Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Hjálpar samlöndum að komast inn í samfélagið á Austurlandi

Iryna Boi­ko flutti til Ís­lands fyr­ir um tólf ár­um síð­an frá Úkraínu og starfar sem nagla­fræð­ing­ur á Eg­ils­stöð­um. Hún hef­ur aldrei sótt ís­lensku­nám­skeið en stýr­ir nú slík­um sjálf, fyr­ir samlanda sína sem hafa flú­ið stríð­ið í Úkraínu til Aust­ur­lands, að­al­lega karl­menn sem dvelja í gömlu heima­vist­ar­húsi á Eið­um. Heim­ild­in ræddi við Irynu á Eg­ils­stöð­um og kíkti í heim­sókn til Eiða.

Hjálpar samlöndum að komast inn í samfélagið á Austurlandi
Á Egilsstöðum Þrátt fyrir að hafa sjálf aldrei farið á íslenskunámskeið stýrir Iryna Boiko þeim nú sjálf. Tungumálið hefur hún lært af konunum sem koma til hennar í neglur. Mynd: Arnar Þór Ingólfsson

Iryna Boiko flutti til Íslands frá Úkraínu árið 2011 og hefur brátt verið tólf ár hér á landi, ásamt eiginmanni sínum. Hún bjó um sex ára skeið á Borgarfirði eystra en hefur nú verið á Egilsstöðum í hartnær sex ár. Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu tók fjölskylda hennar á móti alls sjö manns úr hópi nánustu fjölskyldu og vina. 

„Það var mamma mín, mágkona með son, vinkona mín með son og frænka mannsins míns og svo seinna kom tengdamamma mín,“ segir Iryna í samtali við Heimildina, á kaffihúsi á Egilsstöðum.

Hún segir fjölskylduna hafa spjarað sig vel í samfélaginu fyrir austan frá því að þau komu. Mágkona hennar hafi fengið vinnu og húsnæði á Borgarfirði eystra, þar sem strákurinn hennar gangi í skóla. Mamma hennar, sem starfaði sem kjötiðnaðarkona í Úkraínu, er komin með vinnu í býtibúri hjúkrunarheimilisins á Egilsstöðum, vinkona hennar farin að vinna á snyrtistofu í bænum og frænka eiginmanns hennar stendur nú afgreiðsluvaktir í apóteki Lyfju í bænum. 

Í samfélagsfræðslu og íslenskukennslu

Fyrir utan að vera fjölskyldu sinni innan handar við aðlögun að samfélaginu hefur Iryna einnig komið að fræðslu og íslenskukennslu fyrir þann hóp Úkraínumanna, aðallega karlmanna, sem flust hafa í Múlaþing í kjölfar þess að nýir eigendur fasteignanna á Eiðum buðu fram heimavistarhús gamla Alþýðuskólans undir flóttafólk frá Úkraínu. Um 20 manna hópur kom þangað síðasta haust.

Iryna segir að Austurbrú, sem er sjálfseignarstofnun sem kemur m.a. að byggða-, mennta- og atvinnumálum á Austurlandi, hafi haft samband við hana og beðið hana um að taka þátt í þessari samfélagsfræðslu og síðar íslenskukennslu. Hún segist hafa verið hikandi við að taka að sér kennslu, enda sé hún ekki kennari og hafi raunar aldrei farið á neitt íslenskunámskeið sjálf, heldur lært íslensku af konunum sem koma í neglur til hennar, en Iryna starfar sem naglafræðingur á Egilsstöðum.

„Ég fór aldrei á námskeið sjálf, ég lærði bara íslensku af konunum sem koma í neglur til mín. Ég er með góða kennara.“
Iryna Boiko

Hún segir tungumálið kannski vera það sem helst vefjist fyrir úkraínsku fólki, bæði börnum og fullorðnum, sem kemur til Íslands. „Þetta er erfitt því það eru svo fáir frá Úkraínu sem tala ensku,“ segir Iryna og minnist á að á Egilsstöðum hafi verið reglulegir hittingar á vegum Sóroptimistaklúbbsins sem úkraínsku konurnar í hennar nærumhverfi hafi sótt. 

„Við vorum að mæta einu sinni í viku í Safnahúsið að prjóna saman, spjalla og fá okkur kaffi og te. Það voru margar íslenskar konur að koma og tungumálið var aðalvandamálið. Ég var aðeins að túlka, en það er erfitt þegar það eru margir í einu,“ segir Iryna, en nefnir að prjónaskapurinn og þær alþjóðlegu aðferðir sem beitt er í honum hafi brotið niður tungumálamúrinn að einhverju leyti.

Hún segir blaðamanni að í hennar íslenskukennslu sé byrjað alveg frá grunni. Tímarnir séu þó krefjandi fyrir nemendurna þar sem afar erfitt reynist að brjóta úkraínskar tungur utan um sum íslensk orð, en á sama tíma sé verkefnið skemmtilegt. „Maður er alltaf hlæjandi,“ segir Iryna. 

Enginn að kvarta úti á Eiðum

Spurð út í það hvernig þeim nemendum hennar sem dvelja eða dvalið hafa á Eiðum þyki aðbúnaðurinn og það að vera þar, segir hún að vissulega hafi komið til tals að Eiðar séu svolítið einangraður staður.

„En þetta er betra en ekkert. Það er erfitt að fá húsnæði, eins og alls staðar og kannski sérstaklega á Austurlandi, en ég held að þeir séu flestir mjög ánægðir að vera þar. Það er búið að gera ýmislegt fyrir þá, það er rúta þrisvar á dag og þeir sem eru að vinna hjá Alcoa hafa kost á að leigja bíl og sumir eru búnir að kaupa sér bíla. Ég heyri ekki neitt kvart, enginn er að kvarta. Auðvitað er það allt öðruvísi að vera með svona sameiginlegt eldhús og baðherbergi, ekki allir sem eru að fíla það, en eins og ég segi, þetta er betra en ekkert,“ segir Iryna.

Nokkur hluti þeirra sem hafa komið til Eiða til dvalar hefur flutt í burtu síðan, en Iryna segir um 20 manns hafa komið í fyrsta hollinu til Eiða. Af þeim hefur allavega helmingurinn flust til Fjarðabyggðar, þar sem fólk hafi fengið atvinnu þar. „Ég held að átta manns hafi flutt á Reyðarfjörð og tveir karlar hafi farið á Fáskrúðsfjörð, en hinir séu úti á Eiðum,“ segir Iryna.

Hún segir Úkraínumenn hafa verið rosalega heppna að komast til Íslands, þó að innviðir hér hafi ekki verið tilbúnir fyrir jafnmarga flóttamenn og komu. „Það var allt rosalega erfitt fyrst með leyfi, að fá kennitölu og svona,“ segir Iryna, sem stóð í stappi við Útlendingastofnun fyrir þau mál. Hún segir að afgreiðsla mála þeirra sem voru úti á landi hafi gengið hægar en dæmi hafi verið um fyrir sunnan. 

„Fólk var búið að finna vinnu löngu áður en það fékk leyfi. Það tók alveg þrjá mánuði að fá kennitölur og ég veit að fyrir sunnan var það stundum bara vika eða tíu virkir dagar. Fyrir þau sem voru nálægt var þjónustan betri,“ segir Iryna.

Lífið í Úkraínu strembið jafnvel fyrir stríð

Hún segir að hennar fólk sé ánægt á Íslandi, en mamma hennar til dæmis segist ætla að fara heim þegar stríðinu ljúki. „En það kemur í ljós, hvenær það verður búið,“ segir hún og bætir við að jafnvel fyrir stríð hafi lífið verið erfitt í Úkraínu, vandræði verið með vinnu og margir atvinnulausir. „Og það verður örugglega enn erfiðara seinna. Það er erfitt að segja til um hvernig morgundagurinn verður.“

Iryna segir að margir Úkraínumenn sem starfi hér séu að safna fé og senda til fjölskyldu og vina sem eru í Úkraínu. Þær fjárhæðir geti verið háar í úkraínsku samhengi. „Þetta er allt öðruvísi líf í Úkraínu og allt öðruvísi tekjur. Það er misjafnt hvar fólk er að vinna og hvað fólk er að gera. Eins og mamma, hún vann í kjötvinnslu, sem kjötiðnaðarmaður, og hún var að vinna níu tíma á dag fimm daga í viku og var að fá sirka 60 þúsund íslenskar krónur á mánuði.“

Hún segir að líf barnafólks í Úkraínu geti verið mjög strembið. Mikill kostnaður fylgi til dæmis skólagöngu, sem ekki sé til staðar hér. „Ég veit ekki hvernig þetta er í öðrum bæjum en á Egilsstöðum, en ég á stelpu sem er 11 ára og hún er í 5. bekk og ég kaupi ekki neitt, bara skólatöskuna. Hún á allt, fær allt í skólanum bara. Allt sem þarf, blýanta og liti og annað, en í Úkraínu þarf fólk að kaupa allt fyrir sitt eigið barn. Og skólabúninga fyrir börnin einu sinni á ári. Það kostar allt!“

Kjósa
14
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár