Uppfært: Þorgeir varð bráðkvaddur þriðjudaginn 24. nóvember síðastliðinn. Við sendum aðstandendum og vinum samúðarkveðjur.
Veistu af hverju ég spila ekki fótbolta? Af því að stráin á vellinum kitla mig í punginn.“ Þorgeir Gunnarsson, eða Toggi dvergur eins og hann vill láta kalla sig, á auðvelt með að gera grín að sjálfum sér og elskar athyglina sem hann fær.
Hann hefur fengið nóg af henni í gegnum tíðina – um tíma var hann að rappa með Erpi og reglulega kom hann fram með Óla Geir þegar hann var að skemmta fólki. Í sjónvarpsþáttum Audda og Sveppa tók hann þátt í dvergakasti og allskyns fíflalátum. Seinna birtist hann á skjánum með Steindanum okkar. Nú síðast bauðst honum hlutverk Litla Jóns í uppfærslu Þjóðleikhússins á Hróa Hetti, þótt það hafi reyndar farið öðruvísi en hann vildi. Og reglulega er hann pantaður í afmæli.
En jafnvel þótt hann elski athyglina og nýti hana sér til framdráttar – til dæmis til að ganga í augun á stelpunum á djamminu, þá er hún ekki alltaf góð. Það er ekki sama hver er með dvergagrín eða hvernig það er gert. Það er heldur ekkert gaman að láta stara á sig eða lyfta sér upp.
Það er ekki alltaf gaman að vera öðruvísi en aðrir – þótt hann myndi aldrei vilja vera annar en hann er.
Dvergagrín
„Ég er þekktur sem Toggi dvergur og vil ganga undir því nafni. Sumir halda að dvergur sé niðrandi orð, en ég vil mikið frekar nota orðið dvergur en smáfólk, eða Toggi litli.“
Þar með er ekki sagt að hver sem er megi segja hvað sem er. „Af því að ég er alltaf ótrúlega hress, elska lífið og er alltaf brosandi þá misskilur fólk það oft og heldur að ég leyfi öllum að vera með dvergagrín um mig.“
Vinir hans eiga það til að segja: „Æ, komdu hérna dvergurinn.“ Það er allt í lagi því Þorgeir veit að þeir eru ekki að meina neitt illt með þessu. „Vinir mínir nota svona orð og kalla mig dverg, en þeir vita hvar mörkin liggja og virða það. Ég hlæ með því ég veit að þeir eru að fíflast. Þeir eru ekki að meina neitt illt með þessu. Ég geri líka hellings grín að mér sjálfur. Ég má það. Þetta er ég. En ég fíla það ekki þegar ókunnugir gera það.
Ef ég er að rölta á Laugaveginum og mæti einhverjum gæja sem þekkir mig ekki neitt og kallar mig dverg þá fer það illa í mig. Mér finnst það vera diss. Þú gengur ekki að einhverjum með fatlaða hendi og segir „hey, fatli“. Ég hitti einn um daginn sem kom upp að mér og sagði: „Hey, þú ert dvergur.“ Ég var bara – í alvöru? Er ég dvergur? Eins og ég viti það ekki.“
Dónalegt að stara
Af því að hann er dvergur er ekki óalgengt að fullorðið fólk stoppi og stari á hann. „Er þér illt í augunum?“ spyr hann stundum. „Ef ég sé strák sem er fatlaður í hjólastól lít ég kannski rétt aðeins á hann. Ég stend ekki og stari á hann. Fólk glápir stundum á mig án þess að depla augum. Litlir krakkar sjá bara lítinn strák með skegg og þeim finnst það skrýtið. Það pirrar mig ekki því ég skil það. Fullorðið fólk á hins vegar að vita betur. Það er dónalegt að stara.“
Athugasemdir