Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Öreigarnir- hinir eignarfallslausu

Öreigarnir- hinir eignarfallslausu

Öreigarnir

 

Það er snúið að þýða titil Ursulu Le Guin: „the dispossessed“ yfir á ásættanlega íslensku. Titillinn vísar nefnilega ekki einungis í skortinn á fjármagni eða eigum, heldur líka eignarfalli. Hinir eignarfallslausu gæti allt eins verið jafn nákvæm þýðing, því tungumál aðalsöguhetjunnar Shevek, Odonískan, er eignarfallslaus. Íbúar tunglsins Anarres eiga ekki hluti þeir deila þeim. Með öðrum orðum myndi hinn dæmigerði Anarres-búi ekki segja að tölvan sem ég skrifa þetta blogg sé tölvan mín heldur tölvan sem ég nota. Tvöhundruð árum áður en atburðir skáldsögunnar hefjast flýja fylgismenn Odo kapítalísk samfélög Urras og stofna nokkurs konar anarkíska útópíu, algerlega lausa við yfirvald og eignarrétt, með fullkomnu kynjajafnrétti, þar sem börn alast upp í stórri kommúnu og læra að deila. Tungumálið er ekki síst mikilvæg leið til þess að brjóta niður yfirvaldið og skapa frjálst samfélag, Odonískan notar ekki eignarfallið, ekki titla, ekki híerarkíu. Íbúar Anarres eru ekki bara án yfirvalds, þeim skortir orðin til að ímynda sér það.

 

Í góðri vísindasögu eða fantasíu er baksagan og heimsmyndin í góðu jafnvægi við framvinduna sjálfa. Tungumál líkt og Odonískuna er ekki hægt að slengja fram í einni málsgrein heldur er eitthvað sem lesandinn áttar sig á með því að fylgjast með samskiptum Shevek við aðra. Við þurfum ekki að uppgötva allt sem frábrugðið er okkar heimi, og alls ekki allt í einu, heldur síast mikilvægustu atriðin smám saman inn í gegnum söguþráðinn. Öreigarnir fjalla ekki síst af öllu um baráttu hugmynda og því er hugmyndafræðileg saga plánetunnar Urras og tunglsins Anarres gífurlega mikilvæg, en hún er ekki mikilvægari en þroskaferill Sheveks. Sagan hefst á því að vísindamaðurinn yfirgefur heimaplánetu sína (eða öllu heldur heimatungl) á máta sem íbúar Anarres sjá sem eigingjarnan. Hann er stærðfræðingur og er að rannsaka eðli tímans, nokkuð sem hefur ekki praktískt notagildi fyrir fámenna tunglnýlenduna. Á Anarres er Shevek að reyna á þolinmæði samfélagsins, enginn vill beinlínis banna honum að stunda rannsóknir og í þeim litlu borgum sem eru á tunglinu eru vísar að háskólasamfélagi, en á sama tíma er gífurleg pressa á alla meðlimi samfélagsins að hjálpa hvor öðrum. Shevek tekur að sér erfiðisvinnu milli þess sem hann sinnir hugsjón sinni, en er hægt að réttlæta að á meðan aðrir strita sé hann að sinna hugðarefnum sínum? Nýlendan er oft á barmi hungursneyðar því þó Odóarnir hafi náð að umbreyta jarðveginum og skapa skóga er tunglið langt frá því að henta jafn vel mannabyggð og hin náttúrulega græna pláneta Urras, þar sem manneskjur eru upprunnar. Að lokum yfirgefur Shevek bræður sína og systur og flytur til Urras þar sem verkaskiptingin er skýrari og híerarkían leyfir forréttindi.

 

Á plánetunni Urras takast á tvö samfélög og tvær hugmyndafræðir. Það er hið kapítalíska feðraveldi A-io sem tekur á móti Shevek opnum örmum annars vegar og hið sovét-kommúníska Thu sem reynir að freista Sheveks eða að minnsta kosti höfða til þeirra hugsjóna sem hann ólst upp við og biðja hann um að deila rannsóknum sínum. Vísindamenn beggja samfélaga hafa nefnilega trú á því að í útreikningum Sheveks leynist lykillinn að geimskipaferðalögum milli sólkerfa, og það skiptir höfuðmáli í því hitnandi kalda stríði sem á sér stað á plánetunni Urras.

 

Það er freistandi að lesa söguna út frá pólitískri heimsmynd sjötta áratugarins. Ursula er sjálf yfirlýstur anarkisti og samfélagið á Anarres byggir mjög skýrt á þeirri hugmyndafræði. Anarres er alls ekki slæmt samfélag þótt það sé engin útópía. Þurfi maður aðstoð þá fær maður hana. Enginn er þvingaður til neins en allir hafa alist upp við að eðlilegt sé að maður gefi af sér. Flestir virðast hamingjusamir þrátt fyrir skort, en það má líka velta því fyrir sér hvort tunglbúarnir séu í útlegð eða hafi jafnvel verið hraktir af Urras svo hin samfélögin þurfi ekki að hafa áhyggjur af boðskap þeirra. Þær vangaveltur eru gegnumgangandi í gegnum bókina, hvar frelsi byrji og endi, hvort menn séu alltaf fangar sinna samfélaga. Eru íbúar Urras fangar og útilokaðir frá frelsinu á Anarres, eða er hin fámenna tunglnýlenda hið raunverulega fangelsi? Virkar anarkismi? (Svar Ursulu í bókinni er skýrt: Já! Þótt hún hafni hugmyndum um að menn geti skapað útópísk samfélög).

 

Hin samfélögin eru minna athyglisverð enda kunnuglegri. Á Urras sjáum við takast á kapítalísk og sovésk samfélög sem við þekkjum kosti og galla á. Shevek er í fyrstu heillaður af háskólanum sem gerir honum kleift að vinna að rannsóknum sínum, þótt honum finnist óþægilegt í fyrstu að vera ávarpaður með mikilli virðingu, vera þjónað og á erfitt með að sætta sig við þá karlrembu sem virðist allsráðandi í samfélaginu. Þegar hann uppgötvar misskiptinguna í samfélaginu og hvaða pólitísku hlutverki honum sé ætlað að þjóna innan þess renna þó á hann tvær grímur. En eru vísindalegar uppgötvanir hans kannski mikilvægari en mannleg þjáning annarra? Hvers virði eru ferðalög til stjarnanna, samskipti við aðra menningarheima?

 

Það er nokkuð skondið að lesa um snilling á sviði eðlisfræði leysa ráðgátur alheimsins í skáldsögu frá sjöunda áratugnum. Tilgátur Sheveks eldast ágætlega, enda ónákvæmar og meira heimspekilegs eðlis (tíminn er líka svo ljóðrænt konsept til að byrja me), en hugmyndin um einn snilling sem leysir allt gengur seint upp á þessu sviði. Flest vísindi í dag eru hópsamstarf, anarkísk í eðli sínu því það er einungis með því að deila uppgötvunum allra sem við náum virkilegum framförum. (Sérstaklega á sviði geimvísinda eða eðlisfræði … CERN-hraðallinn er ekki eins manns verk, þótt vissulega væri það átak handan við nokkuð sem tunglnýlendan á Anarres réði við).

Að lokum kemst Shevek og íbúar bæði Urras og tunglsins í samband við enn þróaðri siðmenningu sem myndar nánast Deus-ex-machina ef ekki væri fyrir að bókin er hluti af Hain-bókaflokknum þar sem Hain-kynþátturinn er ávallt einhvers staðar á ferli. Hvað nákvæmlega Hain aðhyllast, ríkis-kommúnisma, kapítalisma eða anarkisma kemur aldrei nákvæmlega fram í bókinni, en ólíkt samfélögunum á Urras og Anarres eru Hain-verjar ekki með skort-samfélög svo það kannski skiptir ekki höfuðmáli.

 

Bókin er ein best heppnaða tilraun til að velta fyrir sér pólitískri hugmyndafræði sem sést hefur í vísindasögu, enda vann hún á sínum tíma bæði Hugo og Nebula verðlaunin. (Þær eru reyndar margar vísindasögur sem einmitt gera slíka hluti vel). Að sumu leyti er ferðalag Sheveks ekki ólíkt því sem við sjáum „Brave New World“ Aldous Huxley, sem vissulega er á svipuðum slóðum þegar hann veltir fyrir sér samfélagsgerðinni. Að vissu leyti mætti líta á Veröld nýja og góða eins og bókin heitir á íslensku sem rannsókn á nautninni. Framtíðar-samfélag Huxleys stýrist af þrá mannsins til þess að líða vel. Vinsæl myndasaga eftir Stuart McMillen frá 2009 sem stundum flakkar á netinu stillir frændunum George Orwell og Aldous Huxley sem andstæðum og endar með ályktuninni: „Orwell óttaðist að það sem við hötuðum myndi skemma okkur en Huxley óttaðist að það elskuðum myndi skemma okkur.“

 

Það er freistandi að líta svo á að netið færi okkur heim Huxleys, að við getum fyllt tíma okkar og höfuð með öllu því sem skiptir engu máli með því að taka endalaust inn „soma“ internetsins, en ég held ekki að við ættum að afskrifa Orwell strax. Það er mikið af ótta og hatri víða á netinu. Og herlög ríkjandi víða í Evrópu. (Þetta er útúrdúr).

Saga Sheveks eins og Ursula segir hana er ekki saga um hvernig við drekkjum okkur í nautn til að gleyma þjáningu annarra eða til þess gleyma þjáningu yfir höfuð. Shevek er betur upp alinn heldur en svo, og það má segja að þjáningin sé nánast upphafin í bókinni. Eina leiðin fyrir fólk til að komast saman og öðlast líf sem skipta máli er að deila þjáningu saman. Að því leytinu er samfélagið á Anarres betra en hinir kostirnir tveir á Urras, í A-io hefur ákveðin forréttindastétt tækifærin til að skara fram úr og líta til stjarnanna, eða njóta lífsins á þann máta sem hún kýs. Sovét-veldið Thu er ekki mikið frábrugðnara þótt að kjörin séu jafnari að öllum líkindum, þar er tækifærunum samt sem áður úthlutað. Á Anarres hefur Shevek deilt kjörum með bræðrum sínum og systrum og þegar öllu er á botninn hvolft þá sér hann að þrátt fyrir takmörk Odonísks samfélags þá sé það betra en hinir kostirnir tveir. Og það er enn ósvarað hvers eðlis takmörkin eru, líkt og Ursula sjálf hefur sagt þegar hún var spurð út í ómöguleika anarkisma:

„Það fer fyrst og fremst eftir því hvar þú reynir á hann, og hverjir nágrannar þínir eru.“

 

 

Aðeins um Ursula Le Guin:

 

Ursulu Le Guin er einn mikilvægasti höfundur 20. aldarinnar. Tveir bókmenntafræðingar hafa nýlega haldið því fram að bókaröðin Þriggja heima saga sem ég á þátt í að skrifa í sé undir sterkum áhrifum frá henni. Það er rétt, en það væri kannski nær að segja að við Kjartan séum ekki síður undir miklum áhrifum frá höfundum sem hafa orðið frá áhrifum Le Guin, og við séum frekar þriðja eða fjórða kynslóð „fjölmenningarlegra“ fantasíuhöfunda. Það verða að vera gæsalappir í kringum fjölmenninguna hérna því að bókaröð okkar Kjartans er frekar Evrópu-miðjuð þótt hún sé í öðrum heimi. Eini munurinn er hvaða Evrópuland nær að vera forgrunnur bókaflokksins og frá hvaða augum restin af heiminum verður framandi.

 

Aftur að Le Guin. Það dylst engum sem les fantasíur að hún er undir miklum áhrifum frá mannfræði. (Í Rocannon´s World er meira að segja mannfræðingur aðalsöguhetjan). Það gæti verið að hún sé með fyrstu fantasíuhöfundum sem skrifa sögupersónur sem ekki tilheyra þjóðerni sem byggir á evrópskum fyrirmyndum. Séu jafnvel með annan hörundslit en hvítan. Það er stór fullyrðing, en við skulum segja að hún sé alveg örugglega sú fyrsta sem skrifar slíka á markaðsvænan máta. Sögurnar um galdramanninn Gjafar í Galdramanninum(eða Ged eins og hann hét á frummálinu í A wizard from earthsea), segja frá veröld sem er að mestu haf og ótal eyjum, hvers íbúar minna frekar á Pólýnesa, afríska þjóðflokka eða forn-amerískar þjóðir heldur en Evrópu. (Sjónvarpsútgáfan fór þó ekki eftir þeim lýsingum).

 

Samfélagsbyltingar sjötta og sjöunda áratugarins svífa yfir vötnum fantasíuheimsins Earthsea og Hain-geimvísindabálksins. Fyrsta bókin í þeim flokki Heimur Rocannons (Rocannon´s World) notast við element sem lesendum Ursulu munu síðar verða kunnir þótt frumstæð plánetan sem hann er að kanna kallist á við klassíska fantasíska heima eins Tolkien hafði þegar skrifað um, og ýmsar klisjur. (Sem meira að segja voru klisjur þá). Sama ár og sú bók kom út, 1966, birti Ursula einnig Útlagaplánetuna (Planet of Exile), svo síðar kom Borg Blekkingana (City of illusions). Ég er að sjálfsögðu að rugla í ykkur kæru lesendur með þessum íslensku titlum, engar þessara bóka hafa verið þýddar á íslensku að undanskilinni Galdramanninum.

 

Það breytir því ekki að áhrifa Ursulu gæti í verkum Neil Gaiman, David Mitchell, China Mieville og þar með íslenskra furðusagnahöfunda eins og undirritaðan sem kom að verkum Ursulu löngu eftir unglingsár. (Hafði hins vegar lesið Philip K. Dick bekkjabróður hennar úr menntaskóla í tætlur, en áhrifa þaðan gætir vart í Þriggja heima sögu).

 

Tvær áhrifamestu vísindaskáldsögur Le Guin eru Hin myrka vinstri hönd (Left hand of darkness) og Öreigarnir. Í báðum fylgjumst við með aðalsöguhetjunni flækja sér í pólitískar aðstæður sem eru handan skilnings hans. Söguhetjan er ekki bara útlendingur á framandi stað, hann er geimvera, Shevek er maðurinn frá tunglinu, Genly Ai er sendiherra frá jörðinni á plánetu sem virðist kynleg og óviðkunnanleg sökum skorts á kynjahlutverkum og reyndar kyni almennt, Rocannon er mannfræðingur að kanna fantasíuheim, í Borg blekkingana, óbeinu framhaldi af útlagaplánetunni kemur íbúi af Wenel til Norður-Ameríku á tímapunkti þegar jörðin hefur verið yfirtekin af framandi afli.

Þetta er auðvitað algeng aðferð sem furðusagnahöfundar nýta sér almennt. Ef aðalsöguhetjan veit ekkert um staðinn sem hún er á þá er eðlilegt að aðrir útskýri leikreglurnar fyrir henni, (og þá um leið lesandanum sem þarfnast þessara upplýsinga mest).

 

Í tilviki Sheveks í öreigunum koma þrjú samfélög fyrir. Mér fannst það ánægjuleg tilbreyting frá einfaldri heimsmynd margra annara vísindasagnahöfunda, þar sem hver pláneta mynda eitt heildarríki, sem oft er þá táknmynd fyrir eina tegund hugmyndafræði. (En hversu líklegt er það, myndi geimverutegund sem uppgötvaði jörðina núna finna manneskjur sem næðu samkomulagi eina tegund af hugmyndafræði?)

Í vinstri hönd myrkursins er plánetan einnig klofinn. Mannverurnar á plánetunni sem hlotið hefur nafnið „Winter“ hafa engin ákveðin kyn, heldur skiptast á því að vera feður eða mæður með reglulegu millibili. (Einungis á fengitímanum öðlast þau kyn). Í upphafi bókar þegar maður les um íbúa plánetunnar og kynnist sögumanninum Genly Ai sem á erfitt með að skilja samfélagið, kynuslann í því, og er álitinn öfuguggi fyrir að vera varanlega karlmaður, og þar með stöðug kynvera en ekki bara tímabundið, dettur manni helst í hug að framundan sé hugmyndafræðileg rannsókn á feminisma, kynjahlutverkum, kvenrembu og karlrembu. Og er ekki kominn nema inn á kafla tvö þegar bókin er allt í einu farin að snúast um eðli þjóð-ríkisins, hvaða áhrif trúarbrögð hafa á sjálfsmynd fólks, hvernig hægt sé að skapa þjóðhollustu og ástand sem leiði til stríðs.

 

Bæði „Vinstri höndin myrka“ og „Öreigarnir“ eru tímamótaverk í sögu furðusögunnar á 20. öld, en ég læt duga að sinni, og hvet ykkur bara til að lesa.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni