Sem arkitekt, kennari og fræðimaður hef ég undanfarin tuttugu ár rannsakað og fjallað um félagsleg og pólitísk rými, sem og stað manneskjunnar í heiminum, skynjun hennar og tengsl við umhverfið. Mér hefur því þótt áhugavert að fylgjast með umræðum um nýjar áherslur Háskóla Íslands um starfsaðstöðu kennara sinna.
Á undanförnum áratugum hefur skrifstofuumhverfi verið í endurskoðun og eftirspurn hefur verið eftir lausnum sem hámarka framleiðni, endurspegla örvandi og nútímalegan vinnustað – og ekki síst lágmarka fjölda fermetra.
Ein slík aðferð er kölluð verkefnamiðuð vinnurými, á mannamáli opin skrifstofurými með stuðningsrýmum; funda- og vinnuherbergjum í mismunandi stærðum, símaklefum og næðisrýmum. Gjarnan er ætlast til að starfsmaður hreinsi vinnustöðina í dagslok, komi vinnugögnum fyrir í skáp – og finni sér nýja starfsstöð að morgni. Viðmið í þessa veru hafa nýlega verið sett fram af fjármála- og efnahagsráðuneytinu fyrir allar opinberar stofnanir – Alþingi sótti þó um og fékk undanþágu.
Nýjar rannsóknir hafa leitt í ljós að verkefnamiðuð vinnurými, rétt eins og önnur opin vinnurými, reynast ekki vel til lengdar. Þegar nýjabrum hverfur upplifir starfsfólk aukna streitu og minni starfsánægju, veikindadögum fjölgar og framleiðni starfsfólks minnkar. Fólk reynir að lágmarka truflun í hinum sameiginlegu rýmum eða finnur sér aðra staði til að vinna á, sem á endanum leiðir til minni samskipta og minni viðveru. Jafnvel á vinnustöðum sem ekki krefjast sérstakrar einbeitingar er niðurstaðan sú sama – og rannsóknir sýna að sparnaðurinn í fermetrum vegur ekki upp á móti því tapi sem veikindi, vanlíðan og minni starfsánægja kostar.
Fræðastörf krefjast mikillar einbeitingar og því nauðsynlegt að hafa næði. Á skrifstofum akademískra starfsmanna eru bókasöfn þeirra og þar með í raun háskólans, fjarfundaaðstaða þeirra til samtals við erlenda og innlenda samstarfsaðila. Á skrifstofum sínum fundar fólk, m.a. í leiðsögn við nemendur – og opin hurð býður samstarfsfólki að kíkja inn í gáttina til óformlegs samtals yfir kaffibolla.
Lýðræðislegur háskóli er fjársjóður og framtíð samfélagsins. Framtíðin býr í nemendum – en fjársjóðurinn býr í iðrum skólans, í wunderkammerum starfsfólksins. Þar býr þekkingin og þar verður hún til. Þaðan er henni miðlað til nemenda í áþreifanlegri veru, þar sem t.d. bók er gripin úr hillu í lifandi samtali. Í sterílu fundarherbergi gerast ekki sömu töfrar, þar er ekki gripið í bók, þar birtist ekki sama vera.
Takmarkaðar upplýsingar liggja á lausu um útfærslur verkefnamiðaðs vinnurýmis í háskólasamhengi eða starfsánægju starfsfólks eftir slík umskipti. Háskólinn í Malmö reyndi þetta fyrirkomulag – og sneri til baka innan nokkurra ára með ærnum tilkostnaði. Starfsfólk mætti einfaldlega ekki í vinnuna, vann heima eða leigði sér skonsu úti í bæ – skólinn stóð auður.
Vissulega er til fólk sem þrífst í opnu starfsumhverfi, fólk sem nærist á umgangi og orkunni frá öðru fólki. Hvort heldur sem er þykir flestum þó best að geta stjórnað sínu umhverfi, gert það að sínu, mótað það að þörfum sínum og persónu.
Og fólk þarf frið. Í nútímasamfélagi, í endalausum erli sem hefur alvarleg áhrif á andlega heilsu fólks, þarf ekki meira áreiti. Sérstaklega ekki við störf sem krefjast mikillar einbeitingar. Þvert á móti. Friður og stjórn á umhverfi sínu er orðinn einn verðmætasti þáttur í lífsgæðum manneskjunnar. Fyrir tæpri öld færði Virginia Woolf rök fyrir því að skapandi manneskja þyrfti, áhugavert nokk, meðalmánaðarlaun háskólakennara og einkaherbergi til að geta skapað yfir höfuð. Fyrir tæpri öld voru félagsfræðingar byrjaðir að vara við áhrifum yfirdrifins áreitis á fólk – í dag eru það geðlæknar samtímans sem gera hið sama.
Háskólinn þarf að spyrja sig hvað hann vill vera. Hér eru fermetrar dýr sparnaður – tóm vinnurými eru sorglegur grunnur þess fjársjóðs sem háskóli ætti að vera.
Höfundur er arkitekt.
Athugasemdir