Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Formaður húsfélagsins

Maður á alltaf að forðast ábyrgð eigi maður kost á því. Að sækjast eftir því að verða forsætisráðherra er eins og að sækjast eftir því að vera formaðurinn í húsfélaginu og bjóðast til þess í leiðinni að þrífa stigaganginn vikulega. Það er eitthvað dularfullt við fólk sem sækist eftir þannig ábyrgð, og oft liggur eitthvað vafasamt þar að baki.

Krefjist maður þess að vera formaðurinn í húsfélaginu er eins gott að sinna því. Panta meindýraeyðinn til að losna við rottuganginn í hjólageymslunni og hringja í iðnaðarmennina sem áttu að mála blokkina en hafa ekki sýnt sig vikum saman. Sumar týpur nenna þessu, t.d. Jóhanna Sigurðardóttir, gamla, ráðríka konan á þriðju hæð sem engum líkar vel við því hún opnar hurðina og starir reiðilega út á stigaganginn í hvert sinn sem hún heyrir einhvern ganga upp tröppurnar. Hún virðist horfa meinfýsislega á alla, en í raun er hún bara nærsýn. Það er erfitt að átta sig á því hvað hún vill, hún virðist ekki eiga neina vini, og nágrannar hennar sem hafa búið áratugum saman í blokkinni með henni forðast hana. Hún er alltaf að nöldra um að það þurfi að fara í viðgerðir á þakinu, það er aðgerð sem muni kosta fimm milljónir hefur hún reiknað út og allir eiga eftir að þurfa að leggja hundrað þúsund kall til viðbótar inn á reikning húsfélagsins eigi dæmið að ganga upp. Hún er búin að tala um þessar þakviðgerðir í marga áratugi og flestir eru komnir með nóg.
 

Svo dag einn flytur ungur maður í blokkina. Sigmundur Davíð er með djamm-bauga undir augunum, en hann drekkur ekki, er bara svona duglegur í skólanum. Það stendur Dr. á dyrabjöllunni en þegar hann var nýfluttur inn sagðist hann vera í námi. Öllum misminnir um nákvæmlega hvað hann var að læra, og allir vita að íbúðin í blokkinni er í raun í eigu föður hans (hann á reyndar nokkrar íbúðir í nágrenninu), og að strákurinn sé sennilega atvinnulaus því hann hangi heima alla daga. En hann mætir á húsfundinn til að ræða þakviðgerðirnar og þegar Jóhanna hefur lokið máli sínu stígur hann fram og segist ætla að klára málið. Það sé bara della að þakviðgerðir kosti margar milljónir. Frændi hans geti klárað málið fyrir nokkur hundruð þúsund krónur í mesta lagi, svo gæti Sigmundur séð um vesenið með málarana og rottuvandamálið í kjallaranum. Og fólkið í blokkinni er svo þreytt á nöldrinu í Jóhönnu sem hefur verið formaður húsfélagsins í þrjátíu ár og hljómar eins og biluð plata, að það ákveður að nú sé kominn tími á yngri mann. 

Gott ef Simmi er ekki bara kjörinn ritari, formaður og varaformaður húsfélagsins. Daginn eftir er Dr. farið af dyrabjöllunni og í staðinn fyrir stendur Formaður.

Síðan þá hefur lítið bólað á viðgerðarfólki. Frændi Sigmundar kom og byrjaði að rífa upp þakhellur en hætti svo í miðju kafi. Málararnir litu við, kinkuðu kolli en ekkert gerðist. Meindýraeyðirinn hefur ekki sést.

En peningarnir inn á bankareikningi húsfélagsins eru farnir.

Formaðurinn lætur lítið fyrir sér fara. Stundum heyrist tónlist úr íbúðinni en þegar bankað er upp á er annað hvort hækkað í henni, eða alveg slökkt, en það kemur enginn til dyra. „Við vitum að þú ert heima hjá þér,“ prufar einhver að segja en ekkert gerist. „Allt húsið er orðið hriplekt og það er að koma vetur.“

Dag einn rekst einhver úr blokkinni á Sigmund í Kringlunni og hrópar til hans. Ungi maðurinn lætur sem hann heyri þetta ekki, hann er voða fölur að sjá og móður þegar nágranninn króar hann af skammt frá klósettunum.

„Blessaður,“ segir Sigmundur. „Heyrðu ... þetta er alveg að fara að reddast, ég þekki mann sem ætlar að klára dæmið fyrir fimmtíuþúsund kall ... í alvöru ... hvaða árásir eru þetta? Ég er að gera mitt besta hérna! ... þetta er bara óþolandi rógur sem þú ert að bera upp á mig ... já hringdu bara í pabba ... þú ert bara toppari sem þykist geta gert allt betur en aðrir en veist svo bara ekki neitt.“

Að lokum brestur formaður húsfélagsins í grát. Hann játar að hann hafi sagt málurunum að koma ekki aftur því hann vilji varðveita nítjándu aldar framhlið blokkarinnar. 

„En hún er frá 1970, þetta er Breiðholtið Sigmundur,“ hváir nágranninn og grettir sig. Viðmælandi hans angar af áfengi, var hann að koma af kringlukránni?

„Og hjólageymslan, það er ekki bara hægt að dæla rottueitri ofan í klóakið og líma svo fyrir ... þetta eru söguminjar ... svo ekki sé minnst á þakið. Þakið er elsti partur hússins og frændi minn er búinn að taka allar þakhellurnar og raða þeim saman á öðrum stað í Breiðholtinu ... Jóhanna sendi þig er það ekki? Alltaf með þessar ásakanir! Ég er búinn að fá nóg af eineltinu!“

Nágranninn röltir að lokum áttavilltur í burtu og inn í Betra Líf. Hann veltir fyrir sér hvort að sveitadurgurinn á efstu hæðinni hafi rétt fyrir sér, hvort hægt sé að nýta vatnslekann og virkja í raforkuframleiðslu. Sveitadurgur, það er ljótt að hugsa svona en ég á eiginlega ekkert annað orð ... samt er hann ekki einu sinni úr sveit, hann er bara durgur sem hlustar á útvarp Sögu allan daginn. Hann og endurskoðandinn sem einnig býr á efstu hæðinni (en hann hlustar ekki á Útvarp sögu heldur Rondó) eru reyndar með raforkuframleiðslu á heilanum og impra á henni á hverjum húsfundi sem allsherjarlausn, nema endurskoðandinn vill koma fyrir sólarpanelum til að loka á þaklekann og fá evrópustyrk til þess.

Nágranninn hristir höfuðið, nei, nei, nei, þetta er bara enn ein vitleysan, ef við látum þá fá þakið vilja þeir svalirnar og kartöflugarðinn næst. Mig langar ekkert að breyta íbúðinni minni í orkustöð, ég vil bara fá að búa hérna í friði. Í smá stund hvarflar að honum að hringja í Jóhönnu en hún er víst farin til Kanarí með vinkonu sinni. Tölvuforritarinn sem flutti inn á fyrstu hæð segist vera með frumlega lausn sem felist í breytingum á reglum húsfélagsins og það hljómar ekki illa, nema bara verst er að húsið lekur núna og skemmdirnar eru sennilega óafturkræfar. 

En ef ég sel íbúðina og dríf mig til Noregs áður en skemmdirnar verða of augljósar, hugsar nágranninn og hálfvorkennir aumingja manninum sem flytur næst inn. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni