Stundin spyr mig hvað ég hafi lært á þessu ári? Stutta svarið er, ekkert.
En lengra svar þess sem lítur aftur í tímann, finnur sáran til og hefur séð sjálfan sig fæðast, gæti hljómað einhvern veginn svona, en þá þurfum við líka að fara langt aftur í tímann. Fjörutíu ár, fimm hundruð ár, ég veit það ekki.
Fyrstu fimmtán ár ævi minnar kunni ég ekki að reima skóna mína. Í hverjum einasta leikfimitíma þurfti ég sárlega á aðstoð skólabræðra minna að halda. Ég er fimmtugur, og kann ekki enn að hnýta bindishnút. Sonur minn, fimmtán ára gamall, kann það, hann kann allt, ég kann ekkert. Samt hef ég lesið margar bækur. Kannski allt of margar. En ég kann eiginlega ekkert.
Svo hvað hef ég lært á þessu ári? Og hvað get ég skrifað, rétt á meðan myrkrið felur sig, helkalt og hljótt með sínar nagandi þrautir, og undirbýr nótt, „herfjötruð veröld takmarks og tíma“. Hafi maður rétta tilfinningu, kemur rétt orð. Og allt snýst þetta jú um tíma. Tíma sem eru liðnir, tíma sem eiga eftir að líða, meðan fáeinar stjörnur tindra dauft og maður dáist að hinni eilífu nýlundu veraldarinnar.
Ef mig langaði til að slá í gegn myndi ég fara að tala um hrossamakríl. Og Namibíu. Og Samherja. Og spillingu. Og arðrán. Og Helga Seljan. Ég myndi setja slaufu og lonníettur á hrossamakríl og kjósa hann mann ársins, en hann er víst ekki maður heldur fiskur.
„Ef mig langaði til að slá í gegn myndi ég fara að tala um hrossamakríl“
En mig langar ekki til að slá í gegn. Ef mig langaði til að slá í gegn myndi ég heilsa ykkur öllum og segjast hafa fyrstur manna gengið á Öræfajökul, en mig langar ekki að slá í gegn. Ef mig langaði til að slá í gegn myndi ég tala um bestu plötur ársins, og nefna aðeins þær sem enginn þekkir. Ég myndi segjast hafa startað gosinu í Vestmannaeyjum, kveikt í Hótel Íslandi, sprengt hafmeyjuna hátt í loft upp, verið lykilmaður í Kaupþingi skömmu fyrir hrun, einmana sendisveinn í höfuðstöðvum Samherja.
En nei, ég geri það ekki. Ég segi eitthvað annað. Ég tala bara eins og einhver sem á leið um lífið, lítur aftur í tímann, og finnur sáran til. Sautján vindhörpur gætu samt ekki stöðvað mig. Búinn að læra að reima skóna mína, bindishnúturinn bíður betri tíma. Og fáeinar stjörnur tindra dauft. Og svo er baldursbrá sem beinir sjónum sínum að heiminum, með opin augu, svo lokar hún þeim, því henni líkar ekki það sem hún sér.
Svo hvað hef ég lært á þessu ári? Að minnsta kosti ekki að reima skóna mína. Ég er fyrir löngu búinn að læra það. Hnýta bindishnút? Nei, ég kann það ekki enn, og mun aldrei læra. Spyrjið nágranna mína, spyrjið son minn. Öll svör á einn veg: Maðurinn er bjargarlaus, getur bókstaflega ekkert gert einsamall og upp á eigin spýtur. Fleygið honum í ruslið.
Svo ég ráfa bara um þennan tíma, sem er árið 2019. Það gerðist svosem ekkert. Ískrandi hjól á miðri götu árla morguns. Sjatnandi vötn, titrandi tindar fjalla, vindur sem fór yfir jörðina, andardráttur nætur sem barst yfir veginn. Og já, undir bjó þá og býr enn nótt, „herfjötruð veröld takmarks og tíma“.
„Svo ég ráfa bara um þennan tíma, sem er árið 2019. Það gerðist svosem ekkert“
Það er lína sem ég skil ekki en skil samt betur en flest annað. Það er auðvitað Einar Benediktsson. Pundið. Ljóð sem fjallar kannski um það eitt að reima skóna sína. Annars ekkert.
En já, þemað, nú gleymdi ég því, spurningunni, hvað lærði ég af þessu ári? Hvað lærði ég á þessu ári? Ég var víst beðinn um þetta. Og verð að standa mig.
Þá segi ég ykkur sögu. Ég átti einu sinni skáfrænda, hann var, og er, ekki bara vel ættaður heldur líka ansi klár, og þar að auki hrókur alls fagnaðar. Þetta fer alls ekki alltaf saman, þetta með klárheitin og skemmtilegheitin. Þá sjaldan það gerist, þá er gaman.
Í einhverjum desembermánuðinum lét hann sig skyndilega hverfa úr miðju matarboði, þá hefur verið skammt til jóla trúi ég, birtist svo allt í einu, eins og lak eða dularfull gufa úr spænsku leikriti frá 17. öld, stillti sér upp í dyragætt, og sagði: Enginn er eyland. Orðunum fylgdi tilheyrandi látbragð, sem ég kann ekki að lýsa, og geri það þess vegna alls ekki. Þetta var eiginlega leiksýning, hún stóð yfir í fimm sekúndur, það var alveg nóg. Yfirleitt eru leiksýningar of langar, þessi var stutt, ekkert hlé, og hún var góð.
Auðvitað John Donne. Fimm hundruð ára gamlar ljóðlínur, engin frétt í þeim, en þetta var samt móment, þótt sennilega hafi enginn tekið eftir því nema ég. Kannski eru allar fréttir sem skipta einhverju máli í raun og veru gamlar þótt sumir kunni að halda annað, rétt á meðan þær eru sagðar. Í fréttum var þetta helst. Og svo framvegis.
Þetta hefur kannski verið árið 2003, kannski 2005, kannski 2007. Kannski 1624. Nú er árið 2019. Og ég dreg þennan lærdóm fram nú, þegar árið er senn á enda, baldursbráin hefur lokað sínu föla auga, og ég man ekki annað en tindrandi fjöll.
Enginn er eyland, setning sem birtist í riti frá árinu 1624 og bandaríski rithöfundurinn Ernest Hemingway gerði fleyg í einkunnarorðum skáldsögunnar Hverjum klukkan glymur sem kom út árið 1940. Við lifum aðeins í hliðstæðu við eitthvað annað. Allt annað er ávísun á ringulreið. Elskhuginn breytist í það sem hann elskar, og svo framvegis.
Það kemur út skáldsaga, einhver verður að lesa hana, helst tæta hana í sig. Einhver semur lag, það verður einhver að hlusta á það og helst raula það, nývaknaður, fá það á heilann, alveg óvart, samt er lagið kannski óþolandi, og þú hefur heyrt það oft áður. Þú kastar fram fyrriparti í tiltölulega góðri trú og í einhverju bölvuðu bríaríi, allt er í lagi, ástin mín, við notuðum ekki einföldustu orðin, maðurinn, það er til einskis að skilgreina jafn lasburða dýr, einhver verður að botna hann. Þú ert umtalaður skíðamaður, þá er gott að hafa fjall, og það ansi bratt. Bíllinn bilar og þá er gott að þekkja skeggjaðan bifvélavirkja, helst trúaðan. Maður veikist, og þá er eins gott að stutt sé í næsta lækni, helst Anton Tsjekhov, en hann tekur víst ekki á móti sjúklingum lengur, of seint. Einhver þarf að opna dyrnar fyrir kettinum þegar ég dey. Og svo framvegis.
Enginn er eyland. Fimm hundruð ára gömul frétt, með tilheyrandi látbragði í dyragætt, samt splúnkuný. Helst myndi maður vilja stela fortíðinni, stinga henni í vasann, og láta ljós sitt skína.
Allt fer í vitleysu þegar mennirnir haga sér eins og þeir séu eyland, einir í heiminum. Hugsa eins og þeir séu eyland, athafna sig eins og þeir séu eyland. Þetta á bæði við um einstaklinga og heilu þjóðirnar. Sagan sannar þetta. Dæmin eru úti um allt, og þeim fylgir ekkert nema ófögnuður. Ég hef ekki tíma til að nefna þau.
„Þegar mennirnir, og þá ekki síst valdamiklir menn, fara að haga sér eins og þeir séu einir í heiminum, þá er voðinn vís“
Og þau eru líka nýleg, það þarf ekki söguna til. Þegar mennirnir, og þá ekki síst valdamiklir menn, fara að haga sér eins og þeir séu einir í heiminum, þá er voðinn vís. Þá fyrst verður dagsbrúnin skaðleg. Eitthvað slæmt titrar í birtunni, og við eigum bara eina von, hún er beitt eins og hnífur, og hún dregur okkur á tálar, svo liggjum við í viðjum langrar nætur, og liggjum þar lengi.
Þá fyrst er stutt í hrossamakrílinn. Þar sagði ég það, orð ársins, hrossamakríll. Og slæ um leið óumflýjanlega í gegn, það var ekki ætlunin. Nú eða ekki. Hrossamakríll. Ekki lengur sakleysislegt orð yfir fisk með allstóran haus, stutta trjónu og lítinn kjaft, yfirmynntur og smátenntur en augun stór, eða fór ég kannski blaðsíðuvillt í fiskabókinni? Er ég kannski að lýsa marhnúti, einhverju alslappasta sköpunarverki allra tíma? Eða smálúðu? Eða gjörsamlega misheppnuðum manni? Hvers á hann að gjalda, makríllinn, þar sem hann líður í sakleysi sínu jafnvel töluvert þokkafullur eins og baldursbrá um fagurblá djúpin, umkomulaus, jafnvel dreyminn? Lítið veit hann, makríllinn, hann veit ekki neitt, það er hans gæfa.
Það er nákvæmlega hér sem fiskifræðingurinn tekur lúpulegur pokann sinn og saksóknari mætir glaðbeittur til leiks. Og þá þurfa glymjandi viðvörunarbjöllurnar að hljóma, einhver verður að hreyfa við þeim og ganga einbeittur til verks, eins og hringjari í gamalli kirkju. Og þær verða að hljóma hátt, bjöllurnar, djöfull hátt, ómur þeirra verður að berast víða.
Einhver þarf að kenna manni að reima skóna og hnýta bindishnútinn skömmu áður en ballið byrjar og órólegir flugeldar springa á bláum himni sem hefur þrátt fyrir allt verið þarna allan tímann, bíðandi þess að við vöknuðum til lífsins, lærðum loks að reima skóna okkar, og átta okkur á því hverjum klukkan glymur. Kæmum auga á okkar eigin fæðingu.
Einhver þarf að þerra tárin sem falla. Og tárin eru eins og allir vita regnvotar byssukúlur sem við beinum að veröld sem er illa úr lagi genginn, þótt stundum sé hún falleg. Einhver þarf að botna fyrripartinn, allt er í lagi, ástin mín, maðurinn, það er til einskis að skilgreina jafn lasburða dýr.
Og svo framvegis.
Einhver þarf að koma í veg fyrir að við förum okkur að voða.
Sumt tekst, annað ekki, raunar er það svo að flest mistekst. En það sem tekst, það tekst. Og það er dýrmætt.
En það breytir ekki þeirri staðreynd að enginn er eyland, ekki einu sinni kötturinn sem ég átti einu sinni en á ekki lengur. Einhver verður að opna fyrir honum dyrnar, þegar ég dey. Enginn er eyland.
Athugasemdir