Speenhamland tilraunin
Margt hefur verið gert í gegnum tíðina til að reyna að minnka fátækt, en minna hefur verið gert til að uppræta hana. Helsta orsök fátæktar er að fólk á enga peninga. Þó ganga flestar tilraunir til að minnka fátækt ekki út á að leysa það vandamál. Í staðinn er gengið út frá því að fólk sé latt og misheppnað, og að nóg af störfum sé í boði fyrir fólk sem nennir að leita.
Flestar nálganir við meðhöndlun fátæktar ganga því út á að hvetja fólk til einhverrar hegðunar sem er ekkert víst að sé rökrétt í samhengi hagkerfisins á hverjum tíma. Til dæmis, ef það eru ekki nein verkamannastörf í boði, en það er eftirspurn eftir menntuðum hjúkrunarfræðingum, þá munu tímatakmarkanir á atvinnuleysisbótum og aðrar álíka hvatningar þó ekki gera það að verkum að atvinnulaus húsasmíðameistari fái vinnu. Þetta er augljóst, en einhverra hluta vegna er þetta samt nálgunin sem er tekin.
Ein áhugaverðasta raunverulega tilraunin til að uppræta fátækt var gerð í Bretlandi í kringum 1795. Ýmsir bæir, einkum þar sem fátækt var mikil, tóku upp á svokölluðu Speenhamland kerfi, sem gekk hreinlega út á að gefa fátæku fólki peninga. Árangurinn var mikill um leið, svo mikill að forsætisráðherra Bretlands á þessum tíma, William Pitt hinn yngri (sem varð forsætisráðherra aðeins 21 árs gamall), setti Speenhamlandkerfið í landslög sem viðauka við fátæktarlögin.
En fljótt fór að bera á gagnrýni. Joseph Townsend varaði við að "aðeins hungur getur hvatt og neytt fólk til vinnu," og Thomas Malthus útvíkkaði hugmyndir Townsends með þeirri ábendingu að fólk þyrfti á mat að halda til að lifa af, og kynþörf manna væri óseðjandi. Þar af leiðandi myndi íbúafjöldinn alltaf vaxa hraðar en matarframleiðslan og að lokum myndu allir deyja.
Í ritgerð sinni var Malthus samtímis að gagnrýna Speenhamland kerfið og að tæta í sig skrif tveggja annarra: William Godwin hafði fullyrt að allir ættu að vera jafnir fyrir lögum, óháð fjármunum eða feðrun, og Jean Caritat (markgreifinn af Condorcet) hafði stungið upp á því að lýðræði væri ágætis leið til að tryggja slíkt jafnrétti. Augljóslega voru þeir báðir galnir, og mannkynið gæti eingögu þrifist undir sterkum leiðtoga sem tryggði að allir ynnu sér til matar.
Þrátt fyrir þessa gagnrýni varð Speenhamland kerfið ofan á, og var viðhaft í mörgum héröðum Bretlands. Yfir rúmlega þrjátíu ára skeið hafði margt fátækasta fólk Bretlands sjálfvirkar tekjur. Á sama tímabili var Bretland í stríði við Napóleon, það afnam þrælahald, og iðnvæðingin festist í sessi. Miklar deilur voru uppi í landinu á þessum tíma vegna fátæktar og misskiptingar auðs, ekki síst vegna vélvæðingarinnar, sem var farin að gera marga þjálfaða verkamenn atvinnulausa. Í rauninni svipuðu efnahagslegar aðstæður mikið til dagsins í dag, þar sem sjálfvirknivæðingin virðist ætla að ganga að heilu starfsstéttunum dauðum meðan æ fleiri sökkva í botnlaus skuldafen.
Virkaði tilraunin?
Árið 1832 var ákveðið að gera rannsókn á árangri Speenhamland kerfisins. Skýrslan var upp á 13.000 blaðsíður og sýndi fyrst og fremst að þegar fátæku fólki hafi verið gefinn peningur þá hafi það hætt nær allri vinnu, orðið latt í þeirri vinnu sem það stundaði, byrjað að eyða um efni fram, laun hafi lækkað og fólk hafi orðið siðspillt á ýmsa vegu.
Karl Marx notaði niðurstöður skýrslunnar til að upplýsa þá skoðun sína að stuðningur við fátæka væri aðferð auðmanna til að halda launum niðri, og ýmsir aðrir fræðimenn hafa tekið í sama streng í gegnum tíðina, frá Bentham til Hayeks. Karl Polanyi skrifaði í The Great Transformation að þar til kerfinu var slátrað árið 1834 hafi það komið í veg fyrir samkeppnishæfni á vinnumarkaði.
En einn hængur var á. Skýrslan var skrifuð áður en gögnum var safnað: allar niðurstöður skýrslunnar voru falsaðar. Það kom í ljós að Edwin Chadwick, sem leiddi skýrslugerðina, hafi ekki aðeins verið búinn að semja lagafrumvarp sem miðaði að því að afnema allan stuðning við fátæka, heldur hafi hann líka vísvitandi eingöngu safnað gögnum um árangur Speenhamland kerfisins frá auðmönnum sem nutu ekki góðs af kerfinu (sjá bókina Utopia for Realists e. Rutger Bregman).
Síðar hefur komið í ljós að Malthus hafði rangt fyrir sér um flest: fólk sem er betur statt eignast færri börn, og samhliða tækniframförum þýðir það að matarframleiðsla hefur farið framúr fólksfjölgun.
Afturámóti höfðu Godwin og Caritat rétt fyrir sér: með auknu fjárhagslegu jafnrétti og auknu pólitísku frelsi geta allir haft það betra. Speenhamland kerfið skilaði í rauninni gríðarlegum árangri. Hann dró bæði úr samfélagslegum kostnaði fátæktar, sem er gríðarlegur, og gaf atvinnulausu og heimilislausu fólki grunn til að koma undir sig fótunum.
Fátæktaráætlun Nixons
Þegar Richard Nixon varð forseti Bandaríkjanna hafði hann mikinn áhuga á því að uppræta fátækt. Hann leit svo á að velferðarkerfi væru af hinu illa, en skildi þó hvaða hlutverki þau gegndu í því að minnka fátækt og styrkja hagkerfið. Hann vildi gefa almenningi frelsi til að finna sína eigin leið í gegnum lífið, samhliða því að leggja niður velferðarkerfið í þeirri mynd sem það þá hafði, enda hefur velferðarkerfi bandaríkjanna löngum verið eitt dýrasta og óskilvirkasta velferðarkerfi heims.
Nixon reið því á vaðið með lagatillögu um að koma á svokallaðri skilyrðislausri grunnframfærslu. Hugmyndin var einföld: hver fjölskylda fengi um það bil $1700 frá ríkinu árlega, eða sem nemur rúmlega $10000 að núvirði. Þessi upphæð myndi ekki búa neinum sældarlíf, en hún myndi fara nokkuð langt með að tryggja fólki húsaskjól og mat.
En tillagan náði ekki fram að ganga. Þótt neðri deild þingsins hafi samþykkt frumvarpið, þá hafnaði efri deildin því -- ýmist af þeim sökum að þetta væri argasti kommúnismi, eða öðrum kosti vegna þess að það gekk ekki nógu langt. Tillagan var því felld, ekki einu sinni, heldur þrisvar.
Það er svolítið skrýtið að hugsa til þess að einn íhaldssamasti forseti Bandaríkjanna hafi reynt að koma á svona róttækri hugmynd, en þetta er alveg dagsatt.
Eftir þrjár tilraunir gafst hann þó upp. Svo kynnti starfsmaður Hvíta Hússins fyrir honum Speenhamland-skýrslu Chadwicks, sem hafði lesið um hana í bók Polanyi. Eftir það hætti Nixon alfarið við þessa hugmynd. Um þetta leyti var margt annað að gerast í heiminum, en Nixon hleypti til að mynda dollarnum á flot með afnámi gullfótsins, stofnaði umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna, og felldi svo sjálfan sig með Watergate málinu.
Frá þessum tíma hefur orðið mikil afturför í málefnum fátækra. Uppgangur Reagans og Thatchers voru undanfarar mikilla breytinga í vesturheimi sem settu fátækt í síðasta forgang. Thatcher gekk svo langt að reyna að koma á tilvistarskatt -- skatt sem fólk átti að borga fyrir það eitt að vera til; í rauninni andhverfu skilyrðislausrar grunnframfærslu. Henni tókst það þó ekki, og það mál varð henni að falli, en arftaki hennar, John Major, var fljótur að koma tilvistarskattinum á (þótt hann heiti "svefnherbergjaskattur"), og er hann í gildi í Bretlandi til þessa dags, þar sem þessi skattur hefur reynst mikil fátæktargildra.
Fátækt er ekki náttúrulögmál, heldur aukaverkun ákveðinna stjórnkerfa. Speenhamland tilraunin, og andhverfa tilraun Thatchers og Majors, sýna að það má fara ýmsar leiðir. Þessi grein er í sjálfu sér ekki rök fyrir því að taka upp skilyrðislausa grunnframfærslu (það kemur síðar!), en hún vekur vonandi fólk til umhugsunar um að hægt sé að hugsa á skapandi hátt um auðlegð almennings, og það er jafnvel hægt að finna ágætis lausnir í sögubókunum.
Athugasemdir