Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Allt það ógleymanlega árið 2015

Allt það ógleymanlega árið 2015

Það eru tvö augnablik sem ég gleymi aldrei árið 2015, hvar ég var staddur þegar ég heyrði af skotárásinni á Charlie Hebdo og hvar ég var 11 mánuðum síðar þegar ég heyrði af Bataclan. Um það fyrra skrifaði ég pistil, sem reyndist vera fyrsta greinin sem birtist eftir mig í hinni nýstofnuðu Stund. Hér.

Þetta var ár sem ég eyddi að mestu á flakki um heiminn. Ég hóf það í áramótateiti í kyrrlátu úthverfi í Orleans, þar sem góður vinur minn Renaud, var að vinna með hóp bandarískra leikara að uppsetningu Les Splendids eftir Jean Genet. Hér. Það var mikið stuð í teitinu og ég uppgötvaði m.a. að ekki er allt búrbon-viský óhroði. Og að það væri slæm hugmynd að mæta til dyrana vopnaður sveðju, sér í lagi þegar það er löggan í New York að banka upp á. 

Í París var ég að æfa fyrir verkið La Mélancholie des Dragons. (Fyndin staðreynd: Vissuð þið að orðið melankólía er fengið úr grísku og merkir svartagall, en Hippókrates faðir læknisfræðinnar trúði því að of mikið gall í líkamanum ylli þunglyndi . . . og þaðan höfum við orðið svartagallsraus). 

Þetta vinsæla verk var tekið upp aftur eftir fimm ára hlé og átti eftir að túra um allan heiminn (og túrar enn). Ég æfði mig inn í hlutverk Cyrils, sem var bæði að taka upp kvikmynd í Síberíu og átti eftir að verða faðir sama vor, svo hann var skiljanlega of upptekinn til að fara um Montpellier, Tours og til eyjunnar Réunion.

Vikulöng heimsókn leikhópsins til Réunion í marslok stendur upp úr fyrir mig á árinu. Þessi eyja er stórfengleg, bæði ótrúlega frönsk og á sama tíma sitt eigið land, með himinháum fjöllum, stórhættulegum en stórfenglegum ströndum, hraunbreiðum, frumskógum og kóralrifum.

Frá Réunion flaug ég til Íslands. Það var nærri átján tíma ferðalag með millilendingu í París, en ég náði þó í tæka tíð í útgáfuteiti Ormstungu, þriðju bókarinnar í furðusagna-ævintýrabálksins sem ég hef skrifað með Kjartani Yngva Björnssyni í núna fjögur ár. Hún fékk frábærar viðtökur hjá gagnrýnendum og ég er býsna stoltur af bókinni, tel hana bestu í bókaröðinni hingað til.

Þetta sumar lét ég verða af gömlum draum og flutti til Parísar. Það var erfitt. Leigumarkaðurinn í Brussel er paradís í samanburði við þann frumskóg sem maður kynnist í París. Í augnblikinu erum við Ragnheiður Bjarnarson konan mín, þó nokkuð vel sett í lítilli íbúð á borgarmörkunum skammt frá flóamarkaðinu við Porte de Clignancourt og Montmartre hæðinni. 

Við eyddum smá tíma skammt frá Alicante með móður Ragnheiðar í því sem best er lýst sem höfuðborg norskra ellilífeyrisþega. (Með götuskiltum á norsku og alles). Þar var gott veður og sundlaug svo það var ekki alslæmt. Við komum til Íslands blönk eins og vanalega, en redduðum okkur með því að vinna á elliheimili á Höfn í Hornafirði. Það kenndi mér margt. Ég skrifaði líka um humarveitingastaði bæjarins

Síðar um sumarið frumsýndi Rebel Rebel (sem er leikfélag mitt og Ragnheiðar Bjarnarson) dansverkið A series of novels never written á Lókal og Reykjavík Dance Festival. Þegar við endurtókum það verk í Tjarnarbíó undir heitinu A Retrospective fengum við afleita dóma, en ég hef reyndar sjaldan hlegið jafn dátt og þegar ég las einnar stjörnu dóm Sigríðar Jónsdóttur. En ég svaraði honum líka.

Í septembermánuði hélt Melankólíu ævintýrið áfram. Leikhópurinn fór til Seattle, síðan Portland, síðan Los Angeles og loks Manchester í septembermánuði. Í þetta sinn var ég í nýju hlutverki, en Cyril var búinn að klára síberíuævintýri sitt.

Við Ragnheiður komum okkur fyrir í París um haustið. Ég hélt áfram að vinna að stóru vísindaskáldsögunni minni og við Kjartan byrjuðum á framhaldi Ormstungu einnig. Melankólían túraði áfram um Frakkland, við sýndum í Angers, St. Foix og Strasbourg.

Það var eftir sýningu í Strasbourg sem ég heyrði um Bataclan skotárásina. Við komum úr leikhúsinu skammt frá evrópuþinginu og sáum stóran hóp fólks fagna. Strasbourg liðið í körfubolta hafði víst unnið leik á móti Real Madrid og það var þjóðhátíðarstemming í borginni. Við tókum sporvagn með aðdáendum liðsins og dönsuðum með þeim út á götu þar til allt í einu lætin þögnuðu, og einn af öðrum kveikti á snjallsímanum sínum og störðu í losti á fréttirnar. 

Við rifumst inn á veitingastaðnum og svo morguninn eftir hvort að við ættum að aflýsa Laugardagssýningunni. Þetta minnti á umræðurnar sjöunda janúar, var það vanvirðing eða ekki að skemmta fólki og fá það til að hlæja. Í báðum tilvikum er ánægður með að við skyldum ekki hafa aflýst. Þeir áhorfendur sem komu höfðu þörf á því að fara út og gleyma sér. Það var aldrei hlegið né klappað jafnmikið og nú. 

Þetta fékk mig til að velta fyrir mér því ótrúlega jákvæða sameiningarafli sem listin er. Ég er ekki mikið fyrir að veifa þjóðfánum eða biðja til guðs. Það eru þægileg sameiningartákn, en trú og þjóðernishyggja eru rót vandans. Listin hins vegar getur gefið fólki ekki bara tilfinningalega fróun heldur líka fengið mann til að hugsa.

Listamenn verða að svara þeim öfgaöflum sem þrá að eyða öllu í kringum sig. En ekki bara listamenn heldur við öll. Því miður hefur svar stjórnmálamanna verið skammsýnt og heimskulegt. Meira um það síðar.

Ég mun seint gleyma því aðfangadagskvöld sem ég fór á alvöru ballett í fyrsta sinn í Parísaróperunni. Það er dýrt, en peninganna virði. Ég ber ekkert nema takmarkalausa virðingu fyrir þeim sem fórna lífi sínu og limum til að hægt sé að horfa á svona mögnuð fyrirbæri. Næsta verk Rebel Rebel mun líka taka sérstaklega fyrir ballettinn og opinbera kjarna hans. (Þið megið byrja að vera spennt núna).

Það er eflaust eitthvað sem ég gleymi í þessari upptalningu. Ef einhver myndi spyrja mig út í hvað markverðast væri á árinu í sviðslistaheimi Íslands myndi ég benda á tvö verk: Annars vegar The Valley og hins vegar The Lover eftir Báru Sigfúsdóttur.

The Lover var frumsýnt á Performatik í Brussel fyrr á þessu ári og er stórfengleg danssýning sem verður að flytja inn til Íslands einhvern tímann. Ekki bara af því Bára er með sérstæðan dansstíl, heldur líka út ótrúlega einfaldri en hrífandi sviðsmynd byggðri á ljósmyndum Noemie Goudal. Ég skora á listahátíð Reykjavíkur að tékka á þessu verki.

Önnur góð sviðsverk sem ég sá á árinu finnst vert að nefna eru Schönheitsabend á Lókal og RVK dancefestival í Ágúst, Meanwhile eftir Gaetan Rusquet og That´s It eftir Joelle Tournelinckx sem ég sá á Performatik, Fin de Louis eftir Joelle Pommerat í Nanterre Amandiers, Ég dansa og gef ykkur að borða-sólóið hans Rahdouane El Meddeb á TBA í Portland, 90210 Garðabær eftir Heiðar Sumarliðason í Þjóðleikhúsinu, og Black og No Title Mette Edvardsen í Tjarnarbíó á RVK dancefestival í haust.

Annað sem stendur augljóslega upp úr er fenómenið sem skapaðist í kringum fyrsta árs verkefni í listaháskólanum, sem ég skrifaði um hér, og svo feneyjartvíeyrings-fíaskóið. Það er ótrúlegt að sama ár og ritstjórn Charlie Hebdo var myrt skyldi ritskoðun viðgangast á stærsta myndlistarviðburði Evrópu. Það olli mér vonbrigðum að menntamálaráðherra skyldi ekki rísa málfrelsinu til varnar, rétt eins og það hlýtur að valda okkur öllum vonbrigðum að hvorki forseti, forsætisráðherra né utanríkisráðherra þáðu boð um að taka þátt í samstöðugöngunni sem ríkisstjórn Frakklands bauð þeim í. Menn hljóta eiginlega að spyrja sig hvort ríkisstjórnin sé með eða á móti málfrelsi í þokkabót.

Af þeim bókum sem ég náði að lesa sem komu út á árinu þykja mér tvær þýðingar standa upp úr. Annars vegar Ef að nóttu ferðalangur eftir Italo Calvino og í þýðingu Brynju Cortez, svo Spámennirnir í Botnleysufirði eftir Kim Leine í þýðingu Jón Halls Stefánssonar. Ég hef eiginlega ekki komist í nýju íslensku skáldverkin, líkt og árið 2015 var tileinkað því að lesa jólabækur ársins 2014 mun 2016 sennilega snúast mest um 2015. Hlakka bara til.

Endum þetta á smá upptalningu. Hér eru þau blogg sem ég skrifaði þetta árið, þau vinsælustu og athyglisverðustu. Og svo óska ég ykkur öllum farsæls komandi árs að sjálfsögðu.

Nr. 1

Aðgát skal höfð í nærveru frasa

Það má ekki anda á framsóknarmenn, þá fara þeir að vitna í Einar Ben.

Nr. 2

Er listnám þess virði?

Þeir sem leggja fyrir sig listnám á Íslandi þurfa að borga svívirðilega há skólagjöld. Það er ekki sanngjarnt að rukka þá sem læra myndlist eða leiklist meira en lögfræðinga eða viðskiptafræðinga. Ekki bara af því tekjumöguleikar hópanna eru allt aðrir, heldur af því menntun ætti að vera ókeypis fyrir alla.

Nr. 3

Íslenska elítan

Á Íslandi tilheyra allir elítunni, og enginn.

Nr. 4

Að elska Ísland eða ekki?

Er hægt að elska Ísland og hata heilbrigðiskerfið? En Lagarfljót?

Nr. 5

Þarf nýtt listasafn Íslands? 

Já.

 

P.S.
Svo að lokum finnst mér að við ættum að hætta að senda fólk í einangrunarvist að ástæðulausu. Og senda Angelo heim fyrir áramót.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni