Kæru foreldrar.
TikTok er tiltölulega nýtt smáforrit sem mörg ungmenni nota. Það virðist saklaust við fyrstu kynni, flestir tengja forritið við dansa, lög og fyndnar áskoranir, en það er aðeins toppurinn á ísjakanum. Við heitum Dagný Halla og Gunnhildur Fríða og framleiðum TikTok myndbönd þar sem við reynum að fræða önnur ungmenni um t.d. femínisma og umhverfismál eða deila okkar áhugamálum. Þótt flestir okkar áhorfendur taki jákvætt í efnið, höfum við líka orðið varar við dökku hlið TikTok. Þar hefur ungt fólk orðið fyrir skoðanamyndandi áhrifum og er núna farið á ungum aldri að skrifa hatursfull ummæli þar sem gætir áhrifa útlendingahaturs, kvenhaturs og fleira í þeim dúr. Okkur þykir þetta mikið áhyggjuefni og viljum með þessari grein biðla til foreldra að tala við börnin sín um TikTok.
Um algóriþmann á TikTok
Instagram og Facebook eru notendabyggð smáforrit sem sýna þér efni frá fólki sem þú velur að fylgja á meðan TikTok er efnisbyggt smáforrit sem sýnir þér efni sem algóriþminn telur að þér muni finnast skemmtilegt. Formúlan er einföld:
- Þú sérð eitthvað skemmtilegt, líkar við það.
- Algóriþminn verður betri og betri að sýna þér það sem þér finnst skemmtilegt.
- Þú eyðir meiri tíma í að skoða TikTok.
- TikTok græðir meira í auglýsingatekjur.
Heimasíðan er byggð upp til að vera eins einföld í notkun og hægt er, þú stjórnar öllum aðgerðum með þumlinum. Læk, follow, komment og deila eru öll á sama stað og þú þarft ekki nema að skrolla ef þú færð leiða á myndbandinu sem er að spila og algóriþminn sýnir þér eitthvað nýtt. Þetta kerfi veitir þér dópamínsprengju, og flestir kannast við það að sitja límd við símann klukkustundum saman að horfa. Ætli það heiti ekki TikTok vegna þess að það rænir af þér verðmætum tíma.
Þó þetta sé frábær viðskiptahugmynd þá býður hún hættunni heim vegna þess að hún ýtir undir staðfestingarskekkju (e. confirmation bias) hjá fólki og sýnir notendum ítrekað efni byggt á því sem það hefur líkað við. Þetta hljómar líka sakleysislega fyrst, til dæmis hefur TikTok sýnt mér mikið af prjónamyndböndum eftir að þau föttuðu að mér finnst gaman að prjóna, eða oft fattar TikTok að þú tilheyrir LGBTQIA+ samfélaginu og sýnir þér flott myndbönd frá fólki sem styður þetta samfélag. En þetta kerfi hefur líka slæma hlið, þá sérstaklega þegar barn er enn þá að mynda sér sjálfstæðar skoðanir. Tökum dæmi: barnið þitt líkar við brandara á kostnað femínista. Næst fær barnið þrjú myndbönd með kvenhaturs undirtón, og næsta dag níu myndbönd um grófara efni t.d. hatursorðræðu, grófa fordómabrandara, rasisma o.s.frv. Allt í einu eru flest myndböndin með gríðarlegu hatri í, og af því að þetta er það eina sem barnið þitt sér, þá finnst því núna ekkert eðlilegra en að halda fram fordómafullum skoðunum, því allir sem það sér eru sammála þeim skoðunum. Ekki líður á löngu þar til barnið fer að apa upp hluti frá hinum myndböndunum, hluti sem áður þekktist ekki að börn væru að segja í svona miklum mæli (sjá skjáskot). Þetta hljómar öfgakennt, og ef til vill hugsa margir „barnið mitt mundi aldrei gera svona“ en þetta er því miður allt of algeng saga, og þetta er ástæðan fyrir því að við erum að skrifa þessa grein. Þetta getur komið fyrir hvern sem er, hvort sem barnið er sá sem lendir í hatri eða sá sem deilir hatri. Hvorug staðan er góð. Þegar við sjáum síendurtekin hatursummæli (sem er ekki hægt að tilkynna vegna þess að TikTok skilur ekki íslensku), ákveðum við stundum að senda foreldri einstaklingsins (sem er oftast hægt að finna í gegnum Facebook eða Íslendingabók) skilaboð. Oftar en ekki bregðast foreldrar undrandi við ,þau „hafi ekki haft hugmynd“ um að barnið sitt væri að segja svona hluti.
Þetta minnir ógnvekjandi mikið á atvik sem áttu sér stað í YouTube tölvuleikjamenningu ungra drengja fyrir nokkrum árum. Af einhverjum ástæðum hafði algóriþmi YouTube tengt saman fylgni milli áhorfenda tölvuleikjasíðna og áróðursmyndbanda nýfrjálshyggjuhópa (e. alt-right) sem byggðist á hugmyndum um yfirvaldastefnu hvítra (e. white supremacy) og íhaldssemi. Þetta leiddi til þess að YouTube fór að mæla með áróðursmyndböndum fyrir markhóp tölvuleikjarásanna, 12–15 ára drengja, sem eru einmitt á þeim tíma ævinnar að byrja að móta sjálfstæðar skoðanir. Afleiðingarnar af öfga-hægri YouTube áróðrinum er erfitt að mæla, en hægt er að benda á fullt af einstaklingum sem fengu sínar öfgafullu skoðanir frá öfga-hægri áróðursmyndböndum, meðal annars ofbeldismenn í Bandaríkjunum, byssumenn í skólum og „incels“. Þetta er þróun sem við eigum að hafa lært af, og þarf að stöðva snemma.
Getur verið slæmt fyrir alla
Þótt áhrifin séu kannski sýnilegust núna hjá unglingsstrákum, geta allir lent í því að TikTok hafi slæm áhrif á andlega heilsu. Ungar stelpur eru að sjá aðrar stelpur sem hafa orðið ,,viral“ fyrir að vera með mjótt mitti, stóran rass eða lítið nef. Ólíkt Instagram, þar sem þú þarft að fylgja þeim sem þú sérð (sem eru þá oftast vinir þínir), þá er „ForYou“ síðan á TikTok full af fólki sem þú þekkir ekkert. Mörg trend á TikTok eru mjög kynferðisleg, ýta undir evrópska fegurðarstaðla og fjalla oft um líkamsþyngd. Það áhugaverðasta fyrir okkur er að svo virðist sem hinn nýi „ameríski draumur“ hafi myndast á TikTok, því hver sem er gæti orðið frægur á einni nóttu. En þessi draumur margra unglinga í dag byggir á því að gera eitthvað einfalt, ekki vinna að einhverju sem leiðir af sér langtíma ávinning samfélagsins, heldur bara skammtíma ávinning einstaklingsins. Þetta vekur áhugaverðar spurningar, sérstaklega þegar litið er til þess að ýmsar rannsóknir sem beinast að samfélagsmiðlanotkun barna og unglinga leiðir það í ljós að gildin þeirra færist frá samfélagslegum gildum, yfir í einstaklingsmiðuð gildi (svo sem frægð, frami, eigið ríkidæmi) eftir því sem samfélagsmiðlar hafa meiri ítök í lífi þeirra. Í leit að sameinuðum heimi þar sem kærleikur til náungans og samfélagsins er mikilvægari en nokkru sinni fyrr, eru samfélagsmiðlar mögulega það sem er að skilja næstu kynslóð í sundur.
Hvað geta foreldrar gert?
Þá er komið að spurningunni, hvað eiga foreldrar að gera? Svarið er eiginlega að enginn veit, því hér er verið að framkvæma félagsfræðitilraun á því hvernig heil kynslóð verður fyrir áhrifum TikTok. Það sem við ráðleggjum lesendum, og þá sérstaklega foreldrum, að gera er að tala við börnin þín um neteinelti og hefja samræður um hvaða efni þau eru að sjá. Svo er TikTok með fjölskyldustillingar sem er hægt að setja upp, þannig þú getir ráðið skjátíma, bannað ákveðnar tegundir af efni og stjórnað skilaboðum. Við mælum líka með því að yngri börn séu ekki með opinberan aðgang, til að minnka líkurnar á því að verða háð „like-um“ og og utanaðkomandi samþykki frá ókunnugum. Foreldrahlutverkið í þessu samhengi þarf samt ekki að vera bara neikvætt því þú getur líka kennt barninu þínu að fíflast og vera jákvæður á TikTok og að vera góður við aðra.
Kennum börnunum okkar gagnrýna hugsun og opið hugarfar. Það er fullt af flottu og fræðandi efni á TikTok sem gerir það að frábæru samfélagi. En án samvinnu foreldra og barna er auðvelt að missa taumana.
Höfundar eru nemendur, ekki fræðimenn.
Athugasemdir