Jólabókaflóðið er rétt handan við hornið og í því mæðir mikið á kynningarstjórum forlaganna, sem sjá um skipulagningu á öllu sem viðkemur því að koma bókunum á framfæri. Árni Þór Árnason, kynningarstjóri Forlagsins, viðurkennir að þá þrjá mánuði sem flóðið stendur yfir eigi hann sér ekkert líf, sem væri glatað ef starfið væri ekki svona skemmtilegt, en þá fái hann útrás í að spila pönk sem hann fullyrðir að sé hreinsandi.
Fyrsta spurningin sem ég spyr Árna Þór er einfaldlega: Hvað gerir kynningarstjóri bókaforlags eiginlega?
„Í raun er þetta mjög einfalt: Ég reyni eftir besta megni að kynna bækurnar sem við gefum út fyrir almenningi og þar með vekja áhuga fólks á nýjum bókmenntum – og bókmenntum yfir höfuð ef við förum í stóru myndina. Aðferðirnar við að ná til fólks eru þó afar mismunandi, allt frá því að skipuleggja viðtöl í fjölmiðlum yfir í að framkvæma gjörninga úti á götu. Þetta er sem sagt mjög skapandi starf, mikil hugmyndavinna og oftar en ekki mikill hasar. Skemmtilegast er ef til vill að fá að vinna svona mikið með höfundunum sjálfum. Fyrir jólin þarf í miðri geðveikinni að halda þétt utan um kynningarstarfsemina og skipulagið og veita pepp og knús eftir því sem við á. Auk þess sé ég um flesta viðburði sem Forlagið heldur, heimasíðuna og samfélagsmiðlana.“
Er þetta ekki stressandi starf; dílandi við úttaugaða rithöfunda og geðstirða fjölmiðlamenn daginn út og inn?
„Tjahh. Oftar en ekki er það líka hlutverk manns að halda kúlinu og leysa málin. Man eftir sérstaklega zen momenti þegar höfundur hringdi í mig úr útvarpsþætti og ætlaði að hrekkja mig með að segja mér að hræðilegri sögu af honum sjálfum hefði verið lekið og hún væri á leið í fjölmiðla og spurði hvað hann ætti til bragðs að taka. Hrekkurinn var ónothæfur því ég brjálaðist ekki heldur leysti málið. Viðurkenni þó að þrjá mánuði á ári á ég mér ekki líf. Sem væri glatað ef þetta væri ekki svona ógeðslega gaman!“
En hvernig lentirðu í þessu starfi? Varla hefur það verið æskudraumurinn að verða kynningarstjóri bókaforlags þegar þú yrðir stór?
„Ég var heppinn. Hafði örugglega eitthvað til brunns að bera en var líka bara heppinn. Ég er útskrifaður úr bókmenntafræði og langaði, eins og örugglega flesta bókmenntafræðinga, að komast í starf hjá útgáfu. Vandinn er bara að það eru svo fáar stöður í boði og starfsaldurinn í þessum bransa alveg fáránlega hár. Þegar ég tók mastergráðu í ritstjórn og útgáfu var hluti af náminu starfsnám. Ég komst inn hjá Forlaginu og var ráðinn beint úr nemastöðunni. Hef talið mig heppinn að hafa komist inn í þennan geira síðan. Annars var æskudraumurinn að vera rokkstjarna en þann draum er ég enn að elta svona on the side.“
Athugasemdir