Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Við erum í djúpum skít- önnur umferð

Við erum í djúpum skít- önnur umferð

Í seinustu Stund skrifaði ég fréttaskýringu um uppgang öfga-hægrimanna í Frakklandi og rak sögu þess hvernig Front National færðist frá því að vera fámenn hreyfing sérvitringa sem vildu hvítþvo samstarfsaðila nasista, dreymdu um Frakkland laust við múslima og gyðinga, og að endurheimta nýlenduveldið, yfir í að vera pólitísk og popúlísk fjöldahreyfing. Svo er þetta blogg frá fyrri umferð.

Evrópa er á krossgötum. Þar sem ekki sprettur upp vinstrisinnuð popúlísk hreyfing á borð við Podemos eða Syriza grípa önnur öfl óánægjufylgið sem skapast hefur í efnahagshruninu. Eða stóru evrópsku efnahagsstöðnuninni, ætti kannski öllu heldur að kalla það, því vandamálið hefst ekki endilega í bankahruninu 2008. Front National gengur vel þar sem atvinnuleysi hefur verið hátt, og verið hátt mjög lengi. Sömu sögu má segja um Sverige-demokraterne og Ukip flokkinn í Bretlandi. Hver veit nema ástæða þess að Þjóðverjar sleppi við öfgar í meiri mæli en aðrir sé ekki sú að þýska þjóðin hafi umbreytt hugsunarhætti sínum og orðræðuhefð eftir seinni heimsstyrjöld, heldur einfaldlega sú að millistéttin er öruggari um sig og ekki í sömu krísu og t.d. í Frakklandi.

Árið 2002 komst Jean Marie Le Pen í seinni umferð frönsku forsetakosninganna. Það var sjokk, en í raun var ekki nein áhætta á ferð. Maðurinn var ekki að fara að vinna forsetakosningar með 16% fylgi og þegar sósíalistar og vinstri menn flykktu sér um hægri manninn Chirac, vann hann með yfirburðum. 80% á móti tæpum 17.

Sagan endurtók sig núna Sunnudaginn síðastliðinn. Marine Le Pen dóttir forsetaframbjóðandans fór fram og náði 45% atkvæða í fyrri umferð í héraði sínu Picardie. Front National var víða stærsti flokkur Frakklands, og utan Parísar og Bretagneskaga þar sem flokkur forsetans Hollande er sterkur, var hann yfirleitt í 30 prósentum eða meira. En FN vann ekki meirihluta í neinu fylki í seinni umferðinni því þá sameinuðust kjósendur sósíalista um að kjósa hófsamari hægrimenn og öfugt. Niðurstaðan var sú að hefðbundnu flokkarnir héldu sínu, en FN sat í minnihluta með þriðjung fylgis. Margir klöppuðu sér á bakið.

Þessi niðurstaða fellur vel að narratívi Le Pen. Hún er ekki hluti af „elítunni“ ekki einn af „stofnanapólitíkusunum“ sem allir eru eins og standa saman gegn henni og alþýðunni sem hún talar fyrir. Sú staðreynd að hægriflokkarnir og vinstri flokkarnir sameinist þýðir í huga stuðningsmanna FN að sami rassinn sé undir þeim öllum. Og það er hluti af þeirri formúlu sem tryggði FN þetta stóra hlutfall atkvæða.

Þetta er orðræðan sem er lykillinn að velgengni mismunandi popúlískra frambjóðenda á hægri vængnum. Donald Trump í Bandaríkjunum, Nigel Farage í Bretlandi, Svíþjóðardemókratarnir í Svíþjóð. Þessir aðilar hagnast á því þegar gömlu flokkarnir standa saman um að halda þeim frá áhrifum. En hvað annað er í stöðunni? Það virðist mun verra hleypa þeim áfram ekki satt?

Gömlu flokkarnir verða að fara í róttæka endurskoðun. En það er ólíklegt því upplifun kjósenda á þeim er ekki alveg röng. Þetta eru nefnilega sömu klíkurnar úr sömu háskólunum sem koma saman í efri lögum flokkanna. Vinstri flokkarnir tala ekki lengur til atvinnulausra verkamanna í Picardie, heldur til háskólamenntaðra Parísarbúa. Því þeir veita ekki það sama og FN, einhvers konar sjálfsmynd og sterka tilfinningu um að maður tilheyri hreyfingu.

Og að lokum smá tölfræði. Þessi grein hérna inn á voxeu.org nær ágætlega yfir vandamálið sem felst í atvinnuleysi og efnahagslægð. (Ekki skammtíma-atvinnuleysi, öfgahreyfingar afla sér ekki fylgis á örfáum dögum eða mánuðum ... heldur langtíma).

„This pattern is visible in the data both before and after WWII and is robust when controlling for economic conditions and different voting systems. The gains of extreme right-wing parties were particularly pronounced after the global crises of the 1920s/1930s and after 2008. However, we also find similar patterns after regional financial crises, such as the Scandinavian banking crises of the early 1990s. Moreover, we identify an important asymmetry in the political response to crises – on average, the far left did not profit equally from episodes of financial instability.

Það sem rannsóknir Manuel Funke, Moritz Schularick og Christoph Trebesch draga fram er að í kosningum rétt eftir upphaf efnahagskrísu vinna öfgaflokkar ekkert sérstaklega á. Munurinn verður hins vegar gífurlegur þegar við skoðum ástandið fimm árum eftir að krísan hefst. Með öðrum orðum þá tekur öfgavæðing tíma, fólk í fyrstu treystir á gömlu flokkana til að leysa málin áður en það leitar annað. Og þá leitar það yfirleitt til þeirra sem undirstrika þjóðarsamstöðu og benda á þægilegan sökudólg í málinu, óljósa stjórnmálaelítu og skýran minnihlutahóp.

„Let me add, however, that it’s not just a matter of times being bad. It’s also important to realize the way in which traditional sources of authority have devalued themselves through repeated policy failure. Europe, much more than the U.S., is run by Very Serious People, who tell the public that it must accept Schengen, austerity, and regulatory harmonization (the eurosausage!), and that these are the right things to do because those who understand how the world works say so. But if things keep going badly, this authority based on the presumption of expertise erodes, and politicians who offer more visceral answers gain support.“
Skrifar Paul Krugman á bloggi sínu.

Með öðrum orðum með því að ítrekað fylgja stefnu sem virðist ekki bera neinn árangur eða bæta stöðuna hefur hin „svokallaða“ elíta, þ.e.a.s. háskólamenntaðir pólitíkusar, embættismenn og ráðgjafar grafið undan sér. Við sjáum það á því hvernig mismunandi hliðar þrjóskast að við að sprengja Sýrland ítrekað þrátt fyrir lítinn sem engan árangur, við sjáum það í því hvernig „austerity“ er framfylgt og dregið úr eyðslu á krepputímum þrátt fyrir fyrirsjáanleg efnahagsleg vandræði.

Donald Trump er sennilega skýrasta dæmið um hvernig öfgahægrið nær til þeirra þjóðfélagshópa sem orðið hafa illa út í nýja hagkerfinu. Maðurinn sem nú er með nánast 40% fylgi á meðal Repúblikana á landvísu byrjaði á því að tala um hvernig Kína og Mexíkó eru að stela störfum. Og það eru skilaboð sem falla í kramið hjá fólki sem eitt sinn tilheyrði millistétt af því það vann í verksmiðju, en er núna dottið niður í lágstétt og sinnir þjónustustörfum ef það hefur starf yfirhöfuð.

Hvert land fyrir sig hefur sína sögu að segja sem er ólík og samt eins. Margir þeirra sem styðja UKIP í Bretlandi eru gamlir kjósendur verkamannaflokksins frá þeim tíma þegar verksmiðjur og kolanámur menguðu loft Bretlandseyja, margir af þeim sem styðja FN í Frakklandi kusu áður fyrri kommúnista og verkalýðshreyfinguna því það var hluti af þeirra sjálfsmynd sem verkafólk, í Svíþjóð má kannski segja svipaða sögu, þar gekk Svíþjóðardemókrötunum best á svæðum þar sem atvinnuleysi var hátt. (Aftonbladet).

Leiðin til sigurs á öfgaflokkum á borð við FN og Svíþjóðardemókratana felst sennilega ekki í nýjum slagorðum, eða betri útskýringu á því hvernig fjölmenningarsamfélagið sé betra fyrir alla. Auðvitað skaðar ekki að mæti hatri með ást, en vilji stjórnmálaelítur Evrópu koma í veg fyrir öfgavæðingu kjósendanna þarf að endurhugsa hvernig barist er gegn langtímaatvinnuleysi. Eru borgaralaun kannski málið? Er einhvern veginn hægt að breyta gildismati okkar þannig að með því að missa vinnuna missi fólk ekki sjálfstraust sitt og samfélagsstöðu? Því þótt að ný iðnvæðing í Evrópu myndi eflaust draga tennurnar úr hægri-öfgaflokkunum þá er það ekki boði. Og nýja hagkerfið þarf sennilega ekki allt það vinnuafl sem er í boði.

Ef við finnum ekki lausn á þessum vandamálum innan Evrópu þá erum við því miður sennilega í djúpum skít. Og fylgi FN mun líkast til ekki lækka á næstu mánuðum og árum, það munar ekki nema einu efnahagsáfalli eða einni hryðjuverkaárás á milli Marine Le Pen og forsetastólsins.

P.S.
Endum þetta á jákvæðum nótum. Er kannski hægt að hugsa sér aðra stefnu í efnahagsmálum en niðurskurðarstefnuna?

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni