„Það fyrsta sem mér var kennt var að hlutverk mitt á vinnustaðnum væri skilgreint út frá kyni mínu,“ skrifar Þórunn Ólafsdóttir í aðsendri grein sem birtist í Austurglugganum í gær. Þar fjallar hún um skilaboðin sem hún fékk sem ung kona að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði, fermingarstúlka í frystihúsi. Strax fyrsta daginn fékk hún hins vegar það hlutverk að snyrta fisk, ekki vegna þess að hún kunni vel til verka eða hefði hæfileika á því sviði heldur vegna þess að það var kvennastarf. „Ég spurði hvers vegna, varla væri mér ætlað að snyrta þennan fisk með píkunni. Svarið sem ég fékk var að stelpur væru svo miklu vandvirkari en strákar. Ég hló, enda sennilega í fyrsta og eina skipti sem ég, með mína tíu þumalfingur, hef verið kölluð vandvirk.“
Þórunn vann í frystihúsinu um sumarið og hataði hvern dag, þar sem henni var „illt í réttlætiskenndinni“ í þessu umhverfi þar sem störfum var skipt eftir kyni og henni tjáð að svokölluð karlastörf væru sko ekki fyrir stelpur. Í dag lýsir hún þessi sem svo að vinnuumhverfið sem hún, og svo margar kynsystur hennar stigu sín fyrstu skref í hafi verið „baneitrað“.
Ekki aðeins voru störfin kynjuð, heldur máttu stúlkurnar líka þola áreiti frá verkstjóranum sem gekk oft um, segir hún og „gerði athugasemdir við líkamsvöxt stelpnanna sem unnu undir honum og spurði nærgöngulla spurninga um einkalíf þeirra. Meðal annars hvort þær væru farnar að stunda kynlíf og þá jafnvel hvernig og með hverjum. Þetta var oft svolítið eins og rússnesk rúlletta. Hverja spyr hann næst?“
Þórunn segist hafa rætt við stelpu að heiman fyrir skömmu síðan sem gerði henni ljóst að það sem hún upplifði sem ung stúlka hefði lítið breyst. „Hún lýsti því hvernig verkstjórinn hefði mætt með erlenda viðskiptavini í fiskvinnslusalinn og sagt: „Munurinn á þessu og hóruhúsi er að hérna má bara horfa, ekki snerta,“ og uppskar mikinn hlátur viðstaddra.“
Á meðan stelpurnar sátu undur slíkum athugasemdum fóru strákarnir á sjóinn, með þau skilaboð í farteskinu að þeir væru „duglegir, sterkir og mikilvægir. Við vandvirkar hórur með misgóð ráð frá verkstjóranum um það hvernig best væri að bera sig að í rúminu,“ skrifar Þórunn en pistilinn má lesa í heild sinni hér.
Athugasemdir