Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ó Kanada

Ó Kanada

Það var einu sinni ungur skipulagsfræðingur sem vildi að Ísland tæki upp kanadadollar. Þetta var skapandi og ástríðufullur maður, eiginlega hálfmanískur. Eina stundina var hann kominn til Noregs að semja um risastórar peningagjafir til landsins, þá aðra ætlaði hann að endurheimta fjársjóði úr klóm hrægamma. Þetta var á tímabili þegar óvíst var hvort Ísland gæti unnið sig úr hruninu án þess að missa sjálfstæði sitt. Gunnar Smári stofnaði stjórnmálahreyfingu sem barðist fyrir inngöngu í Noreg (en breyttist svo á endanum í spjallsíðu sem gekk út á að deila greinum frá honum). Ríkisstjórn Íslands reyndi að semja við ESB en var föst í sömu hjólförunum á meðan andstæðingar Evrunnar reyndu að koma með stinga upp á mismunandi möguleikum.

Á kjörtímabili Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra komu fjölmargar raddir sem töluðu um svissneska Franka, einhliða upptöku Evru, Bandaríkjadollar, norska krónu og kanadíska dollarinn. Síðan þögnuðu þessar raddir þegar ungi skipulagsfræðingurinn varð forsætisráðherra. Þá var allt í einu ekki lengur þörf á að finna neinar lausnir. Þegar innganga í ESB vofði ekki lengur yfir gátu menn frestað vandanum og öll umræðan um hrægamma, afnám verðtryggingar, nýjar krónur og dali fjaraði út. Nánast eins og hrunið gæti aldrei endurtekið sig nú þegar sömu stjórnmálaflokkar og komu því af stað voru aftur við völd.

Maður getur ekki annað en horft öfundaraugum til Kanada þegar maður sér forsætisráðherrann þeirra taka á móti flóttafólki á meðan forsætisráðherra okkar er að rífast við einhvern kverúlant út í bæ og uppnefna hann toppara (eða botnara eða hvað sem það nú er). Það er klassi yfir Trudeau. Sjarmi, mennska, þarna er hugsjónamaður sem horfir fram á við. 

Ég hugsa að Justin Trudeau myndi aldrei skrifa grein í blöðin þar sem hann ásaki pólitíska andstæðinga sína um að vera „toppers and bottomers“. Svo hefur hann svo fallegt bros.

Þegar maður sér Trudeau taka á móti flóttafólki á maður erfitt með að skilja hvers vegna í ósköpunum var fólk að velta inngöngu í Noreg fyrir sér? Er ekki augljóst að ef við viljum fá almennilegt stjórnmálafólk ættum við frekar að líta vestur á bóginn og afsala sjálfstæði okkar til Kanada. (Ef Justin Trudeau er til í að leyfa ríkasta 1% Íslendinga að halda kvótakerfinu óbreyttu verða samningaviðræður stuttar). Lítum bara á hvað Jón Steinsson hagfræðingur sagði um þetta í viðtali við Vísi árið 2011, þegar vísir skellti því fram að einungis þrjá mánuði þyrfti til að taka upp kanadadollar:

„Jón Steinsson, lektor í hagfræði við Columbia háskóla í New York, deilir skoðunum með Guðmundi. Hann segir að tvíhliða upptaka Kanadadollars í samstarfi við kanadíska seðlabankann sé kostur sem verði að ræða til hlítar, sé hann yfirleitt í boði. „Það er líklega ekki ofsagt að Kanadamenn hafi staðið sig betur í því að hafa eftirlit með bankageiranum en flest önnur lönd. Kanada er eitt fárra landa þar sem bankakerfið slapp algerlega við vandræðin sem hrjáði banka í flestum öðrum ríkjum," segir Jón.

Jón, sem þekkir vel til innan kanadíska seðlabankans, segir að peningamálastjórn hafi einnig verið til fyrirmyndar í Kanada undanfarna áratugi og Seðlabanki Kanada sé í dag á meðal fremstu seðlabanka heims. „Þar að auki er efnahagur Kanada á margan hátt líkur efnahag Íslands. Bæði Ísland og Kanada flytja út mikið af hrávöru. Því hafa sveiflur í hrávöruverðum á heimsmarkaði áhrif á bæði hagkerfin," segir Jón Steinsson.

En lítum að alvöru málsins.

Eru til söguleg fordæmi fyrir því að ríki gangi í Kanada?

Já. Nýfundnaland var sjálfstætt ríki við útjaðar Kanada þar til það varð gjaldþrota við lok seinni heimsstyrjaldar. Landið sem var undir bresku krúnunni hafði komið illa úr kreppunni, en líkt og Ísland byggðist efnahagur þess helst á sjávarútveginum. Árið 1948 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem íbúar eyjunnar kusu að ganga inn í Kanada frekar en að halda sjálfstæði sínu (en innganga í Bandaríkin var líka möguleiki).

Sem fylki viðheldur Nýfundnaland ýmsum réttindum. Þeir geta sett sín eigin lög, en eru hluti af kanadíska heilbrigðiskerfinu (sem er víst alveg brilljant) og hafa kanada-dollar. 

En hvað með tungumálið gæti einhver spurt. Og svarið væri augljóst: Lítið bara á Quebec þar sem Franska er opinbert mál. Íslenskan gæti haldið sömu stöðu í fylkinu Ísland og hún hefur í dag.

Svo má færa ýmis söguleg rök. Í L´Anse aux meadows voru norrænir landnámsmenn sem líkast til komu frá Grænlandi. Ef þeir gáfust upp á að búa á Nýfundnalandi og sneru aftur til Grænlands eða Íslands er líklegt að flestir Íslendingar geti rakið ættir sínar til þeirra. Íslendingar voru þar með fyrstu evrópubúarnir til að reyna landnám í Kanada, en eins og við öll vitum flutti stór hluti þjóðarinnar til landsins á nítjándu öld. Vestur-Íslendingar væru eflaust fegnir því ef Austur-Íslendingar ákvæðu að sameinast þeim. Svo eru margir Íslendingar aðdáendur bresku konungsfjölskyldunnar, þeir þekkja a.m.k. nöfn þeirra svo þeir myndu átta sig á því hver væri á seðlunum, ólíkt norsku konungsfjölskyldunni (sem er í raun bara dönsk . . . og hver vill fara aftur undir Dani?)

Þetta er auðvitað sett fram í gríni núna, en hver veit nema þegar Ísland hefur hrunið aftur, að einhver rifji ekki upp þessa umræðu þá. (Það ætti að gerast svona sirka um það leyti sem kanadíski hjartaknúsarinn Justin Bieber kemur til landsins, ef að skipulagsfræðingurinn í forsætisráðuneytinu heldur áfram að brillera eins og hann hefur gert).

Það hafa komið verri hugmyndir.


P.S.
Í versta falli fer umsóknin svona:
 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni