Þessi grein birtist fyrir rúmlega 13 mánuðum.

Kynntist Íslandi og kynnti heiminn fyrir Agnesi

Berg­ur Ebbi spjall­aði við ástr­alska skáld­sagna­höf­und­inn Hönnuh Kent sem er gest­ur Bók­mennta­há­tíð­ar í ár.

Kynntist Íslandi og kynnti heiminn fyrir Agnesi

HannahKent_7109 high res_Lauren Bamford.jpg

Hannah Kent

684720720.680666.jpg

Ungur skiptinemi á Íslandi árið 2003


 

Viðtal við ástralska skáldsagnahöfundinn Hönnuh Kent

 

Hannah Kent er ástralskur höfundur sem hefur sterk tengsl við Ísland. Hennar fyrsta skáldsaga, Burial Rites, segir frá Agnesi Magnúsdóttur og atvikum sem vörðuðu síðustu aftökuna á Íslandi en Kent kynntist sögnum af atburðunum þegar hún var skiptinemi á Íslandi upp úr síðustu aldamótum. Þessi fyrsta skáldsaga hennar hefur hefur verið þýdd á fjölda tungumála og kom út í íslenskri þýðingu undir nafninu Náðarstund árið 2014. Hannah Kent er gestur Bókmenntahátíðar í ár. Bergur Ebbi sló á þráðinn til hennar í Ástralíu og fyrsta spurningin var eðlilega um þessa tengingu hennar við Ísland og hvort hún hafi verið örlagavaldur í gifturíkum ferli hennar sem rithöfundur.

 

„Ég hafði að vísu viljað vera rithöfundur allt frá barnæsku, en það var margt varðandi veru mína á Íslandi sem veitti mér innblástur um gildi bókmennta,“ segir Kent en hún dvaldi á Íslandi í heilt ár strax eftir menntaskóla, aðeins átján ára gömul. "Ég á Íslandi margt að þakka. Að fá að dvelja á stað þar sem sögur, bókmenntir og rithöfundar eru svo ríkjandi þáttur í menningunni er eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað áður. Í Ástralíu er gjöful og lifandi menning en ég hafði ekki áður kynnst stað þar sem fólk var jafn duglegt að lesa og á Íslandi,“ segir hún og bætir við að hennar upplifun af Íslandi hafi jafnframt verið sú að hér á landi væri bókmenntum gert hátt undir höfði í fjölmiðlum.

 

Skrifin tekin alvarlega

Á Íslandi kynntist hún einnig fjölmörgu fólki sem hvatti hana til dáða í skrifum og nefnir sérstaklega eitt ákveðið dæmi. „Ég var búinn að vera tvo mánuði á Íslandi og var stödd í íslenskutíma en var þó ekki búin að ná tökum á tungumálinu. Ég var ekki alveg að fylgjast með því sem var í gangi í kennslustundinni heldur sat og skrifaði niður ljóð. Kennarinn var alvarlegur maður sem borin var mikil virðing fyrir og hann kom auga á að ég væri ekki að taka þátt í kennslustundinni heldur að skrifa ljóð. Viðbrögð hans voru þau að afhenda mér ljóðabók á íslensku sem einnig innihélt enskar þýðingar, og hvetja mig áfram í að skrifa ljóð en í ljós kom að hann var einnig ljóðskáld sjálfur. Þessi viðbrögð voru úr takti við allt sem ég hafði upplifað áður,“ segir hún og gefur í skyn að í heimalandi sínu hefði ekki verið tekið vel í að nemendur sinntu einhverju öðru en sjálfu námsefninu í kennslustundum. „Að hitta fólk sem tók skrif mín alvarlega og taldi þau vera einhvers virði var eitthvað sem hvatti mig áfram,“ segir Kent og ber Íslandi vel söguna.

 

Það var einnig á Íslandi sem hún kynntist sögunni af Agnesi Magnúsdóttur, sem við Íslendingar þekkjum vel - en þó kannski ekki nógu vel: „Þegar ég heyrði fyrst söguna af aftökunni þá var svo margt sem ég vildi spyrja um,“ segir Kent og bendir á að hún hafi viljað skilja Agnesi betur. „Lýsingin á Agnesi er um margt svo ótvíræð. Ég spurði mig hvort karakter hennar hefði ef til vill verið flóknari og margbreytilegri,“ segir hún og bætir við að þetta snúist ekki endilega um að hún telji Agnesi hafa verið saklausa heldur fremur að hlutskipti hennar, persónuleiki og saga hafi kallað á margslungnari frásögn.

 

Mikil rannsóknarvinna

Við þetta má bæta að Kent rannsakar sögur sínar gaumgæfilega og var Náðarstund einnig andlag rannsóknarverkefnis sem veitti henni doktorsgráðu í skapandi skrifum frá Flinders háskóla í heimaborg hennar Adelaide í Suður Ástralíu. Og það voru einmitt rannsóknir hennar á máli Agnesar sem komu henni á spor sinnar annarar skáldsögu, The Good People, frá 2016 en sú saga gerist einnig á 19. öld, en á Írlandi og segir af örlögum konu sem hafði ef til vill ekki áður verið gefin nægilega djúp skil í frásögnum. Og þá er áhugavert að spyrja hvort það skyldi vera einhver samhljómur milli írskra sagna og þeirra íslensku? „Svona almennt séð má eflaust segja margt um líkindi milli Íra og Íslendinga en ég vil nú ekki ganga of langt í neinum fullyrðingum. Ég tel þó að segja megi að í báðum þessum menningarheimum sé ákveðin virðing borin fyrir fólki sem hefur sjötta skilningarvitið, fyrir þeim sem hafa skilning á einhverskonar handanheimi,“ segir Kent og bætir við að svo séu þessar þjóðir að sjálfsögðu báðar mótaðar af því að vera eyjur sem voru undir hæl herraþjóða og eigi það ekki síst við um ástandið á þessum tveimur stöðum á 19. öld.

 

Kvikmyndaverkefni og framtíðin

Hannah Kent er fjölhæfur höfundur og auk skáldsagnagerðar og fræðiskrifa kom hún um árabil að útgáfu blaðsins Kill Your Darlings í Ástralíu, sem er bókmenntarit sem gefur nýjum röddum færi á að koma sér á framfæri sem hún telur afar mikilvægt. Þá hefur hún upp á síðkastið lagt lag sitt við handritaskrif en nýlega var frumsýnd kvikmyndin Run Rabbit Run sem gerð er eftir handriti hennar. Þá styttist einnig í kvikmyndaútgáfu Náðarstundar en það verður Jennifer Lawrence sem fara mun með hlutverk Agnesar Magnúsdóttur og þannig feta í fótspor Maríu Ellingsen sem leysti það hlutverk með mikilli prýði í kvikmynd Egils Eðvarðssonar frá 1995. Um kvikmyndaheiminn segir Kent að það sé góð tilbreyting að vinna að handritum enda feli skáldsagnaskrif í sér mikla einveru á meðan handrit séu gerð í meiri samvinnu við annað fólk. „Svo er hraðinn líka allt annar. Kvikmyndahandrit er eins og sprettur á meðan skáldsaga er maraþon,“ segir hún og segist glöð yfir að hafa möguleikann á að velja á milli miðla þegar kemur að skrifum.

 

Það styttist í komu Hönnuh Kent til Íslands og blaðamanni leikur forvitni á að vita hvað verði hennar fyrsta verk eftir að til landsins er komið. „Ætli ég muni ekki reyna að virkja þessar sellur í heilanum sem geyma eitthvað af íslenskukunnáttunni,“ segir hún og hlær. „Ég sakna þess að tala íslensku, ég hef ekki getað heimsótt landið í dágóðan tíma meðal annars vegna covid,“ segir hún og augljóst er að landið á sérstakan sess í hjarta hennar.



Kjósa
7
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • MB
    Magnús Bjarnason skrifaði
    Sammála Gísla Gíslasyni. Fyrirsögn greinarinnar er ekki rökrétt og er aulaleg.
    0
  • Gísli Gíslason skrifaði
    Eftir því sem ég best veit kynnti Hannah Kent Agnesi fyrir heiminum! Hún kynnti stúlkuna heiminum. Það var of seint að kynna henni heiminn!
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Bókmenntahátíð 2023

Mósaík stórstjarna á bókmenntahátíð – og heyrt í einni stjörnu ...
ViðtalBókmenntahátíð 2023

Mósaík stór­stjarna á bók­mennta­há­tíð – og heyrt í einni stjörnu ...

Nú, þeg­ar far­fugl­ar flykkj­ast til lands­ins, er að skella á Bók­mennta­há­tíð­in í Reykja­vík en hún hefst 19. apríl með æv­in­týra­lega til­komu­mik­illi dag­skrá – eins og alltaf. Þunga­vigt­ar­höf­und­ar á heims­mæli­kvarða streyma til lands­ins og land­an­um gefst færi á að spyrja þá spjör­un­um úr, plata þá til að skrifa á bæk­ur og heyra þá fjalla um verk sín.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár