Samkvæmt niðurstöðum í skýrslu Landspítalans um hópsýkinguna á Landakoti eru ástæður hennar sagðar margþættar. Talið er að nokkur smit hafi borist þangað inn á skömmum tíma. Í mati skýrsluhöfundar, Lovísu Bjarkar Ólafsdóttur sérfræðilæknis í smitsjúkdómum og sýkingarvörnum, kemur fram að ástand húsnæðis, loftskipta og aðbúnaðar á Landakoti sé ófullnægjandi og líklegt sé að þessir þættir séu megin orsök þess hversu mikil dreifing varð á smiti innan stofnunarinnar. Þá segir í niðurstöðum Lovísu Bjarkar að mönnun á Landkoti hafi verið ónóg og æskilegt hefði verið að bæta mönnun þannig að hægt hefði verið að tryggja hólfaskiptingu starfsmanna milli deilda á farsóttartímum.
Hér að ofan má fylgjast með blaðamannafundi Landspítalans þar sem niðurstöður skýrslunnar verða kynntar.
Í lokaorðum sínum sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, að reynt verði að fyrirbyggja að þetta endurtaki sig, en vísaði í þá leið að halda smitum niðri í samfélaginu.
„Við hörmum enn og aftur það að þetta hafi komið upp og erum að gera okkar allra besta til að læra af reynslunni og reyna að fyrirbyggja, ef hægt er, að svona gerist aftur. Ég ítreka að við telum ekki ásættanlegt að fólk látist af völdum Covid-19-veirunnar, þótt það gerist því miður, og við gerum okkar allra besta til að hindra að slíkt gerist. Og ég vil enn og ný ítreka að það er engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn, þannig að við erum öll saman í þessu, allt samfélagið, enda kom það skýrt fram í þessari athugun, hversu mikilvægt það er að halda smiti niðri í samfélaginu til þess að vernda okkar veikustu einstaklinga.“
Textalýsingin uppfærist sjálfkrafa á 30 sekúndna fresti.
16:05
Landspítalinn rannsakar sig sjálfan Skýrsluhöfundur starfar á Landspítala og spítalinn var því að rannsaka sig sjálfan. Spurt var hvort til stæði að fá óháðan aðila til að rannsaka málið. Sigrún svaraði því til að talið hafi verið nauðsynlegt að gera innri endurskoðun. Landlæknir er eftirlitsaðili svo þetta er ekki endapunktur.
15:57
Hvað með smitin á Eyrarbakka og Reykjalundi? Már: Það var enginn ásetningur að senda smitað fólk á aðrar stofnanir, það fólk var einkennalaust. Þú getur ekki séð þetta fyrir en það er auðvelt að sjá þetta eftir á.
15:51
Er réttlætanlegt að hafa opið á Landakoti, miðað við það sem hefur komið hér fram? Már: Stór spurning. Við erum að reyna að læra og reyndum að draga lærdóm af fyrri hópsýkingu. Veit ekki hvar ætti annars staðar að reka þessa starfsemi á þessum tímapunkti.
15:51
Kæfisvefnsvélin skýrir ekki allt Kæfisvefnsvélin skýrir ekki allan viðburðinn en kann að hafa haft áhrif á deildinni sem hún var notuð á, segir Már. Á þeirri deild smituðust 93 prósent sjúklinga.
15:48
Verður áframhald á rannsókn á málinu? Sigríður: Hópsýkingin er ekki yfirstaðin og það verður haldið áfram að kanna málin þar til niðurstaða liggur fyrir.
15:47
Hví var ekki brugðist við fyrr? Már: Engin ástæða til að gruna að þetta væri að gerast fyrr en 21. eða 22. október. Þá var þegar brugðist við af mikilli festu.
15:45
Hafa forsvarsmenn spítalans miðlað áhyggjum sínum til heilbrigðisráðherra eða þeirra sem fara með fjárveitingarvald, á því að aðstæður á Landakoti væru hættulegar sjúklingum í faraldrinum? Páll: Við höfum endurtekið lýst áhyggjum okkar við stjórnvöld. Landakot getur gengið sem venjulegt sjúkrahús í einhvern tíma, en það var ljóst þegar fyrir 20 árum að ekki væri hægt að bíða og málið hefði átt á leysa fyrir tíu árum með byggingu nýs Landspítala.
15:43
Hver ber endanlega ábyrgð á því að aðstæður elsta og viðkvæmasta hóps landsins voru þeim sérstaklega hættulegar í faraldrinum, þegar rúmlega 9 mánuðir höfðu gefist til þess að breyta þeim? Páll: Lengi verið ljóst að gjörbylta þyrfti húsnæðiskostnaði Landspítala. Telur að það verkefni verði leyst með byggingu nýs Landspítala.
Sigrún: Auðvitað berum við stjórnendur Landspítalans ábyrgð en við berum öll ábyrgð, sem samfélag, á því að tryggja betri aðstæður fyrir viðkvæmustu hópana.
15:41
„Þetta er harmleikur“ Hugur okkur er hjá þeim sem á um sárt að binda, hjá aðstandendum þeirra sem hafa látisr, hjá sjúklingum sem hafa veikst og starfsfólki einnig, segir Páll.
15:41
Var ekki hægt að sjá þetta fyrir? Í ljósi þess að upp kom hópsýking í vor á Landakoti er eðlilegt að spyrja hvort ekki hafi verið neitt lært af því. Jú, það gerði Landspítalinn, segir Páll. Ráðist var í breytingar á húsnæði og verklagsreglum. Því miður kom það ekki í veg fyrir þessa seinni hópsýkingu. Í síðustu viku tókst að koma fyrir bráðabirgða loftræstingu á Landakoti.
15:37
Eitt dauðsfall varð í fyrri hópsýkingu á Landakoti Hópsýking kom upp í vor á Landakoti og því miður varð eitt dauðsfall, segir Páll.
15:36
Hvers vegna varð sýkingin svo stór? Skortur á mannafla og lélegt húsnæði ollu því að sýkingin varð svo stór, segir Páll Matthíasson.
15:34
Ekki hægt að koma í veg fyrir sýkinguna segir forstjóri Landspítala Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir að líklega hefði ekki verið hægt að koma í veg fyrir að smit bærist inn á Landakot. Smitið kom inn með fleiri en einum aðila og það hefur gerst fyrr á Landspítala og fleiri heilbrigðisstofnunum.
„Það var ekki hægt að koma í veg fyrir að smit myndu berast inn, því miður,“ segir Páll.
15:29
Ekki verið gerð könnun á þrifum á Landakoti frá því í júní Ekki hefur verið gerð óháð gæðakönnun á þrifum á Landakoti á þessu ári, vegna covid-19 faraldursins. Ræstingardeild Landspítala hefur ekki framkævmt stóra skoðun á gæðum þrifa þar síðan í júní. Þrif hafa verið aukin í tvisvar á dag og bætt við þrifum á snertiflötum eftir vaktaskipti klukkan fimm síðdegis. Í eldri gæðaúttektum hefur Landakot komið vel út og aldrei fengið fall einkunn.
15:16
Fyrstu tilfelli greinast 22. október Fyrstu tilfelli Covid-19 greinast 22. október á Landakoti. Grunur lék á um eitt tilfelli meðal starfsmanns þegar 12. október. Sá starfsmaður fór í skimun en greindist neikvæður. Sami starfsmaður veiktist síðar.
15:13
Þrjár veirutegundir Þrenns konar tegundir af veirunni fundust við raðgreiningu Íslenskrar erfðagreiningar á fólki sem smitaðist í hópsmitinu. Það þýðir að um marga, sjálfstæða atburði er að ræða og mörg smit berast inn á Landakot.
15:10
Líklegast að smitið hafi borist inn á Landakot eftir 16. október Flest tilfelli veirunnar sem hafa greinst eru af sama afbrigði sem er mjög algengt á Íslandi. Líklegast er að þeir sjúklingar sem fengu upphafseinkenni í byrjun, frá 21. október, hafi verið útsettir fyrir smiti frá 16.-18. október. Á sama tíma var nýgengi smita í samfélaginu mjög hátt. Þó hafa einhverjir sjúklingar af deild sem kölluð er R greinst fyrir þann tíma.
Samkvæmt smitrakningu fundust nokkur tilfelli þar sem fólk hefur getað verið útsett fyrir smiti utan Landakots á þessu tímabili og hefðu getað borið veiruna inn á Landakot. Þá eru nokkur tilfelli þar sem starfsfólk tengist smituðum fjölskyldu- eða vinaböndum, sem hefðu þá getað orðið fyrir smiti utan Landakots.
15:09
Ekki hægt að virða sóttvarnarhólf vegna manneklu Ekki var algjör hólfaskipting milli starfsmanna deilda á Landakoti, vegna manneklu. Þá er talsvert um sameiginlegan búnað sem sækja þarf og flytja milli deilda og það hafa starfsmenn gert og þar með þurft að rjúfa hólfaskiptingu.
15:07
Búið að tilkynna hópsýkinguna til landlæknis og almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra Rannsókn gengur ekki út á leita blóraböggla, segir Sigríður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala. Búið er að kynna landlækni niðurstöðurnar og einni almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Þá er búið að tilkynna hópsýkinguna til fyrrgreindra aðila beggja.
15:05
Aðstöðu starfsmanna mjög ábótavant Aðstöðu starfsmanna á Landakoti er verulega ábótavant, til að mynda eru búningsklefar þröngir og aðeins eru þrjár sturtur fyrir alla starfsmenn. Kaffistofur eru litlar og og erfitt að halda tveggja metra fjarlægðarmörkum í matmálstímum. Allt þetta er til þess fallið að auka á dreifingu smits.
Í úttekt á aðstöðu starfsfólks 14. október síðastliðinn kom fram að sökum þess að matsalur er lokaður vegna endurbóta matast starfsfólk inni á umræddum, þröngum kaffistofum. Á einni deild sátu til að mynda fjórir starfsmenn saman við lítið borð að matast, og því án gríma og fjarlægðarmörk undir tveimur metrum. Ekki var kassi með grímum tiltækur á þremur kaffistofum. Þá voru stólar á tveimur kaffistofum með áklæði sem ekki var hægt að þrífa. Ekki var aðgengi að sjúkrahússpritti eða sótthreinsiklútum fyrir starfsmenn að grípa til.
15:04
Húsnæðið ófullnægjandi með tilliti til smitvarna Lang flestar sjúkrastofur á Landakoti eru fjölbýli, þar sem eru fá klósett fyrir sjúklinga. Í versta tilfellinu eru aðeins þrjú klósett á deild þar sem eru níu tvíbýli og tvö einbýli, pláss fyrir 20 sjúklinga allt í alld. Ekki var skjóltjald milli allra rúma í fjölbýlum og ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær skjóltjöld voru sett upp, eða hvenær þau voru þrifin. Fjölmargir snertifletir eru fyrir sjúklinga aðrir, dagstofur, tækjasalur og rými fyrir hópameðferðir. Í hópmeðferðum voru sjúklingar sem þær sótt saman ekki með andlitsgrímur, en starfsmenn báru slíkar. Leiðir Lovísa Björk líkum að því að smitdreifing hafi orðið milli sjúklinga í slíkum aðstæðum, jafnvel þó að tveggja metra fjarlægð hafi verið virt, sökum lélegrar loftræstingar á Landakoti.
15:03
Kæfisvefnsvél gæti hafa dreift veirunni Kæfisvefnsvélameðferð var beitt hjá einkennalausum einstaklingi sem lá inni á deild Q, sem greindist síðar COVID-19 smitaður. Kæfisvefnsvélinni var beitt alla daga frá 12.-21. október inni á deild Q. Þekkt er að kæfisvefnsvél eykur dropaframleiðslu einstaklinga og að vélin dreifi úðaögnum frá öndunarfærum sem geta svifið í loftinu í meira en klukkustund. Á Landakoti er engin loftræsting og dregur Lovísa Björk þá ályktun að sú staðreynd hafi magnað upp smitdreifingu og aukið sýkingarhættu.
15:02
Allir sjúklingar smituðust á einni deildinni Á tímabilinu 22.-29. október greindust 98 Covid-19 tilfelli tengd hópsýkingunni á Landakoti, 52 starfsmenn og 46 sjúklingar. Um mjög hátt smithlutfall var að ræða og er það rakið til þess að gríðarlega mikil dreifing hafi verið á smitefni innan Landakots. Á einni legudeild, sem nefnd er R smituðust þannig allir sjúklingar og 52 prósent starfsmanna og á deild sem nefnd er Q 93 prósent sjúklinga og 46 prósent starfsmanna.
15:01
Talið að nokkrir einstaklingar hafi borið smitið inn á Landakot Talið er að Covid-19 smit á Landakoti hafi borist þangað inn á skömmum tíma, líklega eftir 15. október, og með nokkrum einstaklingum. Þá er einnig talið hugsanlegt að sum smit milli starfsmanna hafi átt uptök sín utan vinnustaðar, í samskiptum við fjölskyldur þeirra og vini.
Athugasemdir