Páll Skúlason, prófessor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, lést á Landspítalanum við Hringbraut 22. apríl eftir erfið veikindi. Páll fæddist 4. júní 1945 og vantaði rétt rúman mánuð til þess að ná sjötugsaldri.
Páll byggði upp heimspekideild við Háskóla Íslands ásamt þeim Þorsteini Gylfasyni og Mikael M. Karlssyni. Hann var þrívegis forseti heimspekideildarinnar og stjórnarformaður Siðfræðistofnunar. Þá var hann höfundur fjölda bóka, rita og greina, þar sem hann skrifaði um heimspeki, náttúruvernd, siðfræði og málefni háskóla. Árið 1999 var hann sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu. Árið 2006 fékk var honum einnig veitt ein æðsta heiðursorða franska ríkisins, Chevalier de la Légion d’Honneur.
„Vinir, samstarfsfólk og nemendur Páls Skúlasonar kveðja sannan háskólamann með söknuði og virðingu,“ segir í tilkynningu frá Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands.
Um gagnrýna hugsun
Ein þekktasta grein Páls, Er hægt að kenna gagnrýna hugsun? birtist á Heimspekivefnum árið 2011. Þar segir meðal annars: „Það nægir engan veginn að þjálfa menn eingöngu í rökfærslum til að kenna þeim gagnrýna hugsun. Það sem mestu skiptir er að mönnum sé kennt að leggja slíka rækt við tilfinningar sínar og vilja að þeim gleymist aldrei að hlýða kalli hinnar gagnrýnu hugsunar. Hér er það ögun viljans sem úrslitum ræður. Vilji mannsins er óendanlegur og gerir hann guði líkan, en losni viljinn úr tengslum við tilfinningar manns og skilning er voðinn vís. Þá ruglast tilfinningarnar og menn gera sér jafnvel upp tilfinningar sem þeir hafa raunverulega ekki og fella dóma um alla skapaða hluti án þess að nokkur skilningur sé fyrir hendi. Skynsemi mannsins er þegar upp er staðið ekki annað en sameining vilja, skilnings og tilfinninga. Iðkun gagnrýninnar hugsunar á að tryggja að þessi sameining eigi sér stað með heilbrigðum hætti.“
„Það sem mestu skiptir er að mönnum sé kennt að leggja slíka rækt við tilfinningar sínar og vilja að þeim gleymist aldrei að hlýða kalli hinnar gagnrýnu hugsunar.“
„Ég treysti mér ekki til þess“
Í minningu Páls birtum við nokkrar eftirminnilegar tilvitnanir í rit hans. Henry Alexander Henrysson, verkefnastjóri Siðfræðistofnunar, tók saman:
1. „Á mannamótum er því oft haldið fram að virða beri skoðanir annarra. Aldrei hef ég samt heyrt nokkurn mann færa rök fyrir þessum boðskap. Vafalaust þykir fólki það óþarft, augljóst sé hvað við er átt og engin þörf á að rökstyðja það: allir hljóti að samsinna þessu. Ég treysti mér ekki til þess.“
Siðfræði
2. „Réttlætið er ekki ávallt að fá það sem menn eiga skilið miðað við verðleika, heldur einfaldlega að fá að vera til hvað svo sem menn hafa til síns ágætis. Það réttlæti sem mestu skiptir er að njóta virðingar sem fullgildur meðlimur mannfélagsins – hvernig svo sem ástatt er fyrir manni og hverjir sem verðleikar manns, kostir, eða gallar eru“
Pælingar
3. „Sterk siðferðisvitund og brjóstvitið eitt duga oft skammt þegar greina þarf og meta flóknar félagslegar aðstæður þar sem mannlegar hvatir takast á og lífsverðmæti eru í húfi. Þá reynir verulega á það að geta skoðað aðstæðurnar undir ólíkum sjónarhornum, sett sig í spor annarra og síðast en ekki síst tekið rökstudda afstöðu: geta gert sjálfum sér og öðrum grein fyrir forsendum þeirra ákvarðana sem maður tekur.“
Pælingar II
4. „Ríkið sem stjórnarfarsstofnun samfélagsins er órjúfanlega tengt þeirri skoðun að mennirnir séu skynsamar félagsverur sem sjái hag sínum best borgið með því að skipuleggja samlíf sitt í því skyni að tryggja almannahag. Stjórnmál eru þá í eðli sínu skynsamleg viðleitni til að móta ríki sem gerir samfélaginu kleift að taka ákvarðanir um hag heildarinnar að leiðarljósi. Stjórnmál eru sameiginleg hagsmunamál, ekki hagsmunabundin valdabarátta eins og þau líta svo oft út fyrir að vera í okkar þjóðfélagi“
Ríkið og rökvísi stjórnmála
5. „Sérstaða okkar felst ekki í því að við séum annars eðlis en allt annað í ríki náttúrunnar eða að við getum lagt náttúrna undir okkur og stýrt öflum hennar, heldur í því að við getum skoðað náttúruna og breytt gagnvart henni frá hvaða sjónarhóli sem vera skal. Við getum séð hvað er til góðs fyrir aðrar lífverur en sjálf okkur og við getum gert ótal margt til að búa í haginn fyrir lífið í náttúrunni alveg óháð sjálfum okkur og sérhagsmunum okkar.“
Náttúrupælingar
6. „Ef háskólar ætla sér að leggja rækt við siðferðilegar forsendur sínar og efla hið alþjóðlega samfélag háskóla þarf að margt að gera. Brýnasta verkefnið er að fræða fólk, og þá sérstaklega starfsfólk og nemendur háskóla, skipulega um skyldur og hlutverk háskóla, hvað sjálfstæði þeirra merkir, hvaða ábyrgð felst í akademísku frelsi, hvernig rannsóknir og kennsla þurfa að tengjast, hver sé hin húmaníska hefð sem háskólarnir tilheyra og er falið að flytja áfram til komandi kynslóða.“
Háskólapælingar
Viðtöl við Pál
Hér má sjá viðtöl við Pál, annars vegar í þættinum Sunnudagskvöld með Evu Maríu árið 2008 og hins vegar í Silfri Egils árið 2009.
Hamingjan fylgidís líkt og skugginn
Þá er hægt að lesa sér til um heimspeki hans á heimasíðu sem hann hélt úti, þar sem hann birti greinar og erindi eftir sig, brot úr bókum sínum, viðtöl og aðrar vangaveltur. Þar fjallaði hann meðal annars um hamingjuna og sagði:
„Hamingjunni nær maður aldrei beint, heldur óbeint. Hún er fylgidís líkt og skugginn. Hún er hljóðlát, og fótatak hennar heyrist ekki fremur en skuggans.“ Þórarinn Björnsson, (Rætur og vængir II, bls. 266).
Er það að leita hamingjunnar eins og að eltast við skuggann af sjálfum sér? Já, ef við ímyndum okkur að hægt sé að höndla hamingjuna í eitt skipti fyrir öll. Nei, ef við viðurkennum að við höfum ekkert vald yfir hamingjunna, heldur ráðum einungis yfir sjálfum okkur.
Getum við þá ekkert gert til að vera hamingjusöm? Öðru nær: við getum verið opin fyrir hamingjunni með því að einbeita okkur að því sem gefur lífinu gildi. Og við vitum hvað það er með því að veita því eftirtekt sem glæðir lífið birtu og hlýju.
Hamingjan er í raun andstæða skuggans sem við vörpum af okkur, hún er eins og sól sem skín á okkur – sól sem við hvorki sköpum né stjórnum en getum stundum baðað okkur í geislum hennar.“
Athugasemdir