Hvernig eiga menn að umgangast andstæðinga sína?
Þessum vanda standa bandarískir demókratar nú frammi fyrir. Hvernig eiga þeir að taka á repúblikönum? – sem reyndu næstum allir sem einn að hjálpa fráfarandi forseta við að fremja valdarán. Hvað annað er hægt að kalla tilraun sitjandi forseta og manna hans til að beita dómstóla pólitískum þrýstingi til að fá þá til að hafa að engu ótvíræð úrslit forsetakjörs?
Forsetinn sagði berum orðum að fullskipaður hæstiréttur gæti þurft að ákveða úrslit kosninganna – líkt og gerðist 2000 þegar hæstiréttur stöðvaði talningu atkvæða í Flórída og dæmdi repúblikönum forsetaembættið með fimm atkvæðum gegn fjórum eftir flokkslínum. Þess vegna skipaði Trump einn íhaldsdómarann enn rétt fyrir kosningarnar um daginn og hafði þá skipað þrjá af níu dómurum réttarins.
Misheppnað valdarán
Tilrauninni til valdaráns var ekki hrundið fyrir fullt og allt fyrr en fyrir fáeinum dögum, sex vikum eftir kosningar, þegar kjörráðið kom saman og kaus demókratann Joe Biden forseta með 306 atkvæðum gegn 212, sama atkvæðamun og tryggði Donald Trump sigur gegn Hillary Clinton 2016 þótt hún hlyti þrem milljónum fleiri atkvæði en Trump á landsvísu. Biden hafði sigur ekki bara í kjörráðinu heldur einnig um landið með sjö milljón atkvæða mun. Trump á þó enn eftir að gangast við ósigri og gerir það kannski aldrei.
Trump forseti og menn hans hafa haldið fram rakalausum lygum um kosningasvindl, lygum sem mikill hluti óbreyttra repúblikana virðist trúa og varla nokkur virðingarmaður flokksins á Bandaríkjaþingi eða úti í ríkjunum hefur haft kjark til að rísa gegn af ótta við hefndarráð forsetans og manna hans. Þau óttast illmælgi Trumps og „andrúmsloft dauðans“.
Repúblikanaflokkurinn hefur í reyndinni hegðað sér eins og óaldarflokkur. Þegar annar tveggja flokka í tveggja flokka kerfi verður uppvís að háttalagi eins og þessu rambar lýðræðið á barmi hengiflugs þótt stjórnkerfi landsins og innviðir hafi staðið storminn af sér enn sem komið er.
Ekki bara Trump
Vandinn er eldri en Trump.
Sumir telja að upptökin megi rekja allar götur aftur til loka borgarastríðsins 1861–1865 þar eð margir íbúar suðurríkjanna og afkomendur þeirra hafi aldrei sætt sig við ósigur í því stríði. Aðrir rekja upptökin til þvingaðrar afsagnar Richards Nixon forseta 1974 það eð hún hafi fyllt repúblikana hefndarhug fyrir hönd Nixons og flokksins þótt það hafi einmitt verið flokksbræður Nixons sem riðu baggamuninn í þinginu og sannfærðu Nixon um að hann yrði að segja af sér.
Nixon hafði orðið uppvís að lögbrotum og margir nánustu samstarfsmenn hans, þar á meðal dómsmálaráðherrann, John Mitchell, fengu fangelsisdóma. Martha Mitchell, eiginkona dómsmálaráðherrans, fóðraði blaðamenn á upplýsingum um athafnir bónda síns í símtölum á síðkvöldum, vel við skál.
Enn aðrir rekja ófarnaðinn í bandarískum stjórnmálum til Newts Gingrich, leiðtoga repúblikana í fulltrúadeild þingsins 1989–1999, en hann var og er ofstækismaður af því tagi sem tekur stríð fram yfir frið hvenær sem færi gefst. Frá því um hans daga getur ekki heitið að demókratar og repúblikanar á þingi hafi verið í talsambandi sín á milli. Harðýðgi og ófyrirleitni hafa færzt í vöxt.
Á fyrri tíð sköruðust þingflokkarnir tveir. Sumir repúblikanar þóttu frjálslyndari en sumir demókratar og sumir demókratar þóttu íhaldssamari en sumir repúblikanar. Það er liðin tíð. Nú tíðkast hin breiðu spjótin. Traust almennings til þingsins, dómstóla og annarra stofnana ríkisins er hrunið.
Og ef það er eitthvað eitt sem skiptir máli í lífi lands og þjóðar, þá er það traust eins og George Shultz, tíræður hagfræðiprófessor, repúblikani og fv. ráðherra í ríkisstjórnum Nixons 1972–1974 og Ronalds Reagan 1982–1989, lýsti í áhrifamikilli persónulegri grein í Washington Post um daginn.
Vandséð virðist hvort Repúblikanaflokkurinn getur lifað þessar hörmungar af óbreyttur enda þótt 74 milljónir kjósenda hafi greitt Trump forseta atkvæði sitt gegn 81 milljón atkvæða Bidens. Líklegt virðist að heiðvirðir íhaldsmenn snúi baki við flokknum og skilji Trump og hyski hans eftir þar eða öfugt. Margir af nánustu samstarfsmönnum Trumps forseta sitja nú þegar inni fyrir ýmis lögbrot eða bíða dóms.
Saksóknarar og aðrir rökræða nú opinberlega hvort rétt sé að draga forsetann fráfarandi til ábyrgðar fyrir dómstólum. Fjöldi dómsmála gegn honum er í deiglunni, ýmist fyrir meint brot gegn alríkislögum eða fylkislögum. Mörg málanna eru ótengd embættisfærslu hans í Hvíta húsinu. Biden hefur lýst því yfir að hann muni ekki náða Trump verði Trump fundinn sekur um brot gegn alríkislögum. Reyni Trump að náða sig sjálfur, eins og hann hefur látið í veðri vaka, eða segi hann af sér til að Mike Pence varaforseti geti tekið við forsetaembættinu og náðað Trump áður en Biden flytur inn, myndi slík náðun ekki ná til meintra brota forsetans gegn fylkislögum. Trump virðist ekki vita eða skilja að sá sem þiggur náðun játar sig þar með sekan samkvæmt dómi hæstaréttar frá 1915.
Andstæð sjónarmið
Hér takast á tvö öndverð sjónarmið. Sumir segja: Enga silkihanzka, því ef lög voru brotin þurfa menn að sæta ábyrgð að lögum. Aðrir segja: Við þurfum að horfa fram hjá brotunum til að halda friðinn. Skoðum þetta betur.
Sumir telja að réttarhöld og fangelsisdómur yfir forsetanum vegna brota í embætti myndu líta út sem pólitísk hefndarráð og myndu því slíta sundur friðinn í landinu og leiða jafnvel til vopnaðra átaka, nýs borgarastríðs. Þeir segja: Menn eiga aldrei að draga andstæðinga sína fyrir dóm til að ná sér niður á þeim. Hyggilegast væri að leiða Trump hjá sér í þeirri von að hann gleymist sem fyrst og tíminn græði sárin.
Aðrir segja: Hér er ekki um nein hefndarráð að ræða. Lög eru lög og jafnræði borgaranna fyrir lögum er ein mikilvægasta grundvallarregla réttarríkisins. Hafi lög verið brotin, hvort heldur í tengslum við embættisfærslu eða í öðru samhengi, verða dómar að ganga, jafnvel þótt fv. forseti Bandaríkjanna eigi í hlut.
„When the president does it, that means that it is not illegal.“
Mörgum Bandaríkjamönnum er Nixon forseti enn í fersku minni þegar hann sagði berum orðum í sjónvarpsviðtali við David Frost að forsetinn væri hafinn yfir lög: „When the president does it, that means that it is not illegal.“
Og þeir bæta við: Trump gefst hvort sem er aldrei upp. Það er þýðingarlaust að leiða hann hjá sér eftir allt sem á undan er gengið. Hann kann ekki mannasiði. Meint brot hans snúast ekki um ágreining milli manna og flokka heldur um alvarleg brot gegn valdstjórninni eins og það heitir á lagamáli sem er notað meðal annars um landráð.
Sum málanna gegn Trump ganga nú sinn gang innan réttarkerfisins, mislangt á veg komin. Það er dómsmálaráðuneytisins að ákveða hvort gefin verður út opinber ákæra gegn honum fyrir brot í starfi eftir að hann lætur af embætti. Þar eð dómsmálaráðherra hverju sinni situr í skjóli forsetans lendir það á Biden forseta að ákveða hvort Trump verður ákærður eða ekki – og ekki bara Trump heldur einnig ýmsir nánir samstarfsmenn í hópi þeirra sem eru ekki þegar komnir í steininn.
Nixon var ekkert grín, rétt er það, en hann var hátíð hjá þeim vanda sem Trump hefur lagt á okkur hin.
Ekki bara Bandaríkin
Fyrr á þessu ári fékk François Fillon, fv. forsætisráðherra Frakklands, fimm ára fangelsisdóm fyrir spillingu. Hann áfrýjaði dóminum og gengur því enn laus. Nýlega lauk réttarhaldi yfir öðrum fv. forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy; dóms yfir honum er að vænta í marz 2021. Dæmin sýna að heimurinn er að breytast. Það er ekki lengur sjálfgefið að háttsettum stjórnmálamönnum sé hlíft við ábyrgð á lögbrotum.
Þessi dæmi eiga erindi við Íslendinga. Ég leyfi mér enn að vitna í Bjarna Benediktsson, síðar forsætisráðherra, sem sagði í bréfi til Péturs bróður síns 1934:
„Bersýnilegt er, að þjóðlífið er sjúkt. Kemur það ekki einungis fram í svikunum sjálfum, heldur einnig því, að raunverulega „indignation“ er hvergi að finna hjá ráðandi mönnum, persónuleg vild eða óvild og stjórnmálahagsmunir ráða öllu, á báða bóga, um hver afstaða er tekin. Slíkt fær ekki staðizt til lengdar. Dagar linkindarinnar og svika samábyrgðarinnar hljóta að fara að styttast.“
Ýmislegt bendir til að Ísland sé nú tekið að þokast í þá átt sem Bjarni Benediktsson lýsti eftir 1934. Hrunið opnaði augu sem áður þóttust ekki sjá. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn klofnuðu báðir í tvennt þegar formenn beggja flokka fundust í Panama-skjölunum vorið 2016. Helmingaskiptaflokkarnir sem Jónas og Jón Múli Árnasynir nefndu því nafni í Delerium Búbónis eru nú ekki lengur tveir á Alþingi heldur fjórir ef ekki fleiri. Þeir eru varla nema svipur hjá sjón.
Ég er ekki að skipta um umræðuefni þegar ég spyr: Hvernig eigum við sem berjumst fyrir gildistöku nýju stjórnarskrárinnar að taka á okkar andstæðingum? – einkum í Sjálfstæðisflokknum sem vílar ekki fyrir sér að vanvirða úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána 2012.
Sumir segja: Hegðan Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrármálinu er næsti bær við Trump og repúblikana enda styður Morgunblaðið Trump leynt og ljóst. Látum þau finna til tevatnsins, látum þau engjast sundur og saman frammi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, namibískum dómstólum og víðar. Látum tímann lúskra á þeim.
Aðrir segja: Vænlegasta leiðin til sigurs í stjórnarskrármálinu er rósamur og rökfastur málflutningur þar sem við hömrum á kjarna málsins með fjölbreyttum tilbrigðum, höldum rökum okkar fast fram og andmælum rökum andstæðinganna lið fyrir lið.
Almannatengill andstæðinga herforingjastjórnarinnar í Síle lagði enn aðra leið til í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar þar 1988 um hvort Augusto Pinochet hershöfðingi og hyski hans ættu að halda völdum. Tengillinn sagði: Leikum þetta á léttu nótunum, með söng og dansi, þannig getum við náð sigri. Það hreif. Og Pinochet tapaði og stóð uppi sem úthrópaður og dæmdur þjófur og fjöldamorðingi.
Við erum breiðfylking
Ég segi: Við sem berjumst fyrir gildistöku nýju stjórnarskrárinnar erum breiðfylking eins og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 (67% kjósenda sögðu Já!) og allar skoðanakannanir æ síðan sýna glöggt. Við eigum marga strengi í okkar hörpu. Látum þá alla hljóma hátt og snjallt. Heyjum baráttuna hvert með sínu nefi. Höldum áfram. Hættum ekki. Sýnum andstæðingum virðingu.
Vandinn er ekki nýr. Þorsteinn Gíslason, afi minn, skáld og ritstjóri, lýsti því á sinni tíð hvernig þingmenn Heimastjórnarflokksins skiptust um aldamótin 1900 í tvö horn eftir því hvernig þeir vildu haga málflutningi gagnvart andstæðingum sínum, Valtý Guðmundssyni og samherjum hans. Þorsteinn segir: „Sumir vildu taka meira eða minna tillit til þeirra en aðrir vildu berja þá niður og láta þá sem mest kenna aflsmunar.“ Þetta kemur fram í ævisögu Guðjóns Friðrikssonar um Hannes Hafstein, Ég elska þig stormur, bls. 433.
Gerum hvort tveggja eftir einfaldri reglu: Eigum við tveggja kosta völ tökum við báða með bros á vör.
Athugasemdir