Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Svívirðileg frekja SFS

Kröfur SFS (gamla LÍÚ) eru ótrúlegar. En samt hvers vegna ekki? Ef maður hefur fengið auðlindina frítt og getur fengið veiðigjöld felld niður með því að kaupa dagblað og stjórnmálamenn, og síðan tekið allan arðinn og falið hann á Bahama eða bresku Jómfrúareyjunum ...

Hví ekki að ganga aðeins lengra?

Hví ekki á sama tíma og útgerðir skila hagnaði að krefjast kjaraskerðinga á sjómenn? Æ, þið vitið, fólkið sem sér ekki fjölskyldu sína dögum og vikum saman út á sjó, tekur verulegar áhættur í vinnu sinni og þarf að þola alls kyns veður.

Hvers vegna ætti útgerðin að taka mið af því að sjómenn séu á almennt betri kjörum í Noregi eða Færeyjum þar sem útgerðir greiða sanngjarnan skerf til samfélagsins?

Ekki eins og neinn sé að velta vöngum yfir því að fiskverkunarfólk sé á helmingi hærra kaupi í Færeyjum.

SFS vill að sjómenn niðurgreiði veiðigjöldin. Að sjómenn taki meira af olíukostnaðinum á sig. Nú þegar er það þannig að lítill línubátur getur verið að greiða eigandanum meira fyrir eldsneytið heldur en raun-kostnaður er. 

SFS vill fella niður ákvæði um helgarfrí. Svo á líka að stytta jóla og páskafrí. Reyndu bara að selja venjulegu starfsfólki í öðrum stéttum svoleiðis hugmyndir.

SFS vill að sjómenn landi fisknum sjálfir. En ætlar ekki að bæta kjör þeirra þótt þeir taki á sig meiri vinnu.

SFS vill afnema sektarákvæði fyrir brot á kjarasamningum þannig að þau ætla sér greinilega ekki einu sinni að standa við þennan samning.

Það má telja margt meira upp. En SFS virðist haldið einhverjum grundvallarmisskilningi um stöðu vinnuveitenda gagnvart launþegum.

Starfsfólkið á ekki að greiða fyrirtækinu laun fyrir að ráða sig í vinnu. Það eru fyrirtækin sem greiða starfsfólki laun, og þegar fyrirtæki hagnast er eðlilegt að starfsfólkið njóti góðs af því.

Þess vegna styð ég sjómenn 100%.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni