Það rigndi „gulli“ við eldgosið
Björgunarsveitarmaður Meðlimir í björgunarsveitum á svæðinu báðu fólk að yfirgefa svæðið upp úr klukkan 10 í gærkvöldi. Mynd: Jón Trausti Reynisson
Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Það rigndi „gulli“ við eldgosið

„Ein­stak­lega fal­leg“ vik­ur­korn bár­ust úr eld­gos­inu í Geld­inga­döl­um í gær eða nótt. Norna­hár fund­ust í mos­an­um. Fólk­ið mynd­aði ljós­ar­ás frá gígn­um.

Eldgosið í Geldingadölum skartaði sínu fegursta í gærkvöldi og fólkið sömuleiðis. Ljósadýrðin af mannmergðinni sem yfirgaf gossvæðið í einni rás að beiðni sjálfboðaliðanna í björgunarsveitum  blandaðist saman við rauðlitaðan og appelsínugulan himininn. Boðað hefur verið að lokað verði fyrir aðgang að eldgosinu á morgun, laugardag.

NornahárEldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti þessa mynd af nornahárum nærri gígnum í Geldingadölum.

Í gær eða í nótt átti sér stað fyrsta öskufallið við eldgosið, samkvæmt Eldfjallafræði og náttúruvárhópi Háskóla Íslands. Eldfjallafræðingarnir Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson fundu gyllt gjall austan við gosstöðvarnar, mest um sentímetri hvert korn. „Gjóskufallið, þar sem það er svo gott sem samfelld þekja, myndar mjóan geira sem nær yfir hraunið austan gígana og nokkra tugi metra upp hlíðina á móti,“ segir í færslu hópsins. Þess ber að geta að gasið af gosinu hefur undanfarið borist í austurátt undan vestanáttinni og því ekki verið aðstæður fyrir fólk að dvelja þar við. Á páskadag er hins vegar spáð norðanátt sem leiðir gasmengun hugsanlega suður yfir hluta núverandi gönguleiðar.

Þá segir að gjóskan sé einstaklega falleg, gulllituð vikurkorn (e. Golden Pumice), sem í raun eru frauð með þéttpökkuðum smáum hringlaga blöðrum. Í sumum tilvikum eru blöðrurnar marghorna, sem er vitnisburður um þroskuð froðu.“

GjalliðÁ meðfylgjandi myndum frá jarðfræðingum á svæðinu sést gyllta gjallið, vikurinn, nefndur „Golden pumice“ á ensku.

Svokallað nornahár hefur um leið fundist, sem myndast þegar kvikan er teygð út í örmjóa strengi, líkt og þegar „deigt toffí“ (þ.e. karamella) er slitin í sundur og dregin út.“ Fyrirbærið verður til þegar gasstreymi teygir á kviku í örþunn hár, líkt og glerull. Nornahár geta veðrast auðveldlega og horfið við ágang fólks.

Um klukkan 10 í gærkvöldi vísuðu björgunarsveitir fólki af svæðinu, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum og myndböndum. Blíðskaparveður var en færi á köflum erfitt. Leðja er á stórum hluta gönguleiðarinnar, mest í dalnum suður af, og í bröttum brekkum er sums staðar þunnt lag af lausamöl ofan á klöpp, sem kippir auðveldlega fótunum undan ferðalöngum. Ekki er lengur gengið upp þar sem reipi hafði verið komið fyrir, sem varð umdeilt vegna áhyggja af því að það bæri með sér covid.

Almenningi verður meinaður aðgangur að svæðinu á morgun vegna þess að spáð er roki og rigningu og jafnvel hríð. „Það má segja að þetta komi sér ágætlega því álag á björgunarsveitarfólk og viðbragðsaðila hefur verið gríðarlegt undanfarna daga og í sjálfu sér er þetta kærkomið. En það er stefnt að því að opna svæðið síðan aftur á páskadagsmorgni klukkan sex,“ sagði Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við RÚV. 

Þrátt fyrir að allt fólk væri farið af svæðinu í gærkvöldi var enn fram eftir nóttu björgunarsveitarfólk frá Vestfjörðum við gönguleiðina að gosinu og sömuleiðis björgunarsveitarfólk við Suðurstrandarveg.

Gosið í gærkvöldiEkki er vitað hvenær fyrsta öskufallið varð en talið er að það hafi verið í gær eða í nótt.Jón Trausti Reynisson
Streymið af gosstöðvunumUndir lok kvölds var stöðugur straumur fólks niður stíginn sem gætt var af björgunarsveitunum.
Björgunarsveitin lokarSumir þeirra síðustu höfðu týnt eigum sínum og leituðu þeirra við hraunið. Björgunarsveitarfólk ræðir hér við viðstadda um brottför.
BjörgunarsveitarmaðurEinn af þeim sem fylgdi því eftir að fólk færi frá gosstöðvunum fyrir nóttina.
LokunBjörgunarsveitir lokuðu fyrir bílaumferð á Suðurstrandarvegi skammt vestan við afleggjara að Vigdísarvöllum frá klukkan sex í gær.
Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Eldgos við Fagradalsfjall

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár