Við skildum við Kant, mögulega í öngum sínum, sbr. hér í fyrri hluta greinar, ef fengið hefði hann höndlað allar þær hækjur nýrra máttvana sannana, allar nýju dulurnar, öll hin breyttu snið stagbættrar spekinnar, a.m.k. svo lengi sem hann hefði ekki fengið svarað því sjálfur hví heimurinn væri svo fullsaddur af staðhæfingum – eða hve annt hefði honum ekki annars verið um að fá áfram ræktað garðinn sinn?
Herragarðarnir, matarkistan sem aðall lénsskipulagsins hafði öldum saman gengið í, sem væri sín guðsgjöf, mynduðu vissulega höfuðstól einveldisins. Gegn því að uppskera kornið, sem hvern annan ávöxt jarðar sem arðbær mátti teljast, fengu og bændur og búalið að þjóna sjálfsþurft sinni og lávarðinum á himnum hinn sjöunda hvern dag, jafnvel þann sjötta einneginn, auk þess, eðlilega, sem erfiðið fékk umbunað þeim að kristilegri skipaninni allar tunglskinsbjartar nætur. Aðallinn hlaut að minnsta kosti að taka til sín sem mest hann mátti, svo æ þyngri var orðin í skauti hin borgarlega þjónusta kaupmanna og handverksmeistara, svo frekt sem hyski þeirra var líka orðið, hvað þá er svo var komið að sjálfur einvaldurinn krafðist ekki einungis hlutdeildar lénsmanna sinna og grandvörustu borgara í rekstri vísindalegrar akademíu heldur skyldi nú einnig uppfræða almenning!
Almenn lestrar- og skriftarkunnátta fól óumdeilanlega í sér gríðarlega áhættu, að ekki væri sagt beina mótsögn við guðfræðilega handleiðslu kennifeðranna. Strangtrúarlegt markmiðið var sannarlega afar háleitt – að fyrir milliliðalausan lestur ritningarinnar mættu þegnarnir öðlast svo hreinræktaða sáluhjálp að þeim léki þá ekki einungis Orðið á tungu heldur fengi hver og einn jafnframt staðfest skilning sinn og sálarheill í rituðu máli þegar að væri spurt; svo óvéfengjanlegur væri þá hugur allra trúrra þegna konungs til aðildar að þúsund ára ríki Krists.
En hver var þá tryggingin fyrir því að jafnvel hinir undirdánugustu tækju ekki að lesa hvaðeina, jafnvel rit heimspekinga á borð við Kant, svo hraðlæsir sem þeir væru þá orðnir á heilaga ritningu? Jafnvel að tækju að dreifa slíkum fagnaðarerindum sín á milli í uppskriftum!
Var akademíunni treystandi til að móta svo heimspeki ríkisins að ekki yrði út af brugðið? Myndu háskólar standast álagið af sókn fjöldans til frekara náms? Gæti konungur tryggt svo hið akademíska frelsi að eigi hefði áhrif út fyrir véböndin? Og hvert væri þá hið eiginlega hlutverk prestanna ef allir skyldu geta sagt sér allt sjálfir? Hverjum væri þá kennt, hverjum bent?
Svarið var fólgið í enn öflugri gagnbyltingu, enn frekari fræðslu og félagslegri mótun almennings, undirróðursmönnum ríkisins til höfuðs, og enn að algjöru frumkvæði Prússa – þessa öfluga veldis aðals og krúnu krossferðariddaranna sem öldunum fyrr höfðu deilt löndum sínum og lénum á meðal lágaðals ungherra, junkara, að launum fyrir hollustu þeirra við krúnu Krists, enda skyldu þeir ávallt leggja konungi lið, bænda sinna og búaliðs, sjálft fallbyssufóðrið, ríkinu til varnar og ævarandi eflingar ... Áfram, Kristsmenn, krossmenn, kóngsmenn erum vér ... Fram í stríðið stefnið, sterki æskuher ...
Kristur er hinn krýndi, kóngur vor á leið ...
Hvað sem postullegum efasemdum kennimanna leið og úrtölum hinna lendustu manna, skyldi almenn skólaskylda barna tryggja svo hið kristilega hugarfar, að eigi myndi einungis vera gerlegt að efna og til almenns og alhliða iðn- og gagnfræðanáms heldur skyldi félagsleg mótunin tryggja slíkan vöxt og viðgang almenningsháskóla að engir myndu standa þeim á sporði, né þá konungi vera hollari og trúrri hinu akademíska frelsi.
Undir lok annars áratugar 19. aldar, þá er þeir Marx og Engels voru rétt um það bil að líta heiminn fyrst augum, tók Vilhjálmur Friðrik III Prússakonungur til við að sameina hina dreifðu söfnuði mótmælenda í eina allsherjar þjóðkirkju, er þjóna skyldi sem brjóstvörn ríkisins í uppeldismálum, meðfram því að einvaldurinn setur á laggirnar alhliða ráðuneyti kirkju-, mennta- og heilbrigðismála, er vinna skyldi að slíkum úrbótum ríkinu til heilla að eigi myndi þá lengur stafa hætta af óróasömum borgurum né þá heldur af vaxandi stétt verkamanna í bæjum og borgum, þessu afsprengi alþýðunnar til sveita sem kunni sér aldrei nein frjósemismörk.
Sannarlega varð aldrei sú algjöra bylting sem hár og lágur aðallinn óttaðist, svo heillavænleg var hin kristilega heimspeki einvaldanna og uppfræðslustefnan. En þeim mun öflugri varð iðnbyltingin – svo snögg urðu veðraskiptin í ríki krossferðariddaranna, svo jafnvígur sem æskuherinn varð á hið flóknasta tæknimál sem heilaga ritningu, lestur og skrift jafnt sem hið tæknilegasta handverk og hugverk, að ekki komst nokkurt ríki með tærnar þar sem Prússar stóðu nú brátt á hæli og vöfðu veröldinni um fingur sér, og það í krafti slíkrar verkfræði að fallbyssukóngurinn Alfred Krupp hinn mikli kann vart að hafa skilið hana sjálfur, frekar en hinn kóngurinn.
Svo illskiljanlegur sem Kant líka var, jafnvel hinum allra læsustu akademíkerum, þá var hans gagnrýna skynsemishyggja einfaldlega of þung undir tönn, of stór biti að kyngja, slíkur óravegur sem lá frá stærðfræðinni, sem æskan nú tileinkaði sér með móðurmjólkinni, til alls óráðinnar frumspekinnar; kristileg lærdómskverin hlutu því að móta þann hugmyndafræðilega grunn, þá bjargföstu barnatrú, er iðnbyltingin skyldi reist á.
Þar sem ungherrar höfðu staðið í stafni stóðu nú iðnjöfrar með æ öflugra vald yfir öllum þeim hluta jarðargróðans sem raunverulegum arði skilaði, svo sífellt minna sem nokkuð var á herragörðunum að græða, nú sem jafnvel var farið að leggja hlutfallslega skatta á tekjur og hreinan hagnað einstaklinga, til öflunar fjár til æ fjárfrekari velferðar- og stríðsrekstursins, á sama tíma og þeir herramenn máttu etja kappi við hinn nýríka borgaraaðal, slítandi fyrir þeim búaliðið úr vistarböndum, krefjandist vinnuafls fyrir aur!
En svo lengi sem iðnjöfrarnir veittu ómældum tekjum sínum af æ framleiðnivæddari stál- og kolabúskapnum til sífellt öflugri vaxtar og eignamyndunar þá voru þeir að mestu leyti lausir undan skattbyrðinni, sem féll því vinnuaflinu þeim mun frekar í skaut er kjör þess tóku að batna – og þar með hagur alls stríðs- og velferðarrekstrarins – svo æ hlutfallslega minna sem vinnuaflið lagði þó til iðnvirðisaukans á móti vaxandi framleiðninni er stundir liðu fram. Gilti þá einu hve verkfræðingum, iðnaðarmönnum og iðnverkafólki fjölgaði hratt, nær skattfrjáls eignamyndun hinnar nýríku auðstéttar hélst engu að síður svo fast í hendur við framleiðniaukninguna að nam raunar veldisvexti á meðan hinn almenni miðlungsborgari mátti sætta sig við því hægari og línulegri vöxt kjara sinna, vissulega að ógleymdri býsna vaxandi velferðinni er lengra fram í sótti, að minnsta kosti á meðal hinna betur settu borgara, hvað sem annars óuppdregnum borgarlýðnum leið.
Landeigendaaðallinn hafði sáralítil slík tök á að auka við eignir sínar, erfðagóssið, líkt og hinn æ ríkari kola- og stálaðall við auðmagn sitt, svo takmörkuð sem hlutdeild þeirra ungherranna, junkaranna, var í jarðargróðanum, svo sífellt minna sem landbúnaðurinn gaf af sér í aðra hönd, allt það fornaldarinnar ríkulega lifibrauð, samanborið við óþrjótandi kolin og málmgrýtið sem iðnjöfrarnir bjuggu til gull sitt úr. Ævaforn, stjórnfarsleg tök junkaranna voru þeim þó slíkt haldreipi að nánast einu gilti hve miklum skuldum þeir hlóðu upp, þeir stóðu ávallt keikir, jafnvígir á báðar hendur, með sitt hreina borð. Þann skaða sem ekki varð goldið fyrir með styrkjum og eftirgjöfum á hinu konunglega þingi, Landtag, þar sem þeir höfðu öll tögl og hagldir í krafti síns Herrenhaus, bættu þeir sér upp þeim mun öflugar er tímar liðu fram, með landlausu farandverkafólki æ austar að, jafn afskrifanlegu sem skuldsettri fjárfestingu í allrahanda iðngörðum, herragörðum iðnbyltingarinnar, höfuðbólunum hinum nýju, slíkur sem var þá orðinn ofumáttur fallbyssukúlna hins sterka æskuhers.
Sjáið fagra fánann, frelsis blakta á meið ...
Þeir tóku að láta raust sína dynja, þeir Marx og Engels, þá þegar í blóma sinnar æsku, vaxnir úr grasi arfleifðar forfeðra sinna og þeirra sáðkorna sem Friðrik hinn mikli hafði upphaflega efnt til og Friðrik Vilhjálmur III frjóvgaði svo ríkulega, m.a. með stofnun Berlínarháskóla, eins áhrifamesta háskóla heims og fyrirmyndar þeirra flestra, þar sem þeir félagar dreyptu af skálum hins akademíska frelsis, og Marx svo drjúgt, verjandi doktorsritgerð sína þá rétt tæpra 23ja ára gamall – reyndar við hinn ævagamla háskóla í Jena, svo lítt erindi sem hann átti orðið upp á pallborð prófessora sinna í Berlín – að hann lét sig ekki um muna að fullyrða fyrir munn heimspekinnar sjálfrar, að væru kjörorð hennar, játning hennar gömul sem ný, andspænis sjálfsvitund mannsins sem hinnar æðstu veru: „Í stuttu máli, ég fyrirlít guðina alla.“
Báðir áttu sér rætur í jarðvegi strangtrúarlegra viðhorfa. Marx, reyndar lögfræðingssonur fyrir brotna hefð, alinn upp af foreldrum er snúist höfðu til kristni, átti í báðar ættir að telja til aldalangra raða rabbína, en Engels var af trúræknum píetistum kominn, reyndar sonur umsvifamikils iðjuhölds er átti drjúg ítök í enskum baðmullarverksmiðjum ekki síður en prússneskum. Þeim mun fremur kyntu þeir þó undir guðlausum hugmyndum sínum – er jafnvel mátti svo skilja að miðuðu að himnaríki á jörð! – þessir kálfar sem launuðu þannig ofeldið, frelsisfórnirnar er hinir aðalsbornu arftakar krossferðariddaranna höfðu mátt færa á altari upplýsingarinnar. Til hvers var þá unnið með slitum vistarbanda, með alhliða menntun alþýðunnar, með stofnun háskóla til svölunar lærdómsþorsta hárra sem lágra, ef þetta voru þakkirnar!
Vart fengu þeir heldur brotið svo í blað með skrifum sínum í Rínartíðindi og Þýskar árbækur en að ritskoðunin væri ekki komin á hæla þeirra, ýmist bannandi ritin eða setjandi útgefendum svo þröngar skorður að Marx sá sér þann kost vænstan að yfirgefa landið; hélt hann svo úti Þýsk-frönskum árbókum um hríð frá París með það að markmiði að stuðla að róttækum hugmyndum á báðum þeim vígstöðvum sem nafn tímaritsins gaf til kynna, en Engels nýtti sér á sama tíma yfirburðastöðu sína sem innsti koppur í búri iðjuhöldsins föður síns, með nákvæmri greiningu á bágum kjörum verkalýðsins, ekki síst í fátækra- og verksmiðjuhverfum höfuðvígis iðnbyltingarinnar, iðnaðarborgum Englands, þar sem hann þá einmitt gegndi um hríð fulltrúastarfi við fjölskyldureksturinn, og átti síðar enn frekar eftir að gera, smyrjandi drjúgt hina marxísku myllu með píetískum föðurarfi sínum.
Árin 1845 til 1848 áttu þeir félagar sér í hæli í Brussel, leggjandi hin ýmsu drög að alþjóðahreyfingu kommúnista, svo lítt sem þeir fengu annars um frjálst höfuð strokið, Marx nú hrakinn frá Frakklandi, enn fyrir ritskoðunar sakir, og Engels ekki síður úr vígjum sínum, fyrir útgefin verk sín og þeirra beggja, sem og fyrir æ stirðara samband við foreldra sína, sem vildu honum jafnvel þann kost vænstan að hann bjargaði heiðri fjölskyldunnar með því að láta sig hverfa alla leið til Vesturheims, líkt og reyndar fjöldinn allur, ekki síst Þjóðverja, kaus að gera frekar en að búa við alltumlykjandi ástríki gömlu erfðaveldanna.
Prússneska einveldið reri nú lífróður til bjargar gagnbyltingunni – til höfuðs þeirri byltingu er vofði æ hatrammar yfir ríkjandi stéttum álfunnar, svo skammt sem stórra högga var á milli, Bourbonarnir frönsku enn að velli lagðir í febrúarbyltingunni 1848 og jafnvel alþjóðleg upplausn yfirvofandi, slíkar voru óeirðirnar og byltingartilraunirnar í hinum ýmsu og sér í lagi norðlægari ríkjum álfunnar um þessar mundir, ekki síst fyrir hin frönsku áhrif, er hinir prússnesku herrar fóru sannarlega ekki varhluta af; áttu þeir þó ekki síður fullt í fangi með að halda í skefjum áhrifunum af öllu því akademíska frelsi sem Friðrik mikli hafði leyst úr læðingi fyrir dekur sitt og daður við upplýsinguna, þar sem einmitt lá rót allra þessara rómantísku drauma um byltingu.
Þó að enn gætti lítt almennra áhrifa smá lærdómskvers er þeir Marx og Engels höfðu sett saman í Brussel, ekki síst uppvaxandi æsku og verkalýð allra landa til fróðleiks og fagnaðar, og kom reyndar fyrst út á því sama herrans ári og í sama febrúarmánuði 1848 og Frakkar byltu enn kóngi sínum, þá má engu að síður ætla að það litla kver hafi verið þá ríkjandi Prússakonungi Friðriki Vilhjálmi IV og ráðsmönnum mun hans ofarlegar í huga en hin klassísku barnalærdómskver kirkjuráðsins, öll þau fagnaðarerindin er þeir háu herrar höfðu þó alist upp við í ungdómi sínum, svo grannt sem ritskoðunin og lögregla ríkisins fylgdist með athöfnum og skrifum slíkra kumpána sem á borð við þá tvo. Átti einvaldurinn þó ærið nóg með að kljást við þá nýríku stétt auðborgara sem krafðist skattfrelsis og réttinda á borð við ungherrana og háaðalinn, hótandi jafnvel borgaralegri byltingu, að ekki skyldu þeir svo í þokkabót mega eiga í vændum allsherjaruppreisn verkalýðsins – gegn sér og burgeisunum!
Hér naut sín þó lærdómurinn af herkænsku Friðriks mikla, enda skyldi vörn ávallt snúið í sókn. Sameinað landsþing skyldi sett á stofn, tveggja deilda þing burgeisanna og hefðarstéttanna, og stjórnarskrá samin, þingræði auðvaldsins til dýrðar, svo að síður væri þá jafnframt hætta á að kóngur skyldi misreikna sig. Fetaði og hvert ríkið á fætur öðru fálmandi þessa slóð, svo æ ljósari sem árangurinn af langvarandi gagnbyltingu prússneska einveldisins mátti líka vera – að með hverri og einni byltingarkröfu sem látið væri undan mætti ávallt slá tvær útaf borðinu; svo lengi sem drottinvöldin gengju á undan með fordæmum sínum, væru vopnin slegin úr höndum byltingarseggjanna. Gegn því að fallast á æ háværari kröfur burgeisanna um íhlutunarrétt og fríðindi sér til handa, til jafns við erfðaaðalinn, skyldi sá nýríki aðall halda verkalýðnum í skefjum og skapa störf, svo frjór og hugvitssamur sem lýðurinn var líka orðinn af allri uppfræðslunni ... Rökræðið eins og ykkur lystir, um alla þá tækni sem ykkur lystir, en hlýðið! Skeggræðið um iðnbyltinguna!
Svo minnugur sem Prússakóngur mátti vera lítilsvirðandi málskrafsins á hinum sameinuðu þýsku almúgaþingum á umbyltingaárunum 1848 og 1849, þá var það vart fyrir mælskulist frekar en fagurgala á þingum sem hann knúði þýsku ríkin til að fylkja sér saman, heldur fyrir mátt og megin og orðkyngi kanslara síns, junkarans Otto von Bismarcks, er leitt hafði prússnesku iðnbyltinguna til slíks sigurs að ekkert ríki stóð nú framar að nýtískulegum hernaðarmætti. Gengi einingarbandið eigi eftir með góðu, skyldi sorfið til stáls, með járni og blóði ...
Snemma árs 1871, þá er Austurríkiskeisari mátti sleikja sár sín, rúinn áhrifamætti veldis síns, að minnsta kosti í bili, var Prússakonungur hylltur sem keisari Þýska keisaradæmisins í Versölum, Frökkum til háðungar, járnkanslarinn þá standandi yfir höfuðsvörðum þeirra, með sjálfan keisara Frakkaveldis, Napóleon III, í gíslingu heima á prússneskri grund; hinn ráðdeildarsami Bismarck þó sparandi sér háþróaða afturhlaðninga Krupps og mest allt fallbyssufóðrið, glottandi eilítið við tönn, þá er eldrauður byltingarfáninn tók brátt að blakta á meið um alla París ...
Gjörvöll Kristí kirkja kveður oss með sér, fjendur ótal eru, ei þó hræðast ber ...
Ríkisarfar og valdsmenn hinna vanþróuðu ríkja Evrópu vöknuðu æ fleiri upp við þann vonda draum að jafnvel hin konunglegustu ráðgjafaþing dugðu skammt, hvað þá heldur hinar háloflegustu stjórnarskrár, svo mjög sem almenn fáfræði stóð iðnbyltingu þeirra fyrir þrifum, jafnvel svo að sjálfir Bretar máttu fara að rífa sig upp á hárinu, hygðust þeir ekki daga uppi sem gufuknúið nátttröll í frumskógi úreltra einkaleyfa sinna.
Svo lítt hafði verið hugað að nýgræðingnum, þeirri ávöxtun sáðkorna alhliða þekkingar, sem Berlínarháskóli var einmitt svo táknrænn fyrir, þar sem bókstaflega var um að tefla þá almennu upplýsingu er leitt hafði af æ víðtækari lestrar- og skriftarkunnáttu Prússa, með vaxandi sókn alþýðu í gagnfræðaskóla, iðnskóla og jafnvel menntaskóla, háskóla, þegar nú var meira að segja svo komið gagnbyltingu einveldisins, að námsgreinar á borð við reikningslist, landafræði og sögu heyrðu til skyldunáms barna – andstætt því sem verið hafði í árdaga fræðslutilskipana Friðriks mikla, þegar vart nema aðalsbörnum og hinna efnuðustu borgara var kleift að byggja sér slíkt musteri alhliða þekkingar, og hvort þá ekki enn agaðaðri þegnskapar, eðli máls samkvæmt, reistu á bjargfastri barnatrúnni, á grundvelli lærdómskvera kirkjuráðsins.
Lærdómskver þeirra Marx og Engels, Kommúnistaávarpið, flaug ekki beinlínis fjöllunum hærra fyrst framan af, svo takmörkuð voru upplög þess þrátt fyrir að því væri snúið á hvert tungumálið eftir annað. Þeim mun meiri voru þó bein og óbein áhrif kversins og annarra verka þeirra félaga á forvígismenn alþjóðahreyfingar verkamanna, hvað þá hvílíkum hug Marx blés félögum sínum í brjóst er hann, nánast eins og fréttaritari staddur á vettvangi, þó við skrifborð sitt sæti í London, reit bæklinginn Borgarastríðið í Frakklandi, um upplausnina er leiddi af Fransk-prússneska stríðinu 1870-1871 – um umsátur Prússa um París, um byltingu verkalýðsins í borginni og þann vísi að alþýðulýðveldi er til varð með stofnun Parísarkommúnunnar, fyrir stuðning uppreisnarsveita úr þjóðvarðliði borgarinnar.
Gagnbyltingin snerist þá snögg á sveif með nýstofnuðu lýðveldi franskra íhaldsmanna, fyrir það mögulega markmið Bismarcks, svo ómögulegt sem það þó reyndist, að tylla gíslinum sínum Napóleoni III á ný á sinn afdankaða veldisstól, sem þægustum þjóni þýska keisaradæmisins – og Bonapartistanna. Vorið 1871 lét kanslarinn leysa fjöldann allan franskra stríðsfanga úr haldi til stuðnings hersveitum Frakka, er brytjuðu svo niður þúsundir byltingarmanna í borginni á örfáum dögum, mögulega tugþúsundum saman, en Prússaher beið átekta utan borgarmúranna á meðan lífið var murkað úr hinu kornunga alþýðulýðveldi og valdið var á ný fært burgeisunum í hendur.
Konungsstólar steypast, stendur kirkjan föst, bifast ei á bjargi byggð, þótt dynji röst ...
Fall Parísarkommúnunnar markaði slík þáttaskil í sögu kristni og marxisma að hartnær hálf öld leið þar til verkalýðurinn náði svo vopnum sínum að kommúnísk ráð fengju á ný brotist til valda, en einmitt það sama hálfa aldarskeið var svo hlaðið undir æ marxískari kristindóminn að jafnvel prinsessan á bauninni hefði þótt fullsæmd; mátti Danakóngur þó sleikja sár sín sem fleiri, svíðandi undan löðrungum gagnbyltingarinnar, ekki síður en fyrir missi Slésvíkur-Holtsetalands í hendur keisaradæmis Bismarcks; hélt hann þó Íslandi, enn um sinn.
Engels varð það fyrst til, kannski sællar minningar hollráða foreldra sinna sér til handa, að hvetja til flutnings höfuðstöðva Alþjóðasambands verkamanna frá Evrópu til Vesturheims, hvort væri ekki þar það fyrirheitna landið sem best myndi þjóna markmiðum þess, en allt kom fyrir ekki, dautt úr öllum æðum lagði sambandið sjálft sig niður fáeinum árum síðar, skellandi í lás þá nýlega opnuðum skrifstofum sínum í New York; var sá byltingardraumur þar með úti. Marx tók á hinn bóginn að sökkva sér æ dýpra ofan í rússnesk þjóðfélagsmál, sjálfur æ liðugri orðin í rússnesku, hvort þar myndi þá jafnvel vera hið fyrirheitna landið, land iðngarða, herragarða og skemmtigarða alþýðunnar, svo vonlítið var nú orðið um framgang byltingarinnar í hinum þróaðri ríkjum aðals og auðborgaranna.
Áhrif prússnesku gagnbyltingarinnar urðu raunar svo víðtæk, að Bandaríkjamenn jafnt sem Japanir, og jafnvel Suðurameríkumenn, engu síður en Norðurevrópuríkin hvert á fætur öðru, tóku nú óðfluga upp þá stefnu sem Friðrik mikli hafði á öldinni áður lagt frumdrög að – og eftirkomendur hans höfðu sannarlega bætt æ um betur er á 19. öldina leið, raunar fyrir áhrif svo gerólíkra hugmyndafræðinga sem bræðranna von Humboldt og járnkanslarans Bismarcks – að með markvissri innrætingu alls fjöldans mætti vissulega skapa trú á hvaðeina, jafnvel trú á hvaða akademíska upplýsingu sem væri, frumspekilega sem veraldlega, og hvort þá ekki ofurtrú á iðnbyltinguna!
Hið aldagamla markmið krossferðariddaranna um þúsund ára ríki Krists hafði fyrir löngu látið í minni pokann, svo að mögulega myndi fremur blasa við milljón ára vaxtarskeið og þróun hins upplýsta, vitiborna manns – sjálfs ofurmennisins. En væri Kristur ekki kjölfestan, til mótvægis við reyttar fjaðrirnar af Marx, blaktandi æ lotlegar á meið, mátti alltént setja Konfúsíus eða jafnvel Búdda eða hvaða keisaratákn sem væri í staðinn, eða jafnvel Maó, a.m.k. til málamynda, allt eftir því hver trúfræðslustefnan nákvæmlega væri á hverjum stað og hverjum tíma, nánast sama raunar hver átrúnaðurinn væri eða bjargföst kirkjan, sama hvort veröldin væri álitin vera hjartalaus eða uppfull af anda.
Prússnesk uppeldisfræði varð þannig sá hornsteinn að fjölmenningu sem hvert ríkið á fætur öðru tók sér til fyrirmyndar, sá hornsteinn raunar að tæknimenningu sem gerði nútíma iðnríkjum kleift að myndast, þokandi gömlu höfðingjaveldunum hægt og sígandi til hliðar fyrir borgaralegri auðvaldsskipaninni. Í stað erfðaaðals og arfborinna ungherra komu gósseigendur iðnbyltingarinnar til sögu, gagnbyltingin holdi klædd, iðnjöfrar, skipakóngar, fjölmiðlakóngar, allrahanda fjárvörslumenn og spákaupmenn, lagandi sig lítilsháttar að málskrúði æ borgaralegri þinga.
Svo hratt sem læsi og skriftarkunnáttu fleygði nú fram varð hugur þegnanna æ haganlegar lagaður að hinni nýju skipan – herragörðum vélvæddrar hugsunar, herragörðum hömlulausrar náttúrunýtingar, herragörðum auðmagns og ungborgara, herragörðum hins alþjóðlega ofurvalds, ungherranna hinna nýju. Eftir sitja krúnur hins gamla konungsvalds, beygðar og brotnar, svo rúnar veraldlegri makt sinni sem ríkisstýrð trúfræðslan mótar ötullegar hina borgaralegu þjóðarsál, aðli nýjunganna til upphafningar ...
Komið, allar álfur,
allra þjóða menn!
Veitið oss að vígi,
vinna munum senn ...
En allar englatungur undir taki í söng, dýrð og lof sé Drottni, dýrð í sæld og þröng ... hvað sem Kant kynni annars að hafa hugleitt ... undir þeim gamla söng, krossferðariddaranna hinna nýju.
Fyrri hluti greinarinnar birtist í Heimildinni þann 19. febrúar 2023.
Höfundur hefur áhuga á hugmyndafræði.
Ítarefni: Herragarðurinn – orkubú jarðarbúa
Athugasemdir