Icelandair hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á 13 flugvélum frá flugvélaframleiðandanum Airbus. Auk þess felur yfirlýsingin í sér kauprétt á tólf flugvélum til viðbótar. Alls er því um að ræða 25 vélar af Airbus A320neo-fjölskyldu flugvéla sem búa bæði yfir mikilli drægni og eru mun sparneytnari en eldri vélar. Fyrstu vélarnar verða afhentar árið 2025.
Í tilkynningu er kaupverðið sagt trúnaðarmál og að fjármögnun verði „ákveðin þegar nær dregur að afhendingu þar sem fjölbreyttir fjármögnunarkostir verða skoðaðir.“
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningu að nýju vélarnar muni gera félaginu kleift „að þróa viðskiptalíkan félagsins enn frekar í flugi yfir Atlantshafið og jafnframt skapa tækifæri til að sækja á nýja og spennandi markaði.“
Hætta að versla við Boeing
Viljayfirlýsingin boðar kúvendingu í flugvélakaupum Icelandair. Sem stendur er allur floti félagsins frá hinum stóra flugvélaframleiðandanum, hinu bandaríska Boeing. Uppistaðan í flotanum síðustu áratugi hafa verið 757-vélar frá þeim framleiðanda en þær eru komnar vel til ára sinna, hafa ekki verið framleiddar í 18 ár, eyða um fjórðungi meira af eldsneyti en nýrri vélar og útheimta umtalsverðan viðhaldskostnað.
Til að takast á við þessa stöðu, með það fyrir augum að hætta rekstri 757-vélanna, pantaði Icelandair 16 737-MAX vélar af Boeing árið 2013 og hafði fengið sex þeirra afhentar áður en að vélarnar voru kyrrsettar í mars í 2019. Kyrrsetningin á vélunum kom til eftir flugslys í Eþíópíu, 13. mars 2019, þegar 157 létust skömmu eftir flugtak Max vélar Ethiopian Airlines. Það var þá annað slysið á skömmum tíma þar sem Max vél hrapaði með þeim afleiðingum að allir um borð létust. Fyrra slysið var 29. október 2018, þegar vél Lion Air í Indónesíu hrapaði skömmu eftir flugtak. Þá létust 189, allir um borð.
Í ágúst 2020, þegar Icelandair var í miklum rekstrarvanda og stóð frammi fyrir því að ráðast í hlutafjárútboð til að bjarga sér, var gengið frá samkomulagi við Boeing sem í fólst að vélum sem Icelandair er skuldbundið til að kaupa til viðbótar, á grundvelli samningsins frá 2013, var fækkað úr tíu í sex. Auk þess var afhendingu þeirra frestað.
MAX-vélarnar voru ekki teknar aftur í notkun hjá Icelandair fyrr en í mars 2021, og höfðu þá verið kyrrsettar í tvö ár á meðan að unnið var að úrbótum á þeim, með tilheyrandi skaða á rekstur Icelandair.
Síðan þá hefur Icelandair bætt við sig MAX-vélum á leigu og alls eru nú 15 slíkar í flota félagsins. Auk þess heldur Icelandair enn úti 13 gömlum 757-vélum, en þeim verður skipt út fyrir Airbus-vélarnar í nánustu framtíð, og þremur 767-vélum.
80 milljarða króna tap á örfáum árum
Kyrrsetning MAX-vélanna hafði mikil neikvæð áhrif á rekstur Icelandair. Þegar það virtist ætla að rofa til í þeim efnum skall kórónuveirufaraldurinn á með lamandi áhrifum á flugsamgöngur, sem leiddi af sér enn meiri taprekstur.
Erfiðleikar í rekstri voru raunar byrjaðir áður en ofangreind áföll skullu á. Árið 2018 tapaði félagið 6,8 milljörðum króna, 7,8 milljörðum króna ári síðar og 2020 var tapið heilir 51 milljarður króna. Tapið 2021 var 13,7 milljarðar króna en í fyrra dróst það verulega saman. Icelandair tapaði samt 826 milljónum króna. Alls hefur félagið því tapað um 80 milljörðum króna frá árinu 2018.
Sú rekstrarniðurstaða verður líka að skoðast í samhengi við það að Icelandair fór tvívegis í hlutafjáraukningu eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Félagið safnaði alls 23 milljörðum króna í útboði sem fór fram í september 2020, meðal annars frá íslenskum almenningi. Í því þurftu þeir sem þegar áttu í Icelandair að sætta sig við að eign þeirra þynntist verulega út, en á meðal þeirra voru íslenskir lífeyrissjóðir. Þegar hlutafjárútboðið fór fram var liðinn áratugur frá því að rekstur Icelandair var endurskipulagður síðast. Stórir lífeyrissjóðir, sem stóðu frammi fyrir þynningu á eign, höfðu ekki farið vel út úr fjárfestingu sinni í félaginu á því tímabili, líkt og greint var frá í Kjarnanum 2020.
Icelandair fór svo í aðra hlutafjáraukningu sumarið 2021, þegar félagið gerði bindandi samkomulag við bandaríska fjárfestingarsjóðinn Bain Capital um að hann keypti nýtt hlutafé í flugfélaginu. Ekkert eitt fyrirtæki á Íslandi fékk meiri stuðning úr ríkissjóði á meðan að á kórónuveirufaraldrinum stóð en Icelandair.
Þegar Icelandair kynnti uppgjör sitt vegna síðasta árs gætti þó umtalsverðrar bjartsýni hjá forstjóra félagsins. Í tilkynningu til Kauphallar var haft eftir Boga Nils að sterk tekjumyndun með met farþegatekjum á seinni hluta ársins og stórbætt EBIT hlutfall á síðasta ári hafi sýnt að viðskiptalíkan félagsins hafi enn og aftur sannað gildi sitt. „Við höfum náð vopnum okkar og höldum ótrauð áfram, sterkari en nokkru sinni fyrr, með stærstu flugáætlun í sögu félagsins á þessu ári þegar kemur að tíðni og fjölda áfangastaða.“
Athugasemdir (4)