Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Þrílemmuáhrifin á peningastefnu Íslands

Í nýlegri grein Vilhjálms Bjarnasonar þingmanns í Morgunblaðinu lýsti hann hugmyndum um sjálfstæða peningastefnu í opnu hagkerfi, og talar undir lokin fyrir meiri stöðugleika. Nú er þekkt í hagfræði fyrirbæri sem kallast þrílemman (e. Impossible Trinity), en hún segir að ekki sé samtímis hægt að hafa frjálst flæði fjármagns, sjálfstæða peningastefnu, og stöðugt gengi. Það má velja hvaða par sem er, en það útilokar þá þriðja kostinn.

Þrílemman neyðir okkur til að spyrja hvað af þessu þrennu skiptir minnstu máli fyrir íslenskt hagkerfi, og sitt sýnist hverjum. Lengst af frá lýðveldisstofnun hefur frjálst flæði fjármagns verið látið mæta afgangi, með tilheyrandi gjaldeyrishöftum, en í aðdraganda hrunsins reyndu menn að fá heilu þrennuna, sem auðvitað gekk ekki til lengdar: kerfið hristi sig í sundur að lokum, að vísu með mikilli hjálp bankamanna og áhættufjárfesta.

Að loka fyrir frjálst flæði fjármagns hefur ýmis neikvæð áhrif á innra hagkerfi landsins. Það verður snúnara fyrir framleiðslufyrirtæki að flytja inn nauðsynleg hráefni, og þurfa að sækja um heimild frá seðlabanka í hvert skipti. Það torveldar þá verðmætasköpun og þar af leiðandi útflutning. 

Fyrir einhverjum áratugum voru ákveðnir aðilar áskrifendur að undanþágum frá gjaldeyrishöfum, og gekk þeim vel, en aðrir þurftu að gjöra svo vel að bíða eftir að það væri komið að þeim, og útskýra þá hvers vegna þeir vildu fá erlendan gjaldeyrir. Þetta ýtti vissulega undir samþjöppun í eignarhaldi.

Í höftum nútímans virðist fyrirkomulagið töluvert sanngjarnara, en það eru engu að síður ótalmargar sögur af því hvernig fólk hefur lent í höfnun Seðlabankans út af formsatriðum. Meðan eðlilegt er að viðhalda slíkum formsatriðum út frá núverandi haftastefnu, þá getur það verið gríðarlega óþægilegt og jafnvel lítillækkandi fyrir fólk.

Til að stytta sér leið hjá höftunum og njóta góðs af gengisflöktinu selja þeir sem það geta núorðið vörur úr landi til fyrirtækis í eigin eigu erlendis, oft á undirverði, og selja svo áfram innan frjálsa hagkerfisins þar á markaðsverði; mismunurinn verður eftir í erlenda fyrirtækinu. Þetta leyfir þeim að safna góðum gjaldeyrisforða erlendis. Þá eru vörur seldar til Íslands í gegnum sömu fyrirtæki, og þá geta eigendurnir hirt gengismismuninn öðru hvoru megin haftanna. Útkoman verður sú að stærri aðilar þurfa lítið að hirða um gjaldeyrishöftin, meðan þeir minni sem geta ekki nýtt sér svona fyrirkomulag eru í verri stöðu.

Píratar gera sér grein fyrir mikilvægi fjármálastöðugleika fyrir landsmenn og viðskiptalífið sem og göllum gjaldeyrishafta sem koma til vegna okkar agnarsmáa gjaldmiðils og hingað til veikrar peningamálastjórnunar. Því verðum við að leggja áherslu á frjálst flæði fjármagns og stöðugt gengi. Stöðugt gengi gagnvart til dæmis dollar eða evru myndi hjálpa bæði fyrirtækjum og fjárfestum að spá fyrir um framtíðina, og liðka fyrir stækkun hagkerfisins.

Þá stendur aðeins einn liður þrílemmunar eftir: sjálfstæð peningastefna.

Með sjálfstæðri peningastefnu hefur ríki gegnum seðlabanka (réttnefni væri miðbanki e. central bank) virka stjórn á peningamagni sem er í umferð innan hagkerfisins. Hlutverk miðbankans er að veita peningum til viðskiptabanka og lánastofnana og notar helst stýrivexti (verð peninganna) til að stýra ásókn lánastofnana í fjármagn. Verðlagning miðbankans á peningum (stýrivextir) stýrir eftirspurn á markaði sem hefur bein áhrif á verðlagsmyndun vöru og þjónustu (verðbólgu) í landinu. Stýrivextir hafa reynst veikburða tæki á Íslandi og hafa í besta falli róað ákveðið flökt í hagkerfinu, en ekki skapað þann stöðugleika sem við viljum fá.

Ég spyr því hvort hin sjálfstæða peningastefna Íslands geti ekki orðið hálf-sjálfstæð með því að fella ýmsa þætti hennar undir peningastefnu stærra hagkerfis, vitandi það að stýritæki þeirra er yfirgripsmeira í samanburði við íslenska hagkerfið.

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur hefur verið einn þeirra sem talar fyrir upptöku Kanadadollars í stað íslenskrar krónu. Mér hefur fundist rök hans fyrir því veik. Hann fullyrðir m.a. að vaxtakostnaður neytendalána lækki við það. Það getur verið að það sé satt, út frá því að stýrivextir í Kanda eru 0.50% í dag, samanborið við 5.75% vexti Seðlabanka Íslands. En ef það eru rökin, þá ætti Evra sömuleiðis að heilla með sína 0.00% stýrivexti.

Það er þó önnur leið sem mér þætti áhugaverð, en það er lausbinding krónunnar við annan gjaldmiðil, til dæmis evru.

Í dag eru gjaldmiðlar tuga landa bundnir við gengi evrunnar, en með mismundi hætti. Einhverjir, til dæmis bosníska markið og CFA frankinn, eru fastbundnir, og mega því ekki flökta neitt. Viðhald slíkrar bindingar getur verið dýr fyrir seðlabanka, því allt flökkt þarf að jafna út með gjaldeyrisviðskiptum seðlabanka á móti. Svoleiðis fyrirkomulag hefur stundum verið kallað myntráð.

Danska krónan er afturámóti lausbundin við evruna, háð þeirri reglu að krónan megi flökta 2.25% til eða frá gengi evru miðað við fyrirframákveðið gengi; slíkri lausbindingu er ódýrara að viðhalda, því það þarf ekki að bregðast jafn ákaft við flökti.

Króatíska kúnan er einnig lausbundin, en fylgir því sem er kallað skriðfyrirkomulag. Í stað þess að leyfa flökt innan ákveðinna marka er leyft ákveðið mikið flökt innan ákveðins tímabils; kúnan miðast því ekki við fast gengi gagnvart evru, heldur er meðaltal gengisins yfir ákveðinn tíma viðmiðunarpunkturinn. Þetta gerir það að verkum að gjaldmiðillinn getur smám saman aðlagast breyttum markaðsaðstæðum án þess að fólk upplifi mikið flökt á hverjum tíma.

Ég hallast að því að lausbinding íslensku krónunnar við evru sé eðlileg nálgun, til að byrja með. Hvort skriðfyrirkomulagið eða hefðbundnari lausbinding henti betur þarf að kanna. Þessi aðgerð myndi fela í sér að Ísland gæti til lengri tíma viðhaft það opna hagkerfi og þann stöðugleika sem Vilhjálmur og fleiri hafa óskað sér, og eini fórnarkostnaðurinn eru himinháu stýrivextir Seðlabankans.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni