Svo sem tíðkast bauð Alþingi almenningi að leggja fram umsagnir um frumvarp forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskránni. Tuttugu umsagnir hafa verið birtar á vefsetri Alþingis, flestar niðursallandi svo sem við var að búast. Athygli vekur að Samtök atvinnulífsins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS, áður LÍÚ) og Viðskiptaráð lýsa sig andvíg auðlindaákvæðinu sem 83% kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Þessi hagsmunasamtök hafa sagt sig úr lögum við fólkið í landinu; ekkert nýtt í því.
Umsögn mín um frumvarpið birtist á vefsetri Alþingis eins og aðrar og fer hér á eftir. „Ég ávarpa ykkur alþingismenn að gefnu tilefni. Nú eru liðin rösklega átta ár frá þjóðaratkvæðagreiðslunni sem Alþingi boðaði til um nýja stjórnarskrá 20. október 2012. Þann tíma sem síðan er liðinn hafið þið notað til að kalla yfir Alþingi mikla smán, hina mestu í meira en þúsund ára sögu þingsins. Þið hafið svívirt vilja þjóðinnar í stjórnarskrármálinu með því að reyna að sölsa undir ykkur sjálfa valdið til að setja landinu nýja stjórnarskrá, vald sem tilheyrir þjóðinni samkvæmt viðtekinni grundvallarhugsjón lýðræðis og Alþingi hafði áður með réttu selt í hendur þjóðarinnar svo sem staðfest er berum orðum í nýju stjórnarskránni. Þið hafið gert þetta einkum til að þóknast sérhagsmunum útvegsmanna sem virðast eiga ykkur með húð og hári. Öll rök málsins liggja fyrir vandlega skýrð í miklum fjölda greina og bóka innan lands og utan, en þið sýnið þeim engan áhuga heldur aðeins lítilsvirðingu og fjallið nú um frumvarp sem er miklum mun lakara og þrengra en frumvarpið sem kjósendur samþykktu 2012 svo sem ég hef eins og margir aðrir lýst meðal annars í fyrri umsögnum um einstök ákvæði í því frumvarpi forsætisráðherra sem fyrir liggur. Á meðan þessu vindur fram halda áfram að birtast nýjar uppljóstranir um spillinguna sem bogar af sumum borgunarmönnum ykkar. Kannski að erlendir dómstólar geti komið vitinu fyrir ykkur. Kliðurinn er byrjaður að berast heim til Íslands frá Namibíu og víðar að. Takið ykkur tak. Það er aldrei of seint að bæta ráð sitt og breyta rétt.“
Athugasemdir