjónustuna. „Aukinn straumur ferðamanna veldur hliðaráhrifum á aðra og sum þeirra eru neikvæð. Hún býr til kostnað fyrir þá sem fyrir eru og í prinsippinu ættu ferðamennirnir og greinin að greiða þann kostnað, til dæmis með komugjöldum, gistináttagjöldum eða með gjaldtöku á ferðamannastöðum. Það er þó ekki mitt að koma með patentlausnir á því. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa að ákveða það kerfi.“
„Það þarf að hýsa þessar hendur“
Ferðaþjónustan hafi aukið tekjuflæði inn í hagkerfið, keyrt upp raungengi og búið til neysluspennu. „Þetta er vinnuaflsfrek grein og hún tekur til dæmis undir sig mikið húsnæði, bæði til að hýsa ferðamennina og starfsmennina. Þá skapast þær aðstæður að það vantar húsnæði og allir fara að tala um að það þurfi að byggja meira. En til þess þarf meira en lóðir og lánsfé. Það verða að vera til vinnandi hendur og það þarf að hýsa þessar hendur. Þarna er eitthvað sem vantar upp á. Það þarf að taka umgjörðina í kringum ferðaþjónustuna til skoðunar til að draga úr neikvæðum hliðaráhrifum hennar.“
Áskrifendur Vísbendingar geta lesið viðtalið við Má í heild sinni í 40 ára afmælisritinu,eða á glænýrri heimasíðu ritsins, sem verður opnuð síðar í dag. Slóðin á hana er www.visbending.is.
Athugasemdir (1)