Fimmti dagur lögbanns

Ég er vonsvikinn. Ég er reiður. Lögbann sem við vitum að stenst ekki alþjóðlega mannréttindasáttmála eða jafnvel okkar eigin lög stendur ennþá og mun standa fram yfir kosningar.
Þegar ég las fréttirnar um að lögmenn væru að reyna að ryðjast inn á Stundina og taka gögn var mín fyrsta hugsun sú að þjóta inn á ritstjórn og meina þeim inngöngu. Þegar ég var kominn fyrir utan hafði Kjarninn uppfært greinina og komið var í ljós að sýslumaður gat ekki tekið gögnin með valdi þrátt fyrir að hann gæti bannað umfjöllunina. Ég gat því snúið aftur við, andað örlítið léttar, en samt ekki annað en velt fyrir mér hvað væri eiginlega í gangi. Svona þöggun á ekki að líðast í lýðræðisríki. Samt er hún að líðast akkúrat núna.
Og tíminn líður, og tíminn líður, og bráðum kjósum við án þess að allar upplýsingar liggi upp á borðum.
Alveg eins og síðast, og þar á undan.
Við berum ekki nógu mikla virðingu fyrir lýðræðinu hér. Nánast eins og það sé bara formsatriði til að uppfylla svo við teljumst hluti af Norðurlöndunum og Evrópu, frekar en eitthvað sem við höfum raunverulega trú á. ÖSE hefur enda gagnrýnt margt við framkvæmdina, það má telja fram misvægi atkvæða, óöruggar geymsluaðferðir á atkvæðum og þar fram eftir götunum. Á 19. öldinni tilheyrði kosningaréttur einungis ríkum körlum og var svo rýmkaður eilítið 1903 svo aðeins efnaminni karlar gætu kosið líka.
Þær kosningar sem haldnar voru þá voru ekki leynilegar, en það var pressa frá útlöndum (Danmörku) sem breytti því. Og gerði þar með marga trygga íhaldssama konungsinna á einni nóttu mikið sjálfstæðisfólk.
Tjáningarfrelsinu hefur líka verið gríðarlega ábótavant á Íslandi og er enn. Það hefur alltaf þurft kastljós útlanda til að breyta því.
Skýrasta dæmið um það er mál Þorgeir Þorgeirssonar gegn íslenska ríkinu. Hann var dæmdur hér á landi fyrir að skrifa um lögregluofbeldi. #IcelandicLivesMatter.
Síðar flutti hann sjálfur mál gegn íslenska ríkinu fyrir mannréttindadómstól Evrópu. Það endaði á því að ríkið var dæmt til skaðabóta og í kjölfarið tókum við út 108 grein hegningarlaganna. Fasistaákvæðið eins og Þorgeir kallaði það.
Meiðyrðalöggjöf á Íslandi er þó enn ábótavant. Það sést best á því íslenska sporti sem gengur út á að kæra blaðamenn, jafnvel fyrir að vitna í orð annarra. (Sem kæri lesandi væri jafngalið og að kæra þig fyrir að deila status af Facebook, orðin tilheyra ávallt þeim sem sögðu þau).
Tjáningarfrelsið snýst um réttinn til að segja eitthvað óvinsælt. Í þessu samhengi veldur það mér vonbrigðum þegar við beitum illa skrifuðum lögum til að kæfa niður umræðu í stað þess að taka hana. Málið gegn Útvarp Sögu er ágætt dæmi um það. Þegar við klárum að uppfæra meiðyrðalöggjöfina verðum við að gera löggjöf um hatursorðræðu skýrari svo ekki verði tilhæfulausar ákærur í framtíðinni.
En þetta eru ekki mest aðkallandi málin þennan laugardag 21. október.
Við þurfum að ræða þetta lögbann. Fyrir nokkrum árum síðan lagði Birgitta Jónsdóttir fram þingsályktunartillögu um að uppfæra íslenskt lagaumhverfi hvað varðar upplýsinga- og tjáningarfrelsi.
Það hefur ekki farið nægilega hátt umræðan um IMMI- Iceland Modern Media Initiative hérlendis, þó svo það sé ein aðalástæða þess að Píratar vekja athygli erlendis. Ef IMMI hefði verið framkvæmt, þó ekki væri nema að hluta til væri svona lögbann óhugsandi. Auk þess hefðu uppljóstrarar skýra friðhelgi og starfsumhverfi blaðamanna væri öruggara. Ég vildi óska þess að ríkisstjórnirnar sem síðan komu hefðu verið nægilega framsýn til að framfylgja IMMI.
Þess í stað hafa ráðamenn herjað á fjölmiðla. Sigmundur Davíð fyrrum forsætisráðherra talaði um loftárásir og hefur skapað lygilegar samsæriskenningar í anda Donald Trump. Bjarni Benediktsson hefur margoft ráðist á fjölmiðla, kallað þá innihaldslausar og tómar skeljar, (sem er frekar kaldhæðnislegt hjá manni sem átti tómt skeljafyrirtæki á Seychelles-eyjum). Bjarni hefur auk þess neitað að ræða við erlenda fjölmiðla sem og þætti á borð við Harmageddon, og blöð eins og Stundina, meðal annars af því hann veit betur. Hann veit að það væru hvorki innihaldslausar né innantómar spurningar sem myndu mæta honum, og hann óttast það.
Gríðarleg þöggun hefur einnig átt sér stað í kringum annað mál, málin sem varða uppreist æru Robert Downey og Hjalta Sigurjónssonar. Ég dáist að hugrekki þeirra kvenna sem hafa komið fram og krafist þess að fá svör, ég vona að sögubækur framtíðarinnar muni þeirra nöfn, Glódísar, Höllu Ólafar, Nínu Rúnar og Önnu Katrínar sem kvennana sem felldu Bjarna Ben, með fullri virðingu fyrir öllum þeim körlum sem höfðu hátt.
Það er hins vegar staðreynd að íslenska ríkið borgar alræmdu almannatenglafyrirtæki Burson Marsteller (hugsið Bhopal mengunarslysið og yfirhylmingu með skaðsemi reykinga, já sama fyrirtæki), fyrir að gera lítið úr hlut kvenna í baráttunni gegn leyndarhyggju og þöggun.
Já, íslenska ríkið borgar almannatenglum fyrir að gera lítið úr þessum konum. Með skattpeningum mínum, en ekki í mínu nafni, takk fyrir.
Yfir þessu og fleiru er ég vonsvikinn og reiður. Við ættum að vera komin lengra. Við ættum að hafa tryggt tjáningarfrelsi á Íslandi.
En eitt er ég stoltur yfir.
Mín fyrsta grein á Stundinni birtist í fyrsta blaði hennar og fjallaði um tjáningarfrelsið. Ég hafði áður skrifað listrýni fyrir Reykvélina, meðal annars um þöggunartilburði gegn Snorra Ásmundssyni af þingkonu sem síðar stofnaði þöggunarfélag inn á alþingi með núverandi heilbrigðisráðherra. Ég er ennþá stoltur af þeirri grein.
Hún snerist um áhuga minn á tjáningarfrelsi í leikhúsinu. Og nefndi ýmsa kúgunartilburði í Frakklandi og Póllandi. Þar vóg þungt rétturinn til að segja eitthvað óvinsælt um trúarbrögð.
Sumir gætu litið á guðlast sem einhverja tegund hatursorðræðu. En ég lít svo á að réttur fólks til að móðga vegi aðeins þyngri en réttur okkar til að móðgast. Og eins léttvægt og það kann að hljóma í hálftrúlausu ríki og Íslandi, þá var ég í sjokki þann dag sem ég ritaði greinina því sama dag og ég var að frumsýna verk í París voru framin hrikaleg fjöldamorð inn á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo. Þennan dag faðmaði ég grátandi samstarfsfélaga sem höfðu sumir lesið barnabækur myndskreytta af þessum skopmyndateiknurum í æsku. Fann fyrir reiði og áhyggjum yfir framtíðinni.
En þrátt fyrir allt sem gekk á, fann ég líka samstöðu meðal fólks. Listamenn sem vildu ekki gefa eftir gildum sínum, hvorki varðandi tjáningarfrelsið né umburðarlyndi sitt. Og þegar ég las í kjölfarið í fréttum að heiman að búið væri að afnema guðlasts-ákvæðið úr íslenskum lögum með frumvarpi sem Helgi Hrafn Gunnarsson flutti, þá gerðist ég Pírati.
Þessi grein verður eflaust ekki vinsæl alls staðar. Já, ég er búinn að spyrða saman umræðu um kynferðisofbeldi, leyndarhyggju í stjórnkerfinu, rétt okkar til þess að gagnrýna stjórnvöld, réttinn gera grín að hvort öðru, fjölmiðlafrelsi bæði með Útvarpi Sögu og Stundinni innanborðs.
En mér finnst þetta einhvern veginn passa saman á einhvern undarlegan máta. Ég vil að Ísland fái topp-einkunn næst þegar erlendir aðilar meti stöðu fjölmiðla og tjáningarfrelsi á Íslandi. Ég held að við viljum það flest. Og það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Athugasemdir