Lýðræðislegt umboð: Ekkert
Það kom einu sinni aðkomumaður á bæ sem vildi fá smá súpu í svanginn. Húsráðandi þóttist lítið eiga. Þá stakk aðkomumaðurinn upp á að hann eldaði súpu handa þeim bara með smá vatni og einum nagla. Húsráðandinn hleypti aðkomumanninum í eldhúsið og beið spenntur. Súpa úr bara einum nagla!
Andartaki síðar nefndi aðkomumaðurinn að ein gulrót myndi bæta bragðið. Húsráðandinn hugsaði með sér að það gerði varla mikið til. Ein kartafla líka, jújú. Varla var búið að bæta henni við fyrr en aðkomumaðurinn stundi á ný: „Æ, þetta væri svo miklu betra með smá rófum og lauk.“
Þið þekkið söguna. Á endanum er búið að bæta oní súpuna alls kyns kryddum, salti, kjöti og svo framvegis. Síðan smakkar húsráðandinn súpuna, finnst hún góð og þakkar aðkomumanninum kærlega fyrir. Gott ef hann endar ekki á því að kaupa þennan dýrindis-nagla af honum fyrir mikið fé. Og loddarinn gengur í burtu, finnur annan nagla og annað hús og heldur þannig áfram för sinni. En næst þegar húsráðandi reynir að sjóða með nagla gerist lítið.
Þessi saga minnir mig pínulítið á leiðréttinguna hans Sigmundar. Þar áttu kjósendur (þeir sem svo heppnir voru að eiga fasteign) að fá fullt af skuldum afskrifaðar alveg ókeypis. Sigmundur væri nefnilega með töfraformúlu. Hann myndi nota haglara á hrægamminn og það myndi ekki kosta Íslendinga neitt. (Sjálfur hafði hann lagst gegn haglaranum, lögunum sem þvinguðu kröfuhafa til að semja til að byrja með, en það stoppar lítið Sigmund þegar hann er kominn í netta maníu).
Engum grunaði að hann væri svo ósvífinn að ætla sér að semja við sjálfan sig. Að forsætisráðherra myndi bjóða kröfuhöfum samning sem 90% þeirra samþykktu strax án þess að svo mikið sem hugsa sig um. Að SDG væri í raun einn af þeim en ekki einn af okkur. Íslandi allt? Íslandi helst sem allra, allra minnst (eiginkona hans borgar ekki einu sinni útsvar til sveitarfélagsins).
Skulda-afskriftirnar áttu ekki að kosta ríkissjóð neitt en þær gerðu það samt. Alveg eins og naglasúpan átti að vera alveg ókeypis.
Í raun greiddi ríkissjóður skuldirnar, og fólk græddi meira eftir því sem íbúðin var stærri. Á sama tíma hækkaði leiguverð á Íslandi og staða ungs fólks, ungra námsmanna, öryrkja og annarra sem gjarnan eru á leigumarkaði versnaði til muna. Þeir sem áttu eitthvað sáu eignir sínar rjúka í verði ... alveg eins og gerðist síðast þegar Framsókn stóð við fasteignatengt kosningaloforð: 90% fasteignalán er einmitt ástæða þess að það þurfti leiðréttingu til að byrja með. (Önnur góð framsóknarhugmynd var á sínum tíma verðtryggingin, og það fær mig nánast til að halda að flokkurinn smíði vísvitandi vandamál á hverju kjörtímabili til að geta lofað því að leysa þau með stóru loforði á því næsta).
En Íslendingar, a.m.k. einhver hluti þeirra treysti SDG og kaus hann. Svo forsætisráðherra fór að semja við sjálfan sig. Án þess að nokkur vissi að hann væri að semja við sjálfan sig, allra síst kjósendur hans. Á endanum var niðurstaðan að kjósendur greiddu leiðréttinguna til sjálfs síns með sínum eigin sköttum og á meðan svalt landspítalinn áfram fjárhagslega. Það kallar maður aldeilis góða fléttu.
Og hvað um það. Við vitum öll núna um Wintris. Við vitum að við vorum höfð að fíflum. Við vitum að innanríkisráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa falið hluti fyrir kjósendum sínum (og fjármálaráðherra jafnvel logið um það í beinni útsendingu).
En hvert er umboð þessarar ríkisstjórnar sem þykist hafa mikilvæg mál að klára?
Svarið er ekkert. Þetta er ekki sama stjórn. Það kaus enginn maður Sigurð Inga til að gegna embætti forsætisráðherra, ekki einu sinni hann sjálfur.
Enda var hann ekki forsætisráðherraefni flokksins eða formaður. Hann er ekki maðurinn sem átti að skjóta hrægamma með haglara, og þótt hann sé dýralæknir að mennt er ég ekki viss um að hann þekki hrægamm í sjón.
Og hvað myndi stjórn hans nýta umboð sitt til að gera? Selja fleiri ríkiseigur í gegnum Landsbankann? Ekki ætla þau að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarumsóknina eins og þau lofuðu þó. Efast líka um að ferðamálaráðherra finni upp á sanngjarnri gjaldtöku á ferðamannastrauminum og reisi nokkur skitin almenningsklósett eða bæti vegakerfið fyrir peninginn. Einnig efast ég um að við sjáum nokkuð af húsnæðismálafrumvarpi Eyglóar sem þó hefur haft þrjú ár til að bregðast við stærstu húsnæðiskrísu í sögu Íslands.
Eftir allt klúðrið á þessu kjörtímabili þá er ekki skrítið að nokkrum mánuðum áður en Panamaskjölin opinberuðu ríkisstjórnina sem samansafn loddara þá töldu 90% Íslendinga forsætisráðherra ótraustverðan. Fólkið sem hafði fyrir þremur árum treyst Sigmundi fyrir einum viðkvæmustu samningaviðræðum í sögu lýðveldisins hefðu ekki treyst honum til að vökva plönturnar heima hjá sér meðan þau væru í sumarbústaðnum, og þúsundir manna höfðu komið út á Austurvöll til að krefjast þess að kosningaloforð skyldu efnd eða kosningar haldnar.
Eftir að hafa opinberað sig sem loddara, eftir kosningasvik og blekkingar hefur ríkisstjórnin misst umboð sitt.
Það eina sem Sigurður Ingi hefur umboð til að gera er að kalla til kosninga.
E.S.
Tékkið samt á þessu úr frumvarpi stjórnlagaráðs og pælið í því í samhengi við Panama-ráðherrana.
E.E.S.
Flokkar sem leggjast gegn öllum kerfisbreytingum á Íslandi eru svo sannarlega ekki hlynntir auknu markaðsfrelsi heldur. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur mjólkurkvóta, kjötfjalla og leggst gegn markaðsleið í sjávarútvegi. Flestir flokkar á Íslandi (og flestir Íslendingar) eru frjálslyndari en sá flokkur. Mic-drop.
Athugasemdir