Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Frekari fróðleikur um faraldurinn

Kórónuveiran æðir áfram úti í heimi en ekki lengur hér heima. Héðan virðist hún vera svo að segja horfin en þó kannski ekki alveg því um 800 manns eru enn í sóttkví. Veiran hefur einnig dregið úr umsvifum sínum í Evrópu og sums staðar í Bandaríkjunum. Þess vegna eru menn þar nú teknir að fikra sig áfram í átt að opnari landamærum og mildari varúðarráðstöfunum varðandi félagslíf og þess háttar.

Rösklega sjö milljónir smita hafa verið greind og skráð. Það gerir næstum einn af hverjum þúsund íbúum jarðar. Sumir sóttvarnafræðingar telja að meira en helmingur jarðarbúa kunni að eiga eftir að smitast af kórónuveirunni áður en lýkur. Vandinn er því fráleitt úr sögunni. Dauðsföll af völdum veirunnar eru nú orðin 409.000 sem gerir tæp 6% skráðra smita, en dánartíðnin er í reyndinni mun lægri en þetta þar eð mörg smit hafa hvorki verið greind né skráð.

Fari svo að meira en helmingur jarðarbúa eigi eftir að sýkjast, bóluefni finnist ekki í tæka tíð og 2% sýktra týni lífinu af völdum veirunnar, þá gæti fjöldi dauðsfalla á heimsvísu farið upp fyrir 150 milljónir manns, sem er allt að þrisvar sinnum fleira fólk en dó í spænsku veikinni 1918-1919 þar sem mannfallið er talið hafa verið á bilinu 50-100 milljónir.

Flest dauðsföllin, 113.000, hafa það sem af er átt sér stað í Bandaríkjunum þar sem fjöldi skráðra smita er nú kominn upp fyrir tvær milljónir. Trump forseti gerði lítið úr vandanum í byrjun svo að dýrmætur tími tapaðist framan af. Ábyrgð hans er þung. Nú hefur smitum og dauðsföllum fækkað í New York, New Jersey, Kaliforníu og Illinois, þar sem vandinn var mestur fyrir nokkrum vikum, en lítið lát er á faraldrinum í Flórída, Texas og víðar þar sem enduropnun ásamt mildari varúðarráðstöfunum virðist hafa fjölgað smitum aftur líkt og gerzt hefur í Suður-Kóreu þar sem sóttvarnalæknar búa sig undir aðra bylgju.

Könnun New York Times á viðhorfum rösklega 500 sóttvarnasérfræðinga í Bandaríkjunum leiðir í ljós að flestir þeirra segjast munu fara í klippingu í sumar eða til læknis ef með þarf. En flestir þeirra segjast einnig munu bíða í þrjá mánuði eða allt að ári eða lengur með að sækja kvöldverðarboð, senda börn í skóla, vinna með öðrum á skrifstofu, heimsækja gamalt fólk, taka strætisvagn, fljúga eða snæða á veitingahúsi. Flestir segjast ætla að bíða lengur en eitt ár áður en þeir sækja brúðkaup, kirkju, kappleik eða leikhús. Slík varúð á þó ekki við hér heima þar sem veiran er að heita má horfin af vettvangi. Þeim mun mikilvægara er að haga opnun landsins svo varlega að veiran geri ekki vart við sig aftur.

Nú er það komið í ljós sem sjá mátti fyrir að veiran æðir áfram í öðrum heimshlutum þar sem vörnum verður síður við komið en í Evrópu og Norður-Ameríku. Brasilía hefur orðið sérlega illa úti, meðal annars vegna þess að Bolsonaro forseti landsins er sömu ættar og Trump Bandaríkjaforseti og gerði allar sömu villurnar lengi framan af. Fjöldi skráðra smita í Brasilíu er kominn upp fyrir 700.000 og fjöldi dauðsfalla upp undir 40.000; forsetinn hefur fyrirskipað að tölunum verði eftirleiðis haldið leyndum. Smitum fjölgar einnig hratt í Indlandi, Mexíkó, Perú, Rússlandi og víðar.

Japan hefur sloppið vel með sínar 126 milljónir íbúa. Skráð smit eru 17.000 og dauðsföll rösklega 900. Sumir telja að auk venjulegra skýringa – öflugrar smitrakningar, sóttkvía, handþvottar og þess háttar – hafi Japanar notið góðs af því hversu vanir þeir eru því að skella á sig grímum til að verjast loftmengun. Kannski grímurnar skipti meira máli en margir halda, segja margir Japanar nú. Við bætist að Japanar eru einnig vanir sóttkvíum. Eins og hendi væri veifað gerðu japönsk stjórnvöld fyrir mörgum árum eiturlyfjapláguna brottræka úr stórborgum landsins með því að skilgreina eiturlyfjafíkn í lögum sem smitsjúkdóm og setja fíkla í sóttkví í krafti laganna. Vegfarendur ganga óhultir um japanskar borgir á öllum tímum sólarhrings.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.