Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Við erum í djúpum skít- fyrsta umferð

Við erum í djúpum skít- fyrsta umferð

Við erum í djúpum skít, sagði einn franskur góðvinur minn stuttu eftir hryðjuverkaárásirnar 13 nóvember. Og það eru orð að sönnu. Vofa fasismans svífur nú yfir Evrópu. Hugmyndafræðilegir arftakar Vichy-stjórnarinnar hafa unnið fyrri umferð fylkiskosninga í Frakklandi.

Fyrst tvö atriði til að hafa í huga:

Þótt að kjósendur Front National séu með hugann við hryðjuverkaógn, hátt atvinnuleysi, baráttu gegn ESB og innflytjendum, þá veita regional-kosningar í Frakklandi þeim litla möguleika á breytingum. FN verður sennilega í stöðu til að breyta einhverju varðandi héraðsbundna menningarstyrki og áætlunum strætó-samgangna, en þeir verða ekki með ráðuneyti eða þingmenn. Dauðarefsingar verða ekki komnar aftur á í næstu viku, né mun Frakkland ganga úr Schengen, og Hollande verður enn forseti líka.
Í bili.

49,5% kjósenda sátu heima. Já. Svona hátt hlutfall. En ég get skilið kjósendur vel, kosningar fara alltaf fram í tveimur umferðum og það er sú seinni sem gildir. Í þeim héröðum þar sem frambjóðandi náði ekki yfir 50% atkvæða er kosið aftur milli tveggja valkosta. Þetta hefur þau áhrif að sósíalistar draga sig í hlé sumstaðar svo að mið-hægrimenn eigi betri möguleika gegn FN. Hægrið endurgeldur þó ekki greiðann og þrjóskast við framboð sumstaðar þar sem frambjóðendur þess lentu í þriðja sæti.

 

En þá að slæmu fréttunum. Þetta er stór táknrænn sigur fyrir Le Pen. Hún er núna leiðtogi stærsta flokks Frakklands, eða þess flokks sem hlaut flest atkvæði í seinustu kosningunum. Flokkur hennar er sérstaklega sterkur í norðrinu, Normandý, Picardie, Champagne og Alsace. Atvinnuleysi í þessum héröðum er gríðarlega hátt, og það er fylgni þarna á milli. Í þeim héröðum í suðri þar sem atvinnuleysi er einnig hátt gengur FN líka vel. Frakkland hefur lengi verið að berjast við hátt atvinnuleysi en meðal ungs fólks er staðan sérstaklega slæm og í sumum úthverfum Parísar nálgast atvinnuleysi í þeim aldursflokki 45%. 

Þessi staða er ekki alveg ný þótt hún hafi farið versnandi. En núna í fyrsta sinn virðist ungt fólk vera byrjað að halla sér að FN. Skoðanakannanir sýna að FN er í fyrsta sinn orðinn stærsti flokkurinn á meðal ungs fólks, og það ætti kannski að valda meiri áhyggjum en niðurstöður fyrstu umferðar fylkiskosninga. Í viðtali við franska dagblaðið Liberation útskýrir Nicolas Lebourg sagnfræðingur og sérfræðingur í pólitískum öfgahreyfingum hvað hann telji valda auknum árangri öfgahægrisins:

„Front National hefur tekist að umbreyta sér með mjög skýrri línu, með áherslu á franska sjálfsmynd, innflytjendur og öryggi. Þetta eru málefni sem tala til fólks. Síðan olíukrísan hófst 1973 hafa vesturlandabúar byrjað að skilja að heimurinn væri ekki bara vesturlönd og byrjað að óttast „austrið“. Sumir hafa áhyggjur af austurlandavæðingu heimsins. Það snertir við fólki því bensínið er ekki lengur þeirra, fötin koma ekki frá þeim ... sem viðbragð við þessu býður FN röð og reglu, þjóðina, öryggi, vernd. Og greinilega virkar það. Áhyggjur yfir hryðjuverkum hafa aldrei verið jafnsterkar og eftir árásirnar 7 Janúar. (innskot: Charlie Hebdo), þetta er raunverulegur ótti. Þjóðernishyggjan byggir á tveimur hliðum; „þeir, hinir“ sem stendur fyrir Araba/Múslima, og síðan; „við“ sem þarf að varðveita. FN hefur því í raun ekki lengur það sem við köllum hatursorðræðu héðan af, heldur talar fyrir samstöðu. Að kjósa öfgahægrið táknar í hugum kjósenda umbreytingu eða von.“
 

Spurður um hvort að með þessu séu kjósendur að hafna pólitíkinni svarar hann:

„Nei, þvert á móti, þetta dregur fólk á kjörstað til að kjósa með eða á móti. Frekar en að hafa ímugust á pólitíkinni er þetta endurvakning. Og öfgahægrið er orðin eitt af seinustu tækjunum fyrir félagslegri þátttöku í stjórnkerfinu. Þetta er orðið tæki til að endurúthluta stöðum innan stjórnkerfisins. Þegar PS (innskot: sósíaldemokrata-flokkurinn sem núverandi forseti tilheyrir) er einokaður af CSP+ og þeim sem hafa diplómur, þá er FN leiðin fyrir millistétt og lægri stéttir til að komast í kjörin sæti. Frambjóðendurnir líkjast venjulegu fólki, kjósendum. FN er ekki með neina skýra línu um hvað þeir ætla að gera, en með mjög skýra heimsmynd: skapa aftur sterk samfélagsleg tengsl milli Frakka og öfluga þjóðernisást.

Frönsku útgáfuna af viðtalinu getið þið nálgast hér.

Lebourg er ekki stuðningsmaður FN þótt þessi lýsing á flokkinum hljómi ekki svo óaðlaðandi. Hann hefur rannsakað hið fasíska hægri lengi og séð umbreytingu á flokki sem var einu sinni fámenn samtök þeirra sem horfðu nostalgískum augum til Vichy-stjórnarinnar og hernáms nasista í heimsstyrjöldinni. Það var fyrir árið 1974 þegar faðir Marine Le Pen núverandi leiðtoga FN, Jean-Marie tók yfir flokkinn og umbreytti honum.

Hvað hefur farið úrskeiðis í Frakklandi? Í fyrsta lagi hafa alltaf verið undirliggjandi vandamál frá því nýlenduveldið hrundi og sjálfsmyndin með. Það eru félagsleg vandamál af gömlu uppruna í úthverfum Parísar, en í sveitum Frakklands þar sem áður var öflugur iðnaður er núna hátt atvinnuleysi. Var ekki bara spurning um tíma hvenær það myndi leiða til kosningasigurs fyrir einhvern fasistaflokk, líkt og gerðist á þriðja áratug tuttugustu aldar í annarri kreppu?

Elítuhyggja franskra stjórnmála er án vafa líka hluti vandans. Meginrót vandans mögulega. Flestir stjórnmálamenn í Frakklandi koma úr sömu háskólum og sömu deildum. Vinstri eða hægri, þeir hljóma eins og vilja svipaða hluti. Það er ekki svo ólíkt Íslandi og mörgum öðrum löndum, en þar til hrunið kom hefði ég talið ómögulegt að verða forsætisráðherra Íslands án þess að hafa leitt nemendafélag í MR. Marine Le Pen hefur nýtt sér þreytu á pólitískri stéttaskiptingu sér í hag.

 

Gömul tákn tala enn sterkt til fólks

Eftir hryðjuverkaárásirnar voru félagsmiðlar og götur Parísar yfirfullar af þjóðarfánum og slagorðum eins og #prayforParis. Það varð til þess að vinur minn sagði orðin sem ég vitnaði í fyrir ofan:

„Við erum í djúpum skít, Snæbjörn. Það eiga sér stað hörmulegir atburðir og það eina sem okkur dettur í hug til að bregðast við er að leita í trúarbrögð og gamla þjóðernishyggju.“

Kannski er vandamálið að engum hefur tekist að markaðssetja ást á mannkyninu rétt. Það eru engar líkur á því að gömlu flokkarnir endurnýi sig virðist vera. UMP endurskírir sig Repúblikana, og þótt að Sarkozy hafi reynt að umbreyta gömlu Gaullistunum í nýfrjálshyggjumenn á milli þess sem hann elti FN til hægri, þá talar sá flokkur ekki til fólks. Sama gildir um PS, en sósíalistarnir eru núna í fyrsta sinn byrjaðir að apa upp orðræðu FN. Samstaða þessara tveggja flokka gegn FN mun líkast til bara staðfesta í hugum kjósenda að elítismann, stjórnmálastéttina, samflokkstrygginguna. (Fjórflokkinn eins og það heitir á íslensku). Við þurfum ekki að líta annað en til Svíþjóðar til að sjá hvaða áhrif það hefur þegar hægriflokkar og vinstriflokkar slá skjaldborg gegn fasistunum. Ef það lítur út eins og skjaldborg í kringum kerfið og stétt atvinnustjórnmálamanna mun það bara fjarlægja þá kjósendum enn meir. 

 En svo mikið er víst, markaðssetningarformúlan sem Le Pen feðginin hafa skapað fyrir gömlu þjóðernishyggjunni, er að svínvirka.

 

 

P.S.

Sjá niðurstöðu fyrri umferðar hér. FN er dökkblátt, Sósíalistar bleikir, hefðbundnu hægriflokkarnir ljósbláir. (Höfum líka í huga að sögulega séð hafa fylkiskosningar aldrei gengið vel fyrir vinstri menn með örfáum undantekningum síðastliðin ár, sveitirnar frönsku eru frekar íhaldsamar).

Hugtök:
PS: Parti socialiste
CSP+ : frekar loðið markaðsfræða-hugtak sem vísar til hálaunastétta.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni