Þetta kemur fram í tölum sem ríkislögreglustjóri hefur tekið saman í tilefni þess að í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Þar segir að í fyrra hafi verið tilkynnt um færri nauðganir en árin á undan en að á sama tíma hafi tilkynningum vegna kynferðisbrota gagnvart börnum fjölgað. Hlutfall barna í hópi þolenda slíks ofbeldis hafi vaxið jafnt og þétt síðustu ár en börn yngri en átján ára voru 61 prósent brotaþola í þeim kynferðisbrotamálum sem tilkynnt voru til lögreglu fyrstu 10 mánuði þess árs.
Karlar langoftast gerendur í kynferðisbrotamálum
Karlar eru enn í miklum meirihluta þeirra sem grunaðir eru um kynferðisbrot og langflestir brotaþolar eru konur. Karlar eru grunaðir um að hafa beitt kynferðisofbeldi í 94 prósentum tilfella og konur 6 í sex prósentum tilkynntra mála. Það sem af er þessu ári hafa karlar verið brotaþolar í 16 prósent tilkynntra kynferðisbrotamála og konur í 84 prósent skráðra mála. Ef eingöngu er litið til þolenda nauðgana eru karlar þolendur í 7 prósentum skráðra brot og konur í 93 prósentum brota.
Mikil fjölgun á tilkynningum um kynferðisbrot gegn börnum
Frá árinu 2016 hefur verið tilkynnt um 500-600 kynferðisbrot á hverju ári.
Í gögnum ríkislögreglustjóra má finna upplýsingar um stöðu þessara mála í tengslum við heimsfaraldurinn. Segir þar að ef litið sé til kynferðisbrota ársins 2020 og fjöldi þeirra borinn saman við fjölda mála af þeim toga árin þrjú á undan megi sjá að tilkynnt brot voru færri árið 2020. Nauðgunum hafi fækkað úr að meðaltali 235 brotum í 161 brot sem er um 31 prósenta fækkun. Hins vegar hafi tilkynningum vegna kynferðisbrota gegn börnum fjölgað. Þau voru 134 árið 2020 en að meðaltali 98 á ári árin þrjú á undan sem er 36 prósenta fjölgun. Það sem af er þessu ári hefur verið tilkynnt um 560 kynferðisbrot sem er 16 prósenta fjölgun frá síðustu þremur árum þar á undan.
18 skráðar naugðanir á mánuði
Lögreglu hafa borist 184 tilkynningar vegna nauðgana en þær voru 143 yfir sama tímabil í fyrra. Að meðaltali var tilkynnt um 18 nauðganir á mánuði frá janúar til október á þessu ári. Ríkislögreglustjóri segir að samkvæmt gögnunum sé augljóst að tilkynningum um nauðganir fari almennt fjölgandi. Þá eru tilkynningar um kynferðisbrot gegn börnum 25 prósentum fleiri í ár en síðustu þrjú ár þar á undan og aldrei hafa verið fleiri tilkynningar vegna barnaníðs eins og fyrstu tíu mánuði þessa árs. Ríkislögreglustjóri segir að fjölgun eða fækkun skráðra kynferðisbrota geti farið eftir ýmsum þáttum. ,,Þannig getur samfélagsumræða á borð við #metoo orðið til að fjölga tilkynningum um brot” segir í fréttatilkynningu frá ríkislögreglustjóra og að rannsóknir hafi sýnt að mun fleiri kynferðisbrot eigi sér stað en tilkynnt er um til lögreglu því sé eitt af lykilmarkmiðum lögreglunnar samkvæmt gildandi löggæsluáætlun 2019-2023 að hlutfall þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðisbrotum og tilkynna það til lögreglu aukist á tímabilinu.
Athugasemdir