Stuðningsmenn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta ruddu sér leið inn í þinghúsið í Washington í kvöld, þar sem sameinað þing beggja deilda hefur haft til umræðu staðfestingu kjörmanna á kjöri Joes Biden sem forseta.
„Þetta er valdaránstilraun,“ segir Adam Kinzinger, fulltrúardeildarþingmaður repúblikana á Twitter.
Ein kona var skotin í hálsinn af lögreglu inni í þinghúsinu og er sögð látin. Minnst fjórir aðrir eru slasaðir eftir innrásina.
Donald Trump forseti hefur ítrekað fullyrt án nokkurra sannana að um kosningasvik hafi verið að ræða í þeim ríkjum þar sem hann tapaði naumlega. Hann kom fram á fjöldafundi í dag og hvatti stuðningsmenn sína til dáða til að snúa niðurstöðum kosninganna.
„Við gefumst aldrei upp og viðurkennum aldrei ósigur,“ sagði hann.
Í dag missti Reúpblikanaflokkurinn meirihluta sinn í öldungadeildinni, þar sem tveir fulltrúar demókrata báru naumlega sigurorð af frambjóðendum repúblikana í Georgíu.
Hlé var á þingstörfum vegna þessa og var húsinu læst. Varaforsetinn Mike Pence fór úr húsinu í fylgd öryggisvarða. Lögregla við þinghúsið bað um liðsauka og hefur innrásarfólkinu verið bolað aftur út. Táragasi var dreift um ganga þinghússins.
„Mike Pence hafði ekki hugrekkið“
Mitch McConnell, fráfarandi forseti öldungadeildarinnar fyrir hönd repúblikana, hafnaði í ræðu sinni tilraunum til að koma í veg fyrir staðfestingu kosningaúrslitanna. „Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur æðri köllun en að festast í endalusum vítahring flokkspólitískra hefnda.“
Donald Trump bað mótmælendur í tísti eftir innrásina að hafa sig hæga. „Vinsamlegast styðjið við lögregluna við þinghúsið. Þeir eru sannarlega í liði með landinu okkar. Verið friðsamleg!“
Rétt áður hafði hann ráðist gegn varaforsetanum Mike Pence, fyrir að sinna ekki beiðnum um að hindra formlegt kjör Joes Biden. „Mike Pence hafði ekki hugrekkið til þess að gera það sem þurfti að gera til að vernda landið okkar og stjórnarskrána, að gefa ríkjunum tækifæri til að staðfesta leiðréttar staðreyndir, ekki falskar eða ónákvæmar sem þau voru áður beðin að staðfesta. Bandaríkin krefjast sannleikans!“
Komið hefur verið á útgöngubanni í Washington. Gert er ráð fyrir því að haldið verði áfram með þingfund í kvöld.
Donald Trump sagði í myndbandsávarpi til stuðningsmanna sinna eftir innrásina að hann elskaði þá og að þeir væru „mjög sérstakir“, en þyrftu að fara heim og halda friðinn. Hann ítrekaði að kosningunum hefði verið stolið og sagðist skilja þá.
Athugasemdir