Hérna er fyrst þrautin frá í gær, gott fólk. Reynið ykkur við hana ef þið eruð ekki búin að því.
En fyrri aukaspurningin er þessi:
Á myndinni hér að ofan má sjá þriggja ára gamlan pilt að nafni Richard Vuu. Hann er þarna að leika í kvikmynd, þótt hann hafi kannski gert sér litla grein fyrir því sjálfur.
Hvað hét sú kvikmynd?
***
Aðalspurningarnar tíu af öllu tagi:
1. Níu risaborgir í Kína hafa stöðu 国家中心城市, en í því felst að þær teljast „þjóðlegar miðstöðvarborgir“ og eiga að vera leiðandi í framleiðslu menningu og pólitík. Nefnið þrjár þessara borga.
2. Hvað heitir stærsta máfategund í heimi? Hún er vel þekkt við Ísland eins og víða annars staðar?
3. Ivanka, Donald, Tiffany, Barron og ... hver?
4. Í hvaða landi er höfuðborgin Bern?
5. Ein allra frægasta leikkona heimsins tryggði sér rétt á að endurgera í Bandaríkjunum kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð. Hver er sú?
6. „Eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði.“ Hver sagði þetta?
7. Í norrænni goðafræði segir af brú milli mannheima og goðaheima. Hver er þessi brú?
8. Hvað heitir leikstjóri kvikmyndarinnar Tenet?
9. Hvað er algengasta kvenmannsnafn á Íslandi nú?
10. Baltasar Kormákur er í fyrirsvari fyrir kvikmyndaver eitt mikið sem opnað var formlega á höfuðborgarsvæðinu fyrir tveim árum. Hvar nákvæmlega er það?
***
Og seinni aukaspurning:
Hvað heitir þessi jarðarávöxtur?
Þá vindum við bráðan bug að svörunum:
1. Borgirnar níu eru Beijing, Tianjin, Shanghai, Chongqing, Chengdu, Guandzhou, Wuhan, Zhengzhou og Xi'an.
Það er vissulega til nokkurs mælst að ætla fólki að þekkja mikið af kínverskum borgum en flestir eiga þó að þekkja Beijing og Shangai, og svo upp á síðkastið þá ógæfusömu borg Wuhan, þar sem covid-19 kom fyrst upp, að því er virðist. Þá má geta þess að Guangzhou er sú borg sem var lengi kunn undir nafninu Canton á Vesturlöndum, svo það er vel leyfilegt að segja Canton.
2. Svartbakur.
3. Eric. Þetta eru börn Donalds Trumps.
4. Sviss.
5. Jodie Foster.
6. Ólöf ríka Loftsdóttir. Ónauðsynlegt er að muna föðurnafn hennar.
7. Regnboginn. Athugið að ekki er verið að spyrja um nafn brúarinnar.
8. Christopher Nolan.
9. Guðrún. Nafnið hefur að vísu dalað að vinsældum hjá yngri kynslóðum foreldra, svo það er nú aðeins í um 30. sæti yfir nöfn kornungra stúlkna, en í heild halda Guðrúnar enn efsta sætinu.
10. Í Gufunesi í Reykjavík.
***
Svörin við aukaspurningunum:
Sú fyrri:
Richard Vuu lék keisarann í Kína, Pu Yi, í kvikmynd Bernardo Bertolucci, The Last Emperor, sem frumsýnd var árið 1987 og fór sannkallaða sigurför um heiminn.
Ekki veit kvikmyndasíðan Imdb.com til þess að Vuu hafi leikið neitt annað um ævina.
Neðri myndin, sem síðari aukaspurningin snýst um, sýnir sætar kartöflur.
***
Og loks er hér aftur linkur á þrautina frá í gær.
Athugasemdir