Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Skólum lokað og stórhertar sóttvarnaraðgerðir

Tíu manna fjölda­tak­mark­an­ir taka gildi á mið­nætti um allt land og öll­um skól­um verð­ur lok­að. Beita á hörð­um að­gerð­um til að tak­ast á við breska at­brigð­ið af Covid-19.

Skólum verður lokað, sundstöðum og líkamsræktarstöðvum er óheimilt að hafa opið, krám og skemmtistöðum verður lokað og fjöldatakmarkanir verða færðar niður í tíu manns á miðnætti. Hertar sóttvarnaraðgerðir, sem kynntar voru rétt í þessu, munu gilda næstu þrjár vikurnar, til þess að reyna að koma böndum á útbreiðslu breska afbrigðis Covid-19. 

Helstu breytingar á samkomutakmörkunum eru eftirfarandi: 

  • Almennar fjöldatakmarkanir miðast við tíu manns og gildir það um allt land og fyrir alla. Grímuskylda verður fyrir alla  utan börn fædd 2014 og síðar. Staðnám í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum verður óheimilt fram til 1. apríl. Skemmtistöðum og krám verður lokað. Veitingastöðum verður heimilt að hafa opið til klukkan 22:00 og verður heimilt að taka á móti 20 manns að hámarki í hvert sóttvarnarhólf. Þjóna þarf gestum til sætis. Kvikmyndahúsum og leikhúsum verður lokað.
  • Sund- og baðstöðum verður óheimilt að hafa opið og líkamsræktarstöðvum einnig. Þá verður íþróttastarf utanhúss óheimilt þar sem ekki er hægt að viðhafa tveggja metra fjarlægð. Á það við um bæði íþróttir fullorðinna og barna.
  • Trú og lífsskoðunarfélög mega taka á móti 30 gestum í athöfnum. Verslanir mega taka á móti 50 manns að hámarki, þó færri þar sem um minni verslanir er að ræða. Snyrtistofur og hársnyrtistofur hafa áfram heimild til að hafa opið. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi í dag að hún væri ekki að færa neinar gleðifréttir. Fjölgun smita upp á síðkastið væru keyrð áfram af svokölluðu bresku afbrigði, sem leggst ekki síður á börn og unglinga en eldra fólk. Því væri tekin ákvörðun um þær svo mjög hertu aðgerðir sem nú væru kynntar.

Katrín lagði þó áherslu á að staðan væri þó betri nú en var fyrir ári síðan, því með bólusetningum væri búið að koma mörgum af viðkvæmustu hópunum í skjól. 

Katrín sagði enn fremur að með því að stíga mjög hart til jarðar nú þegar væri vonin sú að hægt yrði að koma böndum á fjórðu bylgju faraldursins. Aðgerðirnar myndu hafa mjög mikil áhrif til skamms tíma en þær munu vonandi hafa þau áhrif að svo harðar aðgerðir þurfi að standa skemur en annars væri. Ofurkapp væri lagt á að ná tökum á breska afbrigðinu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti á fundinum að bólusetning með bóluefni AstraZeneca bólusetning myndi hefjast að nýju, fyrir 70 ára og eldri. Á næstu tveimur vikum mun verða hægt að bólusetja allt heilbrigðisstarfsfólk og alla 70 ára og eldri. 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á fundinum að með aðgerðunum væri verið að verja heilsu fólks en jafnframt verið að lágmarka efnahagslegan skaða. Ljóst væri þó að margir myndu finna fyrir efnahagslegum áhrifum að hertum reglum. Unnið væri að framlenginu á lokunarstyrkjum og viðspyrnustyrkjum fyrir aðila í atvinnulífinu.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Covid-19

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár