Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Virðulegir menn á sjötugsaldri: Nixon, Trump o.fl.

Þegar Richard Nixon Bandaríkjaforseti og menn hans urðu uppvísir að lögbrotum 1971-1974 voru 69 menn forsetans ákærðir. Þar af voru 25 settir inn, þ. á m. John Mitchell dómsmálaráðherra og tveir nánustu samstarfsmenn forsetans, John Ehrlichman og Bob Haldeman.

Lögbrotin voru innbrot svo nefndra „pípara“ forsetans á skrifstofu geðlæknis Daniels Ellsberg hagfræðings sem hafði lekið Pentagon-skjölunum til New York Times og einnig innbrot þeirra í skrifstofur Demókrataflokksins í Watergate-byggingunni í Washington auk yfirhylmingar af hálfu forsetans sjálfs svo sem segulbandsupptökur forsetans sjálfs leiddu í ljós. Nixon hrökklaðist frá 1974 áður en til þess kæmi að þingið ákærði hann og svipti hann embætti. Gerald Ford varaforseti sem tók við af Nixon veitti honum sakaruppgjöf.

Sjö af mönnum Donalds Trump forseta eru þegar komnir í steininn og hinn áttundi hefur einnig verið fundinn sekur og bíður dóms. Margt bendir til að enn eigi eftir að fjölga umtalsvert í þessum hópi enda eru um 30 opinberar rannsóknir á meintum glæpum Trumps og manna hans í gangi. Við bætist að þar til gerð eftirlitsstofnun ríkisins, General Accountability Office, hefur lýst glæp á hendur forsetanum.

Bandaríkin eru réttarríki. Það þýðir að þegar forsetinn og menn hans verða uppvísir að glæpum er þeim ekki sópað undir teppi heldur gera fjölmiðlar, réttarkerfið og stjórnarandstaðan það sem í þeirra valdi stendur til að lögbrjótarnir séu látnir sæta ábyrgð.

Í þessu ljósi þarf að skoða frásögn Benedikts Jóhannessonar fv. fjármálaráðherra:

„Fyrir réttri viku var ég í samkvæmi með hópi virðulegra manna á sjötugsaldri. Það kom mér á óvart að í þessum hópi var brosað að ummælum ráðherrans [um Samherjamálið þess efnis „að Namibía hafi kallað yfir sig ósköpin með veiku og spilltu stjórnkerfi“]. Jafnframt [var] greinilegt að flestir viðmælendanna voru sannfærðir um að á Íslandi yrði ekkert frekar gert með málið. Það yrði þagað í hel ... hefðbundnir íslenskir stjórnmálamenn hafa langa reynslu af því að sveipa erfið mál þagnarhjúpi ... Þöggun er virkt stjórntæki þeirra sem vilja verja sérréttindi.“

Í Bandaríkjunum eru glæpir yfirleitt ekki þagaðir í hel, ekki lengur. Það er liðin tíð, að vísu með vandræðalegum nýlegum undantekningum eins og þeirri að enginn heldri bankamaður bandarískur þurfti að sæta ábyrgð að lögum eftir bankakreppuna sem hófst 2007-2008 enda þótt fyrir lægi af hálfu alríkislögreglunnar FBI að lögbrot voru framin í öllum helztu fjármálastofnunum landsins. Nokkrir smáfiskar voru teknir en enginn stórlax.

Repúblikanarnir sem mynda meiri hluta í öldungadeild Bandaríkjaþings kysu helzt að þaga glæpi forsetans í hel. En bandarískt stjórnarfar lætur það ekki eftir þeim. Demókratar sem hafa meiri hluta í fulltrúadeild þingsins hafa nú ákært forsetann en slíkt hefur aðeins tvisvar gerzt áður, 1868 og 1998.

Ef repúblikanarnir í öldungadeildinni sýkna forsetann þótt sekt hans blasi við skv. fyrirliggjandi vitnisburðum margra manna og ýmsum gögnum mun þingið og einnig landið bíða alvarlegan álitshnekki umfram þann skaða sem orðinn er. En það mega Bandaríkjamenn þó eiga að fjölmiðlarnir, réttarkerfið og stjórnarandstaðan kosta kapps um að afhjúpa glæpafárið í kringum forsetann langt aftur í tímann og draga hann og menn hans til ábyrgðar.

Þar er glæpafárið ekki „þagað í hel“.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Loka auglýsingu