Kærandi: Þorvaldur Gylfason, kt. 180751-7699, kjósandi í RN.
Móttakendur:
Alþingi skv. 46. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944 og 120. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000
Dómsmálaráðuneytið skv. 118. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000
Kærandi krefst þess að alþingiskosningarnar 25. september 2021 verði úrskurðaðar ógildar og uppkosning fari fram skv. 120. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.
I. Forsaga
Krafan er reist á skýrum fordæmum hæstaréttar og öðrum vitnisburðum.
1. Varðandi kærur þriggja manna (Óðinn Sigþórsson, Skafti Harðarson og Þorgrímur S. Þorgrímsson, allir í formlegum tengslum við Sjálfstæðisflokkinn) vegna kosningar til stjórnlagaþings höfðu sex hæstaréttardómarar (Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson, allir nema Viðar Már, bróðir aðaleiganda Morgunblaðsins, skipaðir af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins) m.a. þetta að segja skv. endurriti úr gerðabók Hæstaréttar 25. janúar 2011:
„Dæmi eru um að í réttarframkvæmd hafi kosningar verið ógiltar þegar framkvæmd þeirra hefur verið í andstöðu við lög ... Þannig var til dæmis kosning í Helgafellssveit um sameiningu sveitarfélaga ógilt þar sem kjörseðill var þannig úr garði gerður að skrift sást í gegnum hann þótt hann væri brotinn saman, sbr. dóm Hæstaréttar frá 8. desember 1994 í máli nr. 425/1994 ...
Framangreindir annmarkar á framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 verða við úrlausn málsins metnir heildstætt og er það niðurstaða Hæstaréttar að vegna þeirra verði ekki hjá því komist að ógilda hana.
Ályktarorð:
Kosning til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 er ógild.“
Reynir Axelsson dósent fjallaði skömmu síðar um ógildingarúrskurð hæstaréttar og voru ályktarorð hans þessi:
„Eini raunverulegi og eini verulegi annmarkinn á kosningunni var að Hæstiréttur eyðilagði hana með ákvörðun sem hvílir á sannanlega röngum forsendum og byggist á hæpnum réttarheimildum.“
2. Hæstiréttur komst sjálfur að sömu niðurstöðu og Reynir Axelsson árið eftir, 2012, þegar Ragnar Aðalsteinsson hrl. bar fram kæru fyrir hönd þriggja einstaklinga (Ásdís Jenna Ástráðsdóttir, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson og Guðmundur Magnússon) vegna meintra galla á framkvæmd forsetakosninganna það ár.
Í úrskurði 12 dómara Hæstaréttar (Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Garðar Gíslason, Greta Baldursdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson, Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson) 25. júlí 2012 um kærur vegna framkvæmdar forsetakjörsins 2012 segir svo:
„Teljast þetta ótvíræðir gallar á forsetakjörinu. Í 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000 ... kemur fram sú meginregla í íslenskum rétti að almennar kosningar skuli því aðeins lýstar ógildar að slíkir gallar séu á þeim að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á kosningaúrslit. ... Samkvæmt því verður ekki litið svo á að fyrrgreindir gallar á forsetakjöri 30. júní 2012 eigi að leiða til ógildingar þess ...“
Í hópi þessara 12 dómara eru fjórir sem ári áður höfðu úrskurðað stjórnlagaþingskosninguna ógilda þótt enginn hefði nokkru sinni haldið því fram að meintir gallar á framkvæmd hennar hefðu haft áhrif á úslit kosningarinnar. Hæstiréttur sneri við blaðinu 2012 og viðurkenndi í reynd að ógildingarúrskurðurinn um stjórnlagaþingskosninguna 2011 var rangur.
3. Af þessum tveim fordæmum má álykta að
(a) kosningar beri ekki að ógilda ef gallar á framkvæmd þeirra hafa engin áhrif á úrslit kosninganna og
(b) kosningar beri að ógilda skv. 120. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 ef gallar á eða lögbrot við framkvæmd kosningar hafa áhrif á úrslit kosninganna enda segir þar:
„Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda ...“
Ljóst er að gallar á framkvæmd kosningarinnar í NV höfðu áhrif á úrslit kosninganna um allt land enda færðust fimm þingsæti milli manna frá fyrri talningu í NV til síðari talningar.
II. Málsatvik
Formaður yfirkjörstjórnar NV (Ingi Tryggvason) hefur viðurkennt lögbrot.
1. Ingi Tryggvason sagði í viðtali við visir.is 26. september 2021 að rétt sé að kjörgögn hafi ekki verið innsigluð:
„Já, ekki innsigluð. Það hefur aldrei verið gert. Þau eru bara skilin eftir og læst inn í salinn. Svo förum við heim og hvílum okkur í smá tíma og förum aftur á staðinn. Þetta er bara vinnulag sem er búið að vera eins lengi og ég veit. Það er ekkert innsiglað, það er engin aðstaða til að innsigla þetta ... Eins og ég segi, þetta hefur bara tíðkast og er bara venjubundið.“
2. Í viðtali við DV 27. september 2021 sagði Ingi Tryggvason:
„... þú getur tekið þessi innsigli af og sett þau aftur á án þess að nokkur taki eftir því. Þessi innsigli eru afar ómerkileg. Ef einhver vill svindla þá gera þessi innsigli ekkert gagn. Jafnvel þó það væru almennileg innsigli, ef menn ætla að svindla í kosningum þá svindla þeir í kosningum“.
3. Í viðtali við Stundina 27. september 2021 sagði Ingi Tryggvason um salinn á Hótel Borgarnesi þar sem talningin fór fram og kjörgögn voru geymd í án innsigla í nokkrar klukkustundir á milli talninga:
„Ég veit ekki hvað eru til margir lyklar að þessum inngöngum. Þetta er hluti af hótelinu, þetta er ekki húsnæði sem yfirkjörstjórn á. Það geta verið 50 lyklar að þessu plássi, ég veit það ekki. ... Ég hef ekki áhyggjur af því hvernig þessi gögn voru geymd meðan við vorum ekki á staðnum. ... Það getur vel verið að starfsmenn hótelsins hafi haft aðgang að þessu rými.“
4. Í viðtali við Fréttablaðið 28. september 2011 sagði Ingi Tryggvason „að tal um innsigli eða ekki verði að skoða í því ljósi að ef menn hefðu haft vilja til að fara inn í pláss til að spilla kjörgögnum þann stutta tíma sem ekki var fólk í kringum kjörgögnin þá hefði límband engu máli skipt.“
III. Ályktanir
Af tilvitnuðum ummælum Inga Tryggvasonar að framan hlýtur að mega álykta að úr því að hann sem kjörstjórnarmaður og reyndur héraðsdómari lítur svo á að hefð sé fyrir því að kjörgögn séu ekki innsigluð í samræmi við lög, þá kunni aðrir kjörstjórnarmenn í öðrum kjördæmum einnig að líta svo á. Sé svo, er vandinn við ólöglega meðferð kjörgagna í NV ekki bundinn við það kjördæmi.
Þessi hætta kallar á lögreglurannsókn á meðferð kjörgagna í öllum kjördæmum og ekki bara í NV þar sem lögregla mun hafa yfirheyrt hluta kjörstjórnarmanna. Lögregla og saksóknarar hljóta að gæta að almennum hegningarlögum nr. 19/1940 þar sem segir:
„Opinber starfsmaður, sem sekur gerist um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 1 ári].“ (141. gr.)
Könnun Maskínu sem gerð var 27. september til 7. október um traust almennings til úrslita alþingiskosninganna 2021 sýnir að 39% kjósenda treysta úrslitunum varlega eða vantreysta þeim.
Áskilnaður laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 um innsiglun kjörgagna er skýr. Þar segir m.a.:
„Dómsmálaráðuneytið lætur kjörstjórnum í té embættisinnsigli.“ (19. gr.) – Hvað gerði yfirkjörstjórn í NV við innsiglin sem dómsmálaráðuneytið lét henni í té úr því að þau voru ekki notuð?
„Seðlarnir skulu sendir í vönduðum umbúðum er yfirkjörstjórn innsiglar með embættisinnsigli sínu svo vandlega að eigi sé auðið að opna umbúðirnar og ná út seðlum án þess að brjóta innsiglið.“ 54. gr. – Ljóst er af ummælum Inga Tryggvasonar að þessu ákvæði var ekki fylgt í NV.
„Atkvæðakassinn skal innsiglaður af kjörstjóra ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn og er umboðsmönnum lista heimilt að setja á hann innsigli sín.“ 65. gr. – Ljóst er af ummælum Inga Tryggvasonar að þessu ákvæði var ekki fylgt í NV.
„Kjósandi getur jafnan krafist þess af hverjum þeim er varðveitir bréf með atkvæði hans, sé það ekki varðveitt í innsigluðum atkvæðakassa, að hann afhendi sér það, allt þar til atkvæðið hefur verið tekið gilt af undirkjörstjórn.“ 67. gr.
„Kosningarathöfnin byrjar með því að oddviti kjörstjórnar leggur fram seðlaböggul þann sem hann hefur fengið frá yfirkjörstjórn og skal þess gætt hvort innsiglin eru heil eða böggullinn ber þess merki að hann hafi verið opnaður. Skal þess getið í kjörbókinni og riti kjörstjórn og umboðsmenn undir.“ 72. gr. – Ljóst er af ummælum Inga Tryggvasonar að þessu ákvæði var ekki fylgt í NV.
„Nú hefur kjörstjórn borist atkvæðakassi með atkvæðum greiddum utan kjörfundar og skal þá athuga hvort innsigli kassans séu heil og ósködduð.“ 73. gr. – Ljóst er af ummælum Inga Tryggvasonar að þessu ákvæði var ekki fylgt í NV.
„Því næst skal oddviti, er bókun er lokið og kjörbókin hefur verið undirrituð af kjörstjórninni og umboðsmönnum lista, ef viðstaddir eru, ganga frá öllu saman, atkvæðakassa, aðalumslagi og kjörbók eða afriti úr kjörbók sem undirritað er af kjörstjórninni og umboðsmönnum lista, ef þeir hafa verið viðstaddir, svo og utankjörfundaratkvæðum sem fara eiga í aðra kjördeild, sbr. 4. mgr. 90. gr., í umbúðum innsigluðum af kjörstjórn og er umboðsmönnum heimilt að setja innsigli sín á umbúðirnar. ... Eftir að kjörstjórn hefur þannig gengið frá kjörgögnum mega hin innsigluðu kjörgögn og innsigli kjörstjórnar eigi vera í vörslu sama manns.“ 95. gr. – Ljóst er af ummælum Inga Tryggvasonar að þessu ákvæði var ekki fylgt í NV enda var hann um hríð einn með kjörgögnin í salnum á Hótel Borgarnesi milli fyrri og síðar talningar atkvæða. Hefur lögreglan kannað hvort Ingi talaði við einhvern annan en Kristínu Edwald formann landskjörstjórnar í símann milli talninga?
„Um leið og kosningu er lokið og kjörstjórn hefur unnið nauðsynlegar skýrslur úr kjörskránni sendir hún kjörskráreintök þau sem notuð voru við kosninguna í innsigluðum umbúðum til yfirkjörstjórnar [eða eftir atvikum til umdæmiskjörstjórnar].“ 96. gr. – Ljóst er af ummælum Inga Tryggvasonar að þessu ákvæði var ekki fylgt í NV.
Við bætast aðrir vitnisburðir. Kjósandi í NA lýsir kjörfundi þar svo í skeyti til kæranda:
„Þegar ég kom f.h. í Safnaðarheimilið að kjósa voru þau öll (4) í kaffi inn í eldhúsi. Ég sagði stundarhátt, "Er ég ekki á réttum stað"? Þá komu þau röltandi hálf vandræðaleg en snéru við til að skila bollunum. Tveir dyraverðir voru í forgarðinum og annar opnaði auðvitað í góðri trú a.m.k. einn væri við. Þarna hefði ég getað stungið nokkrum seðlum inná mig og sagt svo að þyrfti að skreppa frá á salernið frammi. Krossað þar á alla seðlana - staflað þeim saman innan við hengið og troðið þeim með þessum eina mínum ofaní án þess að tekið væri eftir að væri fleiri en einn. Ekki var spjald yfir raufinni og þaðan að síður nokkur til að færa það til og frá. Kassinn þessi hefur örugglega aldrei verið innsiglaður því þá mundi örugglega vera einhverjar leyfar innsiglis á lokinu. Kassinn er nefnilega eldgamall eftir útlitinu að dæma.“
IV. Krafa
Að öllu virtu er ljóst að Ingi Tryggvason formaður yfirkjörstjórnar NV hefur með framangreindum ummælum sem blaðamenn hafa orðrétt eftir honum játað að hafa brotið gegn kosningalögum.
Af þessu helgast krafan um uppkosningu í NV sem og í öðrum kjördæmum ef rannsókn lögreglu á meðferð kjörgagna þar leiðir til áþekkrar niðurstöðu og í NV svo sem margir eftirlitsmenn framboða og aðrir sjónarvottar hafa vitnað um opinberlega eða einkalega.
Reykjavík, 11. október 2021.
Með virðingu,
Þorvaldur Gylfason.
Athugasemdir