Rósa Gísladóttir hlaut Gerðarverðlaunin, ný myndlistarverðlaun sem Gerðarsafnið veitir. Verðlaunin eru veitt árlega framúrskarandi myndlistarmanni sem vinnur í skúlptúr og rýmisverk. Rósa hlýtur verðlaunin fyrir metnaðarfullt og kröftugt framlag til höggmyndalistar, en hún nam myndlist í Þýskalandi, Bretlandi og á Íslandi. Verk hennar hafa verið sýnd hérlendis og erlendis.
Dómnefndin segir eftirfarandi um Rósu: „Verk Rósu eru könnun á geometríu og klassískri formgerð með vísunum í arkitektúr og rússneskan konstrúktivisma. Skúlptúrar hennar spila á mörkum þess klassíska og nútímalega jafnframt í fagurfræði og efnisnotkun. Verk í við, gifs, keramik og gler skapa samspil við umhverfi sitt hvort sem það er staðbundið verk í borgarlandslagi eða skúlptúrar sem hverfast um sýningarrými.“
Athugasemdir