Sjálfstæðisflokkurinn á Hilton
Ég var mættur fyrir utan Hilton hótel Nordica til þess að gera það sem ég lofaði sjálfum mér að gera aldrei aftur: Fara á samkomu Sjálfstæðisflokksins til þess að skrifa um það sem fyrir augu ber. En ég ætlaði ekki aðeins að heimsækja Sjallana. Planið var að fara þangað og ná fyrstu tölum. Hlusta á Bjarna Ben ávarpa heittrúaða stuðningsmenn sína og taka svo rúntinn á tvær til þrjár kosningavökur eftir því hvernig fyrstu tölur kæmu út.
Fyrir það fyrsta var ég svo kvíðinn því að fara innan um bönkeruðustu Sjallana eftir allt sem ég hef skrifað um þá að ég var búinn að útvega mér dulargervi, svo enginn gæti borið kennsl á mig. Ef ég ætlaði að ná að fjalla faglega um stemninguna á kosningavökum hjá flokkum sem ég hef haft tekjur af því að úthúða á undanförnum árum þá yrði ég að vera óþekkjanlegur. Þannig yrði öryggi mitt og næði tryggt á meðan ég aflaði nægra upplýsinga til þess að setja saman öfluga heimild.
Stuttu áður en ég lagði bílnum fyrir utan hótelið hafði ég farið á mexíkóskan veitingastað með kæró þar sem ég át bæði fiski og rækju taco. Þegar ég var svo að gera mig kláran að fara út úr húsi, máta dulargervið og snyrta neglurnar fór maginn að kvarta. Var það stress. Fiskurinn eða rækjurnar? Hvað sem var þá munaði minnstu að að skiti í buxurnar áður en ég var einu sinni kominn út úr húsi. Rétt komst á dolluna og velti því þar fyrir mér hvað í fjandanum ég væri að koma mér út í. Að fara aftur í gin ljónsins, eftir að hafa hlegið að spillingu og frændhygli ljónsins árum saman. Djöfulsins vitleysa.
Skita
Þar sem ég sat úti í beyglaða bílnum mínum umkringdur Teslum og Range Roverum fylgdist ég með Exit týpunum byrja að týnast inn á Hilton í oddmjóu skónum með flaxandi faxið og algjört öryggi lekandi af hverju þræði á klæðskerasniðnu jakkafötunum sínum. Ekki gramm af neinum sjálfsefa. Sperrtir og hressir.
Við þetta blönduðust ung-ungsjallar í faux pelsum og að sjálfsögðu jakkafötum, soldið stórum. Litlir og krúttlegir og ekki spurning um hver sé langflottastur: King Bjarni Ben.
Ég hristi í mig smá kjark til þess að geta gengið inn á hótelið en þá brast kjarkurinn aftur og ég faldi mig hjá þykistu arin og hélt þar áfram að skrifa. Dulargervið var í bakpokanum. Mér fannst ekki alveg kominn tími á það. Í smástund datt mér sú fásinna í hug að kannski gæti ég vakið meiri athygli í dulargervinu en án þess. Haha. Það gæti ekki gerst.
Stuttbuxur í sjálfsháði?
Fyrstu tölur voru ekki komnar en kjörsókn benti til þess að hún væri lakari en árin áður. Við vitum hvað það þýðir: Gamla fólkið kýs alltaf, sama hvað. Og gamla fólkið kýs alltaf það sama, hvað svo sem panamaskjöl og uppreistar ærur tauta og raula. Unga fólkið hinsvegar kýs ef það er gott veður. Eða ef það er bjór og pizza í boði. Íhaldið veit þetta og græðir á staðreyndinni.
Í anddyri hótelsins stóðu tveir ungir menn og annar þeirra var með Vals trefil. Áslaug Arna mætti og óskaði unga drengnum til hamingju með titilinn. Auðvita hálftími í að kjörstaðir loki og alltaf séns á einu atkvæði í viðbót.
Ungu íhaldsmennirnir ráfuðu um með bjórinn sem þeir þrá svo heitt að sé seldur í búðum, en þeir hafa þó ekki fengið þá ósk sína uppfyllta þrátt fyrir að þeirra fólk hafi verið við völd meira og minna frá stofnun lýðveldisins. Sjúklega dularfullt dæmi. Einn þeirra er bókstaflega í stuttbuxum og ég var ekki viss hvort þetta væri sjálfsháð eða að hann einfaldlega aldrei heyrt uppnefnið.
Jarðaför eða jarðaFJÖR?
Kæró varð eftir heima í skítalyktinni af mér með bland í poka, horfandi á kosningasjónvarpið. Síminn minn titrar með stöðugum stöðuuppfærslum frá henni um hvaða kosningavökur lofuðu góðu. Helst af öllu langar mig bara að setja á mig dulargervið og fara heim áður en þessi fiski taco frussast í gegnum mig fyrirvaralaust og á alla gervipelsana og háu hælana. Það gæti hreinlega verið hættulegt, svona lýðheilsulega séð. Ég ákvað samt að harka af mér. Von á Heiðu ljósmyndara bráðlega. Ég yrði að bíta á jaxlinn.
Í anddyrinu gat ég fylgst með fólki koma í kippum inn. Hópur af aðeins eldri ungum Sjálfstæðismönnum. Jakkafötin pössuðu betur Hárgreiðslurnar útpældari. Davíð Þorláks og föruneyti. Hægri Twitter herinn. Mikið af dökkum jakkafötum. Fólk veit ekki alveg hvernig það á að vera. Skoðanakannanir höfðu sýnt flokkinn í sögulegri lægð. Var verið að klæða sig fyrir jarðarför eða jarðarfjör? Svart í það minnsta alltaf öryggt val.
Biðin eftir Heiðu var soldið löng. Ég sat í kvíða með illt í maganum á meðan Exit menn að klóra sér í nefinu og tala hátt og ungir menn í of stórum jakkafötum og stelpur í faux pelsum og hælum sem small í og fólk var farið að hrópa á hvort annað. Partýið var að byrja.
Hvaða Ásmundarsalur?
Skyndilega kom Bjarni inn með frúnni og röltir í gegn hnarreistur eins og hann hafi aldrei falið skýrslur undir stólum og aldrei selt korteri fyrir hrun eftir að hafa setið fundi sem þingmaður sem trúnaður ríkti yfir þar sem bág staða bankakerfisins var rædd og aldrei átt reikninga í skattaskjólum og aldrei nokkurn tíma farið í Ásmundarsal. Bara ekki heyrt á hann minnst. Veit ekki hvað þú ert að tala um.
Eftir því sem straumurinn af fólki þéttist ákvað ég að lauma mér inn í salinn þar sem vakan sjálf átti að fara fram. Með kúluhattinn á höfði og dulargervisgleraugun með áföstu yfirvaraskeggi virtist enginn enn búinn að bera kennsl á mig. Heiða kom skyndilega askvaðandi og hló að mér. Fannst dulargervið ekki líklegt til þess að láta mig falla betur í hópinn. Sjáum nú til með það. Stutt var í fyrstu tölur svo við ákváðum að labba inn í salinn og láta á gervið reyna.
Á leiðinni inn í salinn byrjaði hins vegar stemningin að súrna. Einhver maður, líklega í kringum sextugt steig í veg fyrir mig og hrinti mér. Spurði hvort ég héldi að ég væri töffari. Bar hann kennsl á mig? Sá hann í gegnum gervið? Vá hvað þetta var óþægilegt.
Dulargervið snýst upp í andhverfu sína
Við löbbuðum inn í miðjan salinn. Brynjar Níelsson. Birgir Ármannsson og Sigurbjörn, pabbi Áslaugar Örnu voru allir þarna á svæðinu. Öll augu á mér. Undarlegar grettur. Það var að renna upp fyrir mér að gervið var að hafa þveröfug áhrif. Ég var alls ekki að falla í hópinn. Þvert á móti virtist ég einmitt vekja mun meiri athygli en ef ég hefði einfaldlega farið með mitt hefðbundna andlit. Heiða dansaði eitthvað í kringum mig þar til ég tilkynnti henni að ég ætlaði að fara út undir vegg og fela mig þar.
Tónlistin var keyrð upp stuttu seinna. Don’t stop með Fleetwood Mac.
Why not think about times to come?
And not about the things that you've done
Undir gervinefinu var ég að svitna mjög mikið á mínu eigin nefi og var kominn með talsverðan hausverk af hattinum sem þrengdi gríðarlega að enninu á mér auka þess sem stressið var að gera mig brjálæðislega þyrstan og allt þetta ofan í fiski taco magapínuna og stigvaxandi kvíða yfir öllum augunum sem eltu mig að felustaðnum mínum.
Kurteisi Heimdellingurinn
Stuttu eftir að ég kom á þennan stað bað Heiða mig að passa fyrir sig úlpuna á meðan hún rölti um og tæki fleiri myndir. Öll augu voru á mér. Helst af öllu langaði mig bara að flýja. Hlaupa út í bíl og láta mig hverfa. Unga fólkið virtist bera kennsl á mig. Hvert var Heiða eiginlega farin? Var ég ekki kominn með nóg efni í pistil. Mátti ég ekki bara fara.
Ungt par starði á mig og flissaði. Skyndilega kom Steinar Ingi Kolbeins, fyrrum stjórnarmaður í Heimdalli, upp að mér og spurði hvort ég héti ekki Bragi Páll. Gríman fallin. Öll fyrirhöfnin fyrir bý. Ég skrifaði frétt fyrir mörgum árum um Steinar og félaga hans í Heimdalli þegar þeir buðu börnum undir lögaldri vín gegn því að kjósa sig. Steinar var gríðarlega kurteis og geðþekkur við mig. Þegar hann var að kjafta við mig kom einhver kona sem kynnti sig sem starfsmann og spurði hvort ég væri fjölmiðill. Ég sagðist í rauninni ekki vera það. Þá sagði hún að allir fjölmiðlar yrðu að tilkynna sig. Ég spurði hvort það væri ekki öllum heimilt að vera þarna. Henni var ekki skemmt. Menn með grín-nef áttu greinilega ekki eins mikið erindi á kosningavöku Sjálfstæðisflokksins og ég hefði haldið.
Steinar Ingi rabbaði aðeins áfram við mig. Ég fylgdist með öllum augunum sem störðu á mig á meðan starfsmaðurinn strunsaði í burtu og ég reyndi eftir fremsta megni að halda uppi samræðum við Steinar. Hann sagði mér að hann hefði einmitt verið að vinna hjá Mogganum. Stressið og óþægindin við að verið væri að fylgjast með mér gerðu það af verkum að ég var líklega frekar stuttur í spuna við Steinar. Ég biðst bara innilega afsökunar á því hér með. Ég ætlaði mér aldrei að vera ókurteis. Þetta voru bara svo sjúklega óþægilegar aðstæður.
Langfyrstu tölur
Loksins komu fyrstu tölur. Norðvestur. Kjördæmið þar sem pabbi er í öðru sæti fyrir Miðflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn með nokkrum prósentustigum minna en í síðustu kosningum. Salurinn púaði. Sósíalistar náðu ekki yfir fimm prósenta múrinn. Mikið hlegið. VG með mikið tap í fyrstu tölum. Samt var klappað. Eins og salurinn sé búinn að gleyma því að VG hefur verið með þeim í ríkisstjórn undanfarin fjögur ár. Sé að falla á óvinsælda-sverðið fyrir Sjálfstæðisdrauminn eins og allir samstarfsflokkar Flokksins hafa gert frá því ég byrjaði að fylgjast með stjórnmálum. Gott og vel. Kannski átta þau sig á því hverju þau eru að klappa fyrir innan skamms.
Bjarni Ben var kominn upp í pontu eins og lofað hafði verið að myndi gerast eftir fyrstu tölur. Ég ætlaði að hlusta á manninn og svo koma mér út. Fólk var í miklu stuði. Skyndilega var annar starfsmaður kominn við hliðina á mér. Stóð bara þar. Svartklæddur. Svo kom annar starfsmaður út úr vegg sem ég hafði haldið að væri bara venjulegur veggur. Þetta var að verða eins og í The Crown þar sem fólk birtist bara út um málverk og skilrúm. Þessi starfsmaður stóð líka bara við hliðina á mér. Svartklæddur og þögull. Þetta setti mig í enn meira óstuð og truflaði hlustun mína á Bjarna.
Elskar hentugt lýðræði
Það sem ég náði af ræðunni var bara í hversu miklum fíling Bjarni var. Ánægður með baráttuna. Land tækifæranna. Hægt að fagna vel skiluðu dagsverki. Við elskum lýðræði, fögnum kosningum. Já, nema þarna kosningunum um stjórnarskrána sem þið keppist við að tala niður og stinga undir stól. En þar fyrir utan, kosningar sem henta ykkur. Að lokin sagðist hann fara sigurviss inn í nóttina. Að sjálfsögðu var lagið Mr. Blue Sky með ELO.
Mr. Blue Sky please tell us why
You had to hide away for so long
Það minnti mig á hvernig Bjarna tekst oft að láta ekki í sig ná þegar erfið mál koma upp. Panamaskjölin, þá var hann einhvernveginn akkúrat í Flórída og lét Sigmund Davíð taka á sig allan hitann. Mætti svo sólbrúnn og sprækur og búinn að ræða við spunameistara og þetta var allt mikill misskilningur.
Hey you with the pretty face
Welcome to the human race
Algjörlega eðlileg manneskja hér á ferð sem hugsar um hag allra stétta. Eftir ræðuna var klappað ótt og títt í takt við lagið. Skyndilega voru starfsmennirnir orðnir þrír og svo fjórir og augngoturnar komu úr öllum áttum. Svartur klæðnaður. Svartir skór. Svartar grímur og hvar í fjandanum var Heiða? Ungir menn voru farnir að koma upp að mér og spyrja, algjörlega án þess að hafa gaman af því hversu bjánalegur ég var, afhverju ég væri með trúðanef. Exit. Þetta er strangt til tekið ekki trúðanef. Ég yrði að komast út. Ég hef nokkrum sinnum verið laminn. Fann það á mér að það væri bara tímaspursmál hvenær einhver yrði manaður upp í að dangla í mig. Eða næði að drekka í sig nægan kjark til þess að berja úr mér ósvífnina.
Frelsi einstaklingsins feginn
Allt í einu voru fyrstu tölur að koma úr einhverju kjördæmi sem ég náði ekki hvert var og D að koma vel út og allir fóru að klappa og tralla og í smá stund var öll athygli farin af mér. S tapaði fylgi. Mikið klappað og húrrað. Líka þegar VG tapaði. Kannski þau kveiki á þessu fyrir síðir. Nóttin er víst ung, var ég að heyra.
Ég var farinn að horfa mikið og hratt í kringum mig að Heiðu. Ef ég hefði ekki verið að passa úlpuna hennar væri ég löngu farinn. Kannski gæti ég stungið úlpunni bara í töskuna mína og beðið Heiðu að hitta mig úti? Fleiri og fleiri dudebro’s voru að bera kennsl á mig og koma að tala við mig. Þessi tilraun með dulargervið var algjört klúður. Á næstu kosningavöku verð ég að prófa að sleppa dulargervinu. Ég er augljóslega að vekja meiri athygli svona. Ég verð að komast út. Get ekki verið hérna lengur. Hringur starfsmanna þrengist. Dudebro’s fjölgar. Exit. Hvernig get ég komist út. Hvar í fjandanum er Heiða.
Skyndilega er ég blindaður af flassi. Hún er kominn. Bjargvætturinn með myndavélina. Ég tilkynni henni að ég verði að komast út. Ég sé að kafna. Hún hlær að mér, eins og alltaf. Spyr hvort dulargervið sé ekki að virka. Ég viðurkenni að hugsanlega hafi það verið mistök. Segi henni að það séu faldar hurðir allt í kringum okkur og að við ættum kannski bara að nota einhverja þeirra til þessa að flýja. Hún segir að það sé líklega ekki góð hugmynd. Róar mig niður. Fylgir mér í gegnum salinn. Fram hjá sífellt ölvaðra fólki sem starir á glansandi plastnefið á mér. Við komumst fram hjá langri biðröð fólk sem vill komast inn í salinn. Heiða kveikir sér í sígarettu og ég veipa af svo miklum krafti að græjan snögghitnar í höndunum á mér. Ég er frjáls. Frelsi einstaklingsins Braga.
Við ræddum hvert ætti að halda næst. Skoðuðum fyrstu tölur. Vissulega var Framsókn og Flokkur Fólksins að sækja talsvert á í þessum fyrstu tveim kjördæmum, en það að Sósíalistaflokkurinn væri ekki að ná yfir 5% múrinn fannst mér líka mjög áhugavert. Að endanum sammæltumst við Heiða um að Sósíalistarnir yrðu næstir og stefnan var tekin á KEX, þar sem þeirra kosningavaka fór fram.
Sósíalistar á KEX
Eftir að hafa fundið laust stæði við Aktu Taktu fórum röltum við inn á KEX. Á leiðinni inn stoppaði mig maður og kynnti sig sem Þránd. Það tók mig rúma sekúndu að átta mig á því að þetta var enginn annar en Þrándur Þórarinsson, listmálari. Við höfum talað saman á netinu og í gegnum tölvupósta af því ég bað hann fyrir stuttu að mála fyrir mig kápu á skáldsögu sem ég skrifaði og mun koma út eftir um það bil mánuð. Þrándur er einn af örfáum einstaklingum sem hefur lesið þessa óútkomnu bók mína. Hrósaði henni og ég þakkaði honum kærlega fyrir.
Ég sagði honum svo hvaðan ég væri að koma. Að ég hefði farið í dulargervi á kosningavöku Sjálfstæðisflokksins og að það hefði mistekist hrapalega. Sýndi honum mynd af mér í gervinu og hann hló að mér. Ég hefði kannski betur borið gervið undir einhvern málsmetandi einstakling áður en ég tók ákvörðun um að treysta því til þess að dylja persónu mína innan um fólk sem almennt hefur ekki verið ánægt með störfin mín.
Eftir að hafa hvatt Þránd rölti ég inn á kosningavökuna sjálfa. Rétt áður en ég kom inn mætti ég Heiðu. Hún sagði að enginn forkólfur flokksins væri sjáanlegur og að stemningin væri almennt frekar þung. Við vorum þó komin, alveg eins gott að kíkja á ástandið.
Handsprengjan sem var vatnsblaðra
Engar nýjar tölur höfðu borist frá því við vorum í gini ljónsins. Það var hins vegar alveg rétt hjá henni að stemningin var erfið. Sósíalistaflokkurinn hefur stefnt að því að koma fólki á þing alveg frá því þessi hreyfing varð til. Byltingin í verkalýðsfélögunum átti að vera fyrirrennari þess að mæta á alþingi og vera með alvöru stæla. Hrista upp í kerfinu. Kasta hugmyndafræðilegri handsprengju inn í hið helgasta vé. Sú handsprengja virðist hins vegar hafa verið lítið annað en vatnsblaðra. Það hlýtur að vera svekkjandi.
María Lilja Þrastardóttir kom og spjallaði við mig. Hún hefur vermt þriðja sæti á lista Sósíalista í SV-kjördæmi. Við fórum aðeins yfir stöðuna. Ég bar undir hana kenninguna mína að Ásmundur hefði grenjað ríkisstjórnina inn í nýtt kjörtímabil, rétt eins og Bjarni Ben grenjaði sig áfram í formannssætið þegar Hanna Birna var að mælast með meira persónufylgi en hann hér um árið. Hún tók undir að þetta gæti staðist hjá mér. Eftir stutt spjall þurfum við hins vegar að þagna. Það var byrjað að sussa á alla í salnum. Fyrstu tölur úr NA-kjördæmi voru að koma.
Erfið æska Ásmundar bjargar ríkisstjórninni
Aftur var framsókn aftur að bæta brjálæðislega við sig. Sósíalistar voru í þessari talningu með 82 atkvæði. 2,7%. Algjör skellur. VG líka að hrynja. Flokkur Fólksins hins vegar einnig að bæta þvílíkt við sig. Á meðan ég skrifaði þetta gat ég ekki annað en hlegið. Íslendingar eru svo dásamleg lauf í vindi. Inga Sæland hefur aftur náð að sjarmera landann kvöldið fyrir kjördag og það hversu erfiða æsku Ásmundur Einar átti virðist ætla að bjarga ríkisstjórninni.
En þetta er algjör brotlending fyrir Sósíalistaflokkinn. Það er búið að undirbúa nákvæmlega þetta móment í mörg ár. Og ekki maðurinn inn. Inga og öryrkjarnir og eldri borgararnir og öll viðtölin um þjáninguna hans Ása að stela prósentunum þeirra. Mesta hrunið á akkúrat þessari stundu var hjá Sósíalistum og Miðflokknum, sem voru aðeins að mælast inni með einn þingmann, Sigmund Davíð.
Fram að þessu hafði planið verið að kíkja á Pírata næst, en það var augljóslega kjaftæði. Sagan var að gerast hjá Framsókn eða Flokki Fólksins. Fyrir nokkrum vikum, eða bara nokkrum dögum, leit allt út fyrir að Inga væri á leiðinni í eitthvað annað starf og að Flokkur Fólksins myndi einfaldlega hætta að verða til. Þess í stað ætlar hún skyndilega að verða formaður eins stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Jakob Frímann inni. Jakob fokking Frímann á leiðinni á þing. Hvað er í gangi?
Gott að enda í kirkju
Kæró sagði mér að samkvæmt kosningavöku RÚV væri búin að vera mikil stemning hjá Flokki Fólksins. Þau væru með kosningavöku í safnaðarheimili Grafarvogskirkju. Ég ræddi við Heiðu og náði að tala hana inn á að þetta yrði okkar síðasta stopp. Hún var orðin svöng og þreytt og vildi fara að komast heim. Grafarvogskirkja og svo búið. Ég lofa.
Áður en við náðum að yfirgefa Sósíalistana komu nýjar tölur. Ég náði ekki kjördæminu en D var með 34,6% og einhver í salnum byrjaði að öskra OJ, OJ, OJ!. Þegar kom að Sósíalistum sást hinsvegar til sólar. 6% og salurinn trylltist. Fyrir framan mig stóð Sólveig Anna og steytti hnefann út í loftið. Eftir að tölurnar voru lesnar kom upp grafík þar sem sýnt var hvaða þingmenn væru inni í þessu kjördæmi, sem framhjá mér hafði farið. Þar sást hvaða þingmaður Sósíalista var á leiðinni inn, en gleraugun mín voru ekki nógu öflug til þess að ég gæti séð hver það var. Þetta gladdi samt viðstadda gríðarlega.
Á leiðinni út tók ég samt aðeins inn hópinn. Þarna var fólk sem hafði verið að djamma með mér á mínum djammárum. Plötusnúðar. Skegg. Götuð miðnes. Fríkaðar hárgreiðslur. Hér var öllum skítsama um glansandi grínnefið mitt. Ég upplifði ekki að neinn ætlaði að lemja mig. Engir starfsmenn að biðja mig um leyfi fyrir tilveru minni. Jæja. Grafarvogur.
Flokkur Fólksins í safnaðarheimili
Heiða var orðin svöng og ég var orðinn þreyttur en hingað varð ég að koma. Ætlaði ekki að nenna. Alla leið upp í Grafarvogskirkju og undir hana þar sem þeir geyma safnaðarheimilið sitt.
Við gengum inn og það fyrsta sem ég upplifði var hversu stálheiðarlegt þetta var allt saman. Hár meðalaldurinn var bersýnilegur. Engin sérstakur spariklæðnaður og þeir sem voru í jakkafötum virtust hafa fengið þau úr dressman en ekki sérsniðin. Hárlubbarnir úfnir og lítið gelaðir. Á hverju borði var einhverskonar ílát og upp úr þeim stóð íslenskur smáfáni á priki.
Innst inni í rýminu voru svo pizzakassar í stöflum. Heiða var kominn á mikinn snúning með myndavélina svo ég gat ekki bent henni á veigarnar, en stuttu eftir að hafa rekið augun í pizzurnar fann ég pumpukaffi sem ég dældi í pappaglas. Klukkan var rúmlega miðnætti og ég vissi að ég yrði fram á nótt að skrifa þennan pistil. Betra að hafa nægt magn af koffíni í blóðinu til þess að keyra stælana almennilega af stað. Svo fann ég Macintosh dall, alveg risastóran. Valdi mér einn fallegan bleikan mola, settist með kaffið mitt og byrjaði að skrifa.
Stuttu seinna var Heiða mætt skælbrosandi með tvær pizzasneiðar, nákvæmlega eins Macintosh mola og ég og kaffi til að skola veitingunum niður. Þarna leið okkur mjög vel. Hér voru engar vegan-pizzur með blómkálsbotni eða sérbruggaði ipa bjór. Hérna var bolurinn mættur með sína uppreisn.
Ömmulega byltingin
Tommi á Búllunni rölti framhjá okkur, langbest klæddi maðurinn á svæðinu, með tvær ískaldar appelsín í dós. Mér leið eins og ég væri í vel heppnuðu ömmuboði. Nóg af pizzum og kaffi og nammi og bjór fyrir alla. Hér þyrfti engan að skorta neitt. Þrátt fyrir allt sem Sósíalistar hafa reynt þá fannst mér eins og þetta væri hinn raunverulegi sigur öryrkjanna. Ég bar kennsl á að minnsta kosti tvo leigubílstjóra sem ég kannast við. Fólk haltraði. Tosaði upp um sig Levi’s buxurnar í hefðbundnu sniði og bauð hvort öðru neftóbak. Á borði rétt hjá okkur var, við hliðina á annarri Macintosh dós, gestabók. Þau voru með gestabók. Hversu ömmulegir geta hlutirnir orðið. Þarna var líka siðmenntaðasta stemningin. Fólk sem kann að halda veislur. Engir Exit gæjar að fara að lemja mig, Kaffibarskrakkar á fimmtugsaldri eða verkalýðsleiðtogar í denim on denim on denim.
Við vildum bíða eftir fyrstu tölum í öðru hvoru Reykjavíkur kjördæmanna. Við þurftum ekki að bíða lengi, því Reykjavík Norður var skyndilega mætt upp á skjáinn. Þar kaus ég. Held ég. Framsókn að dobbla sig. D tapar smá. F bætir aðeins við sig og salurinn tekur gleði sína heldur betur. Eftir að tölur hafa verið lesnar eru andlit þeirra sem þá eru inni varpað upp á skjáinn og þar er krumpuð gríman á Tomma mætt. Hópurinn klappar. Einhver öskrar: Fyrir öryrkjana! Fyrir gamla fólkið! Lítill rauðhærður strákur gefur high five. Sá sem tók á móti því var annað hvort aldraður faðir hans eða ungur afi.
Ítrekun: Ekki öll grínnef eru trúðanef
Þetta var í rauninni það eina sem mig langaði í. Sjá stemmarann hjá flokk sem raunverulega var að vinna. Heiða vildi ná mynd af mér við störfin áður en við færum svo ég stóð upp og spókaði mig á meðan ég hélt áfram að skrifa og hún smellti af mér nokkrum myndum í dulargervinu mislukkaða.
Á meðan við pökkuðum okkur saman kom svo kona að spjalla við okkur. Spurði vingjarnlega hvort við værum hjá einhverjum fjölmiðli. Ég sagðist vera hjá að skrifa pistla hjá Stundinni og hún sagði stolt frá því að hún hefði verið áskrifandi frá upphafi. Spurði svo í gríni hvort ég væri í trúðagervi af því ég væri að segja að þau væru öll trúðar.
Eftir að ég útskýrði að þetta væri alls ekki trúðanef, heldur dulargervi svo ég gæti skrifað í nafnleynd hló hún bara. Sagðist nú vera í framboði en hefði engan áhuga á því að komast á þing. Vildi bara styðja Ingu í að hjálpa fólki. Þetta var Jónína Björk Óskarsdóttir, sem er í öðru sæti fyrir flokkinn í SV-kjördæmi. Hún rabbaði aðeins við okkur um hvernig þetta liti allt út. Sagði að það væri góð stemning í hópnum. En við vorum bæði orðin þreytt og lúin. Ég átti eftir að fara heim og skrifa og Heiða átti eftir að keyra alla leið til Njarðvíkur og vinna þessar fallegu myndir sem prýða þennan heimska pistil.
Klukkan akkúrat núna er 4:11. Augun eru að detta úr hausnum á mér. Sonur minn vakti mig fyrir 22 klst. Nú fer ég í það að reyna að koma þessum texta á netið þannig þið getið lesið áður en allt sem ég hef skrifað hér verður úrelt og púkó. Kannski er það nú þegar of seint. Ojæja. Mér líður allavega aðeins betur í maganum en í upphafi kvöldsins. Það er þó eitthvað.
Athugasemdir