Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Af óvinsælum skoðunum

Hef verið að velta vöngum yfir óvinsælum skoðunum upp á síðkastið. Það er ekki skrítið að upplifa það sem kúgun þegar stór hluti fólks snýst gegn manni fyrir að segja eitthvað óvinsælt, jafnvel þegar það er verðskuldað óvinsælt eins og karlremba, rasismi eða ranghugmyndir hreinlega eins og að álíta jörðina flata.

Ég hef skrifað talsvert um málfrelsið í gegnum tíðina. Einn fyrsti pistill sem ég skrifaði um það var fyrir leiklistar-vefinn reykvelin.is, en í þá daga skrifaði ég eiginlega aldrei um stjórnmál (þrátt fyrir að hafa verið mjög aktívur sem mótmælandi), heldur skrifaði þeim mun meira um listir og menningu. Svo dag einn skrifaði ég pistil sem hét Hótunarsamfélagið. Það gerðist í kjölfarið á því að þingkona hótaði listamanni sem hafði móðgað hana og marga framsóknarmenn. Hótunin sneri að lifibrauði listamannsins, þetta var hótun um að hann fengi ekki lengur úthlutað styrkjum. (Ég set pistilinn sem DV endurbirti í hlekk fyrir neðan).

Þessi þingkona stofnaði svo ásamt Óttarr Proppé félag jákvæðra þingmanna. Þingmanna sem áttu að standa saman í því að tala jákvæðar um hlutina. Þar hugsaði ég í fyrsta sinn með mér að Óttarr væri einhver einfeldningur, fram að því hafði hann í mínum augum litið út fyrir að vera snjall ræðumaður og skynsamur náungi. En hann lét í raun plata sig inn í klúbb sem snerist um þöggun. Fólk hefur réttinn á að móðgast, rétt eins og allir hafa rétt á að móðga.

Næsti pistill sem ég skrifaði um tjáningarfrelsis-mál snerist um leikhús líka. Í Póllandi er komin til valda hættuleg hreyfing sem kennir sig við lög og rétt, en hefur hirt borgararéttindi af konum (bannað fóstureyðingar), ráðist harkalega gegn fjölmiðlum og litið undan þegar fylgismenn hreyfingarinnar hafa beitt lækna sem framkvæma fóstureyðingar ofbeldi. Auðvitað má fólki finnast allt sem það vill um fóstureyðingar. En fylgismenn Lög og Réttlætis eru ekki lengur hugsjónafólk þegar þau beita ofbeldi, það er mikilvægt að muna.

Grein mín Lautarferð á Golgota er ekki aðgengileg í augnablikinu en hún sagði frá því hvernig Argentínsk-franskur, Rodrigo Garcia, leikstjóri sem kom að listahátíð í Póllandi þurfti að hætta við sýningar á verki um Jesú Krist. Aðalástæðan var sú að stjórnvöld voru andvíg sýningunni og lögreglan aðhafðist því ekkert í sprengjuhótunum og öðru slíku. Þarna þurfti ekki lög til að ritskoða, heldur reiðan múg og aðgerðaleysi stjórnvalda. (Til samanburðar lýsti ég því hvernig sambærileg verk í Frakklandi voru mjög vernduð fyrir reiðu, trúuðu fólk, en Frakkland eins og við vitum hefur sögu af ansi skæðu ofbeldi gegn listamönnum, en að sama skapi líka lögreglu sem stendur með listafólki).

Þriðja greinin sem ég man eftir skrifaði ég þegar ég var hluti af alþjóðlegum leikhóp sem átti að sýna í París daginn sem árásin á Charlie Hebdo átti sér stað. Það var líka fyrsti pistill minn hjá Stundinni.

Það er erfitt að lýsa öllum þeim tilfinningum sem koma upp þegar maður er staddur í borg sem hefur orðið fyrir hryðjuverkaárás. Það veldur mér áhyggjum að hryðjuverka-aldan 2015 hafi laskað tjáningarfrelsi í Frakklandi, t.d. hvernig ákæruvaldið hefur tekið fyrir grínistann Dieudonné, á grundvelli laga um hatursorðræðu.

Nú er ég ekki öfgamaður sem tel að tjáningarfrelsi eigi að vera skilyrðislaust. Allar hvatningar til ofbeldis eiga að vera ólöglegar. Það er ekki lögmæt tjáning að hóta einhverjum nauðgun, barsmíðum eða sprengingum. Og ekki viljum við heldur leyfa fólki að ljúga, hvort sem það varðar vörusvik eða meiðyrði. Enginn verðskuldar að missa mannorð sitt eða láta blekkjast.

En tjáningarfrelsi er rétturinn til að segja óvinsæla hluti. Stundum gerist það að margir sameinast gegn þeim sem segir hið óvinsæla. Ef það er valdamikil manneskja með öflugt bakland getur maður kannski yppt öxlum, en ég dáist að því þegar Halldóra Mogensen varði rétt einstæðrar móður til að tjá efasemdir um bólusetningar. Bólusetningaefasemdir eru að mínu mati á svipuðu stigi og fólk sem trúir að jörðin sé flöt eða að gróðurhúsa-áhrifin séu fölsun. Þegar meirihluti fólks er á öðru áliti þá er alveg eðlilegt að gefa minnihlutahópnum smá svigrúm. Með því meina ég ekki að maður eigi ekki að andmæla, en maður má gæta eigin tilfinninga og muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar. (Já, ég hef líka skrifað pistil um hvernig sá málsháttur getur verið misnotaður).

Nú hef ég sjálfur skoðun sem mig grunar að sé bæði vinsæl og óvinsæl eftir því hvar fólk stendur á pólitíska litrófinu. Tjáningarfrelsi stendur alltaf höllum fæti, alltaf og jafnvel úr öllum áttum.

Ég tel það algjöra svívirðu að lögbann á fréttaflutningi Stundarinnar standi enn yfir. Þetta er okkar samfélagi til skammar, alveg jafnmikið til skammar og þegar Þorgeir Þorgeirson fékk ekki að skrifa um lögregluofbeldi.

Ég tel dóm hæstaréttar þar sem m.a. setning í kommentakerfi: „ógeðslegt að innræta í börn hvernig kynvillingar eðla sig í rúminu“ er úrskurðuð hatursorðræða, vera ranga niðurstöðu. Ég er ekki lögfræðingur og það getur verið að lög á Íslandi megi túlka þannig að þarna fari fram ólögleg tjáning, en ég á erfitt með að skilja hvernig það standist ákvæði í stjórnarskrá sem tryggja eigi málfrelsi. Þarna eru ekki skoðanir sem ég er sammála (og í raun óþarfi að ég taki það fram), en þarna er ekki verið að hvetja til ofbeldis eða ógna neinum, án þess þó að ég vilji gera lítið úr því að þessi orð geti verið móðgandi eða særandi. Þessi orð eru einungis þeim sem lét þau út úr sér til skammar, og það er ekki maður sem er í neinni stöðu til að hafa áhrif á íslenskt samfélag. Þess vegna tel ég rangt að við sem samfélag tökum hann út fyrir sviga og refsum fyrir orð sín.

Það er staðreynd að öflugir hagsmunahópar og stjórnmálafjölskyldur geta misnotað dómsvaldið til að stöðva fréttaflutning. Það er líka staðreynd að við sem samfélag á félagsmiðlum og annars staðar förum oft með offorsi gegn fólki sem hefur skoðanir sem dottnar eru úr tísku. Við þurfum fleira stjórnmálafólk sem óttast ekki að mæta í viðtöl til fjölmiðla og er ekki hrætt við fréttaflutning. Og við þurfum sjálf að hugsa okkur tvisvar um áður en við viljum banna eitthvað sem móðgar okkur.

Í raun ættum við að vera þakklát í hvert sinn sem við lesum eitthvað sem gerir okkur reið eða móðguð. Það sýnir að við erum ekki algjörlega föst inn í búbblu, umvafin já-kór, og líka að við búum í frjálsu samfélagi. Í ófrjálsu samfélagi þarf enginn nokkurn tímann að móðgast.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni