Ég hef ekki þrek í að svæfa, dagurinn búinn að vera langur og kaldur. Samfélagsmiðlar toga í mig, harmrænar fréttir af ókunnugum kalla á mig úr snjallsímanum. Hraði nútímans tekur á, hann stelur litlu stundunum sem skipta mestu máli.
En þetta er mitt kvöld, hún veit það og raunir hversdagsins koma henni ekki við, hún krefst þess að hafa mömmu og hún fær ósk sína uppfyllta.
Ég kem inn í svefnherbergið, finn hamingjutilfinninguna strax læðast um líkamann. Bara ég og hjartað mitt, tilbúnar í að velja ævintýri kvöldsins. Við förum í gegnum bækurnar hennar saman og veljum úr heimsbókmenntum Disney.
Ég syng vögguvísur sem ég veit að hafa fylgt foreldrum í marga áratugi. Vísur um dvöl í draumahöllum og sorgina í barnamissi. Finn sterklega fyrir kvenlegum krafti menningararfsins leiða mig í söngnum. Leyfi mér að vera hrá, syng af einlægni. Hér er engin sem dæmir mig, bara ég og hjartað mitt.
Ekki leyfa hraðanum að taka algjörlega yfir.
Ég horfi á augnlokin hennar þyngjast, hvernig þau berjast við að halda sér opnum. Hún vill meira út úr deginum, alls ekki tilbúin að sleppa takinu af honum. Ég strýk henni um kinnarnar, kyssi hana og hugsa hversu heppin ég er að ég eignaðist einmitt hana, nákvæmlega þessa manneskju.
Hún réttir mér bangsa til að knúsa, svo ég geti örugglega sofnað, bangsa sem á að passa mömmu. Ég heyri að andardrátturinn er farinn að þyngjast og svo hvernig hroturnar gera vart við sig. Fallegustu hrotur sem til eru.
Ég geng út úr herberginu full af þakklæti. Þakklát fyrir þessa hversdagslegu en einföldu stund sem við áttum saman. Held á bangsanum sem er minnisvarði um að hægja á mér og njóta litlu hlutanna. Ekki leyfa hraðanum að taka algjörlega yfir. Þar er kjarninn, þar liggur hin sanna hamingja.
Athugasemdir (1)