Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Íslenska moskan

Íslenska moskan

Torfbærinn er táknmynd um íslenskan menningararf. Hann er vistvæn bygging sem eyðist náttúrulega ef honum er ekki viðhaldið, hann er einfaldur og látlaus, fellur á fallegan máta inn í umhverfið og skapaður úr efnivið sem enginn skortur er á. Eins hrifinn og ég er af torfbæjum þá get ég vel skilið þær kynslóðir sem fögnuðu því að komast úr honum og vildu stroka hann úr söguminninu. Aðrar þjóðir sem einnig byggðu torfbæi eins og Norðmenn og Skotar létu sína líka hverfa. Það er mannlegt að skammast sín fyrir fátækt þegar maður þarf að bera sig saman við ríkidæmi, Íslendingar hefðu eflaust frekar kosið að geta bent á hallir, kastala og dómkirkjur eins og sumar evrópuþjóðir í suðri.

 

Harpan var tilraun til þess að verða menn með mönnum. Mér finnst hún falleg, þótt ég vissulega geti tekið undir orð kunningja míns, Belgíska ljósmyndarans Bart Grietens að það sé nánast eins og við séum að reyna að byggja fyrir það besta í Reykjavík; „fjallasýnina“. (Og hann var ekki einu sinni búinn að heyra plönin sem sumir höfðu um að stækka við Skuggahverfið).

 

Það má segja margt gott og slæmt um Hörpuna. Mér finnst hún glæsileg þegar ég stend inni í henni og horfi upp. Ég gretti mig pínulítið þegar ég hugsa um kostnaðinn á glerinu sem ekki er hentugasta byggingarefnið þegar hús standa við saltan sjó í miklu roki. (Úff, Borgartúnið maður). Og það eru fleiri sem gretta sig. Danskir listamenn pirra sig á kostnaðinum við nýja óperuhúsið í Kaupmannahöfn, sem vissulega er glæsilegt. Best heppnaða nýja norræna tónlistarhúsið er þó óperan í Osló sem hægt er að ganga upp á og blokkerar þannig ekkert útsýni í raun. Þar er líka aðstaðan frekar til fyrirmyndar heldur en í Hörpunni (sem af einhverjum ástæðum er risavaxin en samt ekki nógu stór til að hægt sé að hafa óperu og dansflokk innandyra … og er það víst aðallega Björgólfi Guðmundssyni að kenna eins og allt slæmt sem gerst hefur á Íslandi frá því hann fór á hausinn).

 

Við misstum svo sannarlega af gylltu tækifæri þegar arkítektinn Jean Nouvel bauð okkur að byggja hól í staðinn fyrir glerhöll. Hér. Jú, Harpan er eins og Þjóðleikhúsið svolítið eins og Álfahöll, en stundum er raunveruleikinn betri en draumurinn. Það hefði verið svolítið gaman að sjá eitthvað endurspegla Arnarhól frekar en Manhattan. Það hefði verið djarft. Og eins og franski arkítektinn sagði í samtali við moggann árið 2005: „Sérkenni eru að fara úr arkitektúr úti um allan heim og það er vandamál.“ (Óperuhúsið norska, óperuhúsið danska og ekki-óperuhúsið íslenska eru öll með gler eða ljós-innsetningar frá Ólafi Elíassyni, eða hönnunarstofu hans í Berlín öllu heldur).

 

Hvað um það. Ég get alltaf huggað mig við það þegar ég keyri eftir Sæbrautinni að fallegustu byggingar Íslandssögunnar standi enn. Já, ég er að tala um skólphreinsistöðvarnar. Þessir manngerðu hólar voru hannaðir með það í huga að fela ósmekklega starfsemi bygginganna. En í því felst snilldin. Hægt er að ganga upp grasbrekkurnar og virða Esjuna fyrir sér eins og ekkert sé. (Ef vindáttin er rétt). Sjálfur sendi ég hóp af krökkum upp á einn skólphreinsihólinn í barnaleikriti sem ég skrifaði með Sólveigu Guðmundsdóttur og Aude Busson, til að segja þeim frá gullfiskinum Manna, en það er önnur saga.

 

---


Einhverjum kann að þykja það hatursorðræða að ég tali um trúarmiðstöð í sömu andrá og skólphreinsistöð. En ég er fyrst og fremst að tala um útlit, ekki innihald hérna. Moskan er fagurlega hönnuð, formið hefðbundið. Maður þekkir turninn og kúpulinn, þau býzönsku áhrif sem einkenna byggingar múslima um allan heim. Að sameina þau við torfbæinn veitir falleg hughrif. Þau minna mann á að tilbiðjendurnir séu Íslendingar líka og deila með íbúum eyjarinnar landi, náttúru og sögu.

 

Að setja manninn undir grasið skapar svo mörg hugrenningartengsl. Er maðurinn alltaf ofar náttúrunni eins og hin abrahamísku trúarbrögð halda fram eða eru arkítektarnir kannski að setja múslima þarna inn í hina duldu og rammheiðnu álfakirkjuhefð? Þegar ég skrifaði bókina Hrafnsauga ásamt Kjartan Yngva Björnssyni ákváðum við að Janarnir sem bókin fjallaði um skyldu búa í torfbæjum. Ekki bara af því byggingarnar eru fallegar, heldur líka til að tákna það jafnvægi sem þjóðin var í gagnvart umhverfi sínu, þá virðingu sem þeir báru fyrir landslaginu sem þeir deildu með andaverum heimsins. (Svo má nefna að Samar sem einnig eru frægir hreindýrahirðar þróuðu torfbyggð samhliða norrænum mönnum). Það er ekki þar með sagt að við upphefðum Janana sem einhvers konar rómantísk náttúrubörn í útópíu. Samfélag þeirra er ekki gallalaust, þó það sé eilítið skárra heldur en Ísland átjándu aldar sem við flest fáum biturt óbragð í munninn þegar við hugsum um kúgunina, arðránið og óréttlætið sem einkenndi þann myrka tíma. (Án þess að gera lítið úr þeim sköpunarkrafti, skáldskap og forvitni sem fólk þess tíma hafði líka til að bera þegar það barðist við að lifa af einokunarverslun og náttúruhamfarir).

 

Torfið fær mann til að hugsa um allt þetta, en mér finnst ekki síður fegurð felast í hinni hefðbundnu lögun moskunnar og turnsúlunni við hlið hennar. Margar rétttrúnaðarkirkjur í miðausturlöndum umbreyttust í moskur þegar Arabar lögðu undir sig lönd hins gamla rómaveldis við botn miðjarðarhafs. Hirðingjaþjóðin varð fyrir miklum áhrifum af þeim byggingarstíl sem var ráðandi á þeim svæðum, en mér finnst eins og arkítektarnir á Sogamýrismoskunni fari jafnvel enn lengra aftur í tímann. Gunnlaugur Stefán Baldursson og Pia Bickman teikna fyrir okkur súlu í nánast grískum stíl. Sterk áminning um það að við deilum ekki bara sam-abrahamískum menningararfi. Germönsku þjóðirnar sem hertóku Rómarveldi í norðri tóku upp bæði gyðingtrú en auðvitað aðallega kristna trú (sem var í raun gyðingtrú með smá dassi af grískri heimspeki). Kristni og gyðingdómur þróuðust síðar í Íslam (en þeir sem aðhyllast þau trúarbrögð myndu sennilega segja þér að Íslam sé í raun hin upprunalega útgáfa af því sem átti að standa í nýja og gamla testamentinu … og ég debattera það ekki frekar en gulltöflurnar í pípuhatti Joseph Mormon). Þarna liggur klofningur þriggja trúarbragða sem rekja uppruna sinn til Abrahams, en löngu eftir þann klofning voru fylgjendur þeirra að hafa áhrif hvor á annan með þýðingum og fræðiritum.

 

Það er nefnilega arabískum þýðendum í Sýrlandi, Írak og Spáni að þakka að rit Aristótelesar og hugmyndir forngrikkja lifðu til dagsins í dag. Endurreisnin og upplýsingabyltingin eru afleiðing hugmyndastrauma sem losna úr læðingi einhvers staðar á íberíuskaganum. Sumir segja að ástæða þess að evrópuþjóðirnar tóku svo fram úr miðausturlandaþjóðunum hafi verið áfengisneyslan sem kristin trú fordæmi ekki. Ég legg ekkert mat á það … ef munkar í miðaldaklaustrum vildu hafa vínið sitt í gagnsæjum glerflöskum, og ef falleg glerhönnun varð til þess að einhver uppgötvaði að gleraugu gerðu fræðimönnum kleift að lesa og skrifa mörgum áratugum lengur en meðfædd sjón þeirra leyfði, þá er það ekki verri tilgáta en mörg önnur.

 

Hitt veit ég þó og það er að grísku súluna eigum við öll sameiginlega. Hvað svo sem Wahabbistum og Nýnasistum þessa heims kann að þykja um þá fullyrðingu. Og þess vegna er gaman að sjá þessar þrjár rætur vefast saman svo fallega, torfið, súluna og moskuna.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni