„Þetta eru mjög slæmar fréttir,“ segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og formaður fyrsta faghóps rammaáætlunar, um ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Hún segir ákvörðunina auka líkurnar á því lofthiti jarðar fari yfir tvær gráður að meðaltali.
Fjöldi vísindamanna hefur varað við því að lofthiti jarðar hækki mikið meira og segja að það muni hafa skelfilegar afleiðingar fyrir allt mannkynið. Það muni meðal annars leiða til hraðari bráðnun jökla, hækkun á yfirborði sjávar, uppskerur muni bregðast og milljónir manna þurfa að flýja heimilin sín. Það muni leiða til enn meiri flóttamannastraums og auka líkurnar á stríðum og átökum um auðlindir.
„Beinu afleiðingarnar eru þær að nú er líklegra að Bandaríkin munu ekki draga úr losun eins og til stóð,“ segir Þóra Ellen. „Og þau eru svo stór, en um þriðjungur af allri losun gróðurhúsalofttegunda skrifast á Bandaríkin. Þannig það er langlíklegast að þetta leiði til þess að samdráttur á losun verði minni á næstu árum heldur en þjóðir heims höfðu lofað og hafði náðst samkomulag um í París.“
Þá segir hún ákvörðun Trumps hafa komið á afskaplega vondum tíma. „Þetta hefur verið langur ferill að opna augu alþjóðasamfélagsins og vekja þessa tilfinningu um ábyrgð hjá þjóðum og þjóðarleiðtogum. Þessi tilfinnining var greinilega ekki orðin nógu sterk á Kyoto-fundinum og heldur ekki á Kaupmannahafnar-fundinum, en hún virtist vera orðin það sterk í París að yfirgnæfandi meirihluti ríkja heims ætlar að skuldbinda sig til að draga úr losun. Þetta er mjög seint. Við erum alveg hreint á síðasta snúningi, en vonandi erum við ekki of sein. Þetta samkomulag næst, og síðan ætlar ríkasta þjóð heims að draga sig út úr samkomulaginu.“
Þjóðir heims fordæma ákvörðun Trumps
Ákvörðun Trumps hefði ekki átt að koma neinum á óvart, en útganga úr Parísarsamkomulaginu var eitt af kosningaloforðum hans. Trump sagði samkomulagið, sem var undirritað í tíð Baracks Obama fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, vera ósanngjarnt gagnvart verkafólki í Bandaríkjunum og að eitt af hans loforðum hefði verið að setja Bandaríkin í fyrsta sæti. „Ég var kjörinn fulltrúi íbúa í Pittsburgh, ekki París,“ sagði Trump meðal annars þegar hann tilkynnti ákvörðun sína í gær. „Frá og með deginum í dag munu Bandaríkin hætta öllum aðgerðum vegna Parísarsamkomulagsins og lyfta þeim hörðu fjárhagslegu og efnahagslegu byrðum sem samkomulagið setur á herðar okkar.“
Hann sagðist engu að síður ætla að reyna að gera nýjan, „sanngjarnan“ samning. „Við munum hafa hreinasta loftið. Við munum hafa hreinasta vatnið. Við verðum umhverfisvæn. En við munum ekki setja fyrirtækin okkar á hausinn. Við munum ekki glata störfunum okkar,“ sagði Trump ennfremur.
„Hann er ekkert að horfa á málið í víðara samhengi.“
Þóra Ellen segir svo virðast að helstu röksemdir Trumps fyrir því að gera þetta séu mjög þröngt skilgreindir viðskiptalegir og efnahagslegir hagsmunir Bandaríkjanna einna. „Hann er ekkert að horfa á málið í víðara samhengi og meira að segja fyrir Bandaríkin er þetta mjög þröngt skilgreint. Fyrir utan það, eins og er vitað, þá mun Parísarsamkomulagið, með sínum skuldbindingum, ekki eitt og sér draga úr losuninni innan þeirra marka að meðalhækkun lofthita á jörðinni verði undir tveimur gráðum. Það þarf að fara í strangari aðgerðir til að ná því.“
Samkvæmt heimildum Washington Post mun Ivanka Trump, dóttir forsetans og ráðgjafi, vera á meðal þeirra sem reyndu að telja Trump ofan af þessari ákvörðun. Þá hafa bæði Elon Musk, forstjóri Tesla, og Robert Iger, forstjóri Disney, tilkynnt að þeir muni segja sig úr ráðgjafateymi Trumps vegna ákvörðunarinnar.
Þjóðir heims fordæma ákvörðun Trumps
Alþjóðasamfélagið brást harkalega við í gær og fordæmdi ákvörðun hans.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu í gær, ásamt hinum forsætisráðherrum Norðurlandanna, þar sem Trump var hvattur til þess að stíga ekki þetta skref. Þá hafa kínverskir og evrópskir ráðamenn sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að þessar þjóðir taki nú við forystunni í loftslagsmálum og að þær muni eftir fremsta megni reyna að uppfylla skilyrði Parísarsamkomulagsins og þar með fylla í skarð Bandaríkjanna. Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði sömuleiðis í yfirlýsingu í gærkvöld að hann harmaði ákvörðun Trumps og sagðist vona að leiðtogar bandarískra borga, fylkja og fyrirtækja muni áfram vinna að því að draga úr útblástri gróðurhúsalofttegunda.
Fjölmargir innan Bandaríkjanna, meðal annars stórfyrirtæki, stigið fram og sagst ætla að virða samkomulagið áfram og vinna samkvæmt sínum eigin aðgerðaáætlunum. Þá hafa borgarstjórar 68 borga í Bandaríkjunum sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að þeir muni áfram vinna að markmiðum Parísarsamkomulagsins.
„Þessi ákvörðun Trumps eykur líkurnar á því að lofthitinn fari að meðaltali yfir tvær gráður.“
„Ég held að það sé mjög lítið sem alþjóðasamfélagið geti gert til þess að þrýsta á ríkisstjórn Trumps til þess að breyta þessu,“ segir Þóra Ellen. Hins vegar gæti hörð afstaða borgarstjóra Bandaríkjanna hugsanlega mildað ákvörðunina. „En á móti kemur að Trump hefur verið að tala um að styrkja kolaiðnaðinn, árið 2017, sem myndi auðvitað vinna á móti þessu.“
Þá segir hún enn óljóst hvaða óbeinu afleiðingar ákvörðun Trumps muni hafa, það er hvaða áhrif hún muni hafa á önnur ríki. Góðu fréttirnar séu hins vegar þær að það taki ríki nokkur ár að draga sig úr samkomulaginu. Fari til dæmis svo að annar forseti verði kjörinn í Bandaríkjunum eftir tæp fjögur ár verða Bandaríkin ekki búin að draga sig úr samkomulaginu að fullu þegar sá hinn sami tekur við embætti. „Hins vegar, ef Trump verður endurkjörinn og hann situr í embætti í átta ár, og heldur þessu viðhorfi út sín tvö kjörtímabil, þá er það skelfilegt.“
Eykur líkurnar á að lofthitinn fari yfir tvær gráður
Einungis tvö önnur ríki eru ekki aðilar að samkomulaginu; Níkaragva og Sýrland. Eins og kunnugt er hefur borgarastyrjöld geisað í Sýrlandi frá árinu 2011. Níkaragva undirritaði hins vegar ekki sáttmálann því þeim fannst samkomulagið ekki ganga nógu langt og ekki krefjast nógu mikillar fórnar af stóru ríkjunum.
Parísarsáttmálinn var undirritaður í París árið 2015 en samkvæmt honum skuldbinda þjóðir sig til þess að vinna markvisst að því að halda hlýnun jarðar undir tveimur gráðum. Aðildarþjóðir gera markvissar aðgerðaáætlanir í loftslagsmálum samkvæmt sáttmálanum, sem eru endurskoðaðar á fimm ára fresti, og halda nákvæmt bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda.
Markmiðin miða við það að vistkerfi heimsins þoli tveggja gráðu hlýnun, en ef hlýnunin fer upp fyrir tvær gráður erum við líklega komin í gríðarlega vond mál, segir Þóra Ellen. „Það gætu orðið mjög ófyrirsjáanlegar og hraðar breytingar á vistkerfum jarðar og algjörlega ófyrirsjáanlegar afleiðingar,“ segir hún. „Þessi ákvörðun Trumps eykur líkurnar á því að lofthitinn fari að meðaltali yfir tvær gráður.“
Athugasemdir