Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Land mjólkur og fisks

Land mjólkur og fisks

Ísland er forríkt af einokun. Fákeppni á markaði hefur lengi fólgist í að samtök, oftar en ekki pólitískt tengd, koma sér upp margskonar yfirburðastöðu, oft með lagalegri vernd. Slíkir aðilar nýta stöðu sína og lögin til að hindra framgang annarra sem sækja inn á markað.

Sumir segja að þetta sé vegna þess að við séum svo lítil. Það eru það fáir sem starfa í ákveðnum atvinnugreinum á Íslandi, að það er óhjákvæmilegt að markaðsráðandi staða komi upp hjá þessum hópum. Þannig er sagt að Mjólkursamsalan sé eðlileg afleiðing af því að þeir örfáu kúabændur sem störfuðu á Íslandi þurftu að hefja samvinnu um að fá sem best verð fyrir vöruna sína. Þannig eru Samtök Fyrirtækja í Sjávarútvegi (SFS) eðlileg afleiðing þess að þeir örfáu kvótaeigendur sem eru á Íslandi vildu koma saman og verja sína hagsmuni gegn þeim sem vildu breyta úthlutunarreglum kvótakerfisins.

En ef maður skoðar aðeins nánar, þá reynist þetta allt vera afleiðing þess kerfis sem hefur verið sett upp vísvitandi til að þjónusta hagsmunum þeirra sem eru fyrir í hverri stétt. Á einhverjum tímapunkti var hagsmunum landsins fórnað á altari sérhagsmuna hópa sem fengu pólitískt umboð til að viðhalda fáræði á mörkuðum, draga úr nýliðun og slátra öllu sem gæti í raun kallast frjáls markaður.

Allsstaðar í heiminum hefur umfang vinnuafls í landbúnaði og sjávarútvegi minnkað með aukinni iðnvæðingu. Inn á þetta atriði kemur Jens Garðar Helgason, formaður SFS, í nýlegri grein þar sem hann réttlætir samþjöppunina sem hefur orðið í sjávarútvegi með því að hér sé um skilvirkni að ræða. Hugmyndir um nýliðun eru bara, að hans sögn, rómantískur smáborgaraháttur. Undir þetta hafa fáir ungir bændur og sjómenn tekið, í minni reynslu: fólk sem berst fyrir því að draga afla úr sjó til að afla sér viðurværis eða fá smá landspildu undir nokkrar kýr og koma upp búi, sem vita þó innst inni að kerfið er vísvitandi stillt upp til að þeir geti aldrei orðið stórbændur eða útgerðarmenn. Það er bara ekki í boði: rómantíkin var urðuð undir altari Mammons.

Mjólkurveldið

Árið 1980 voru um 2400 mjólkurbændur á Íslandi. Í dag eru þeir um 650 talsins. Fækkunin hefur verið um 4% á ári yfir þetta næstum fjörtíu ára tímabil. Þessi þróun helst í hendur við almenna þróun í landbúnaði yfir tímabilið, en það rokkar fram og til baka hversu stóran þátt mjólkurbændur eiga í heildinni: það náði hámarki 1993, þegar um 24% starfsfólks í landbúnaði unnu við mjólkurframleiðslu (Mjólkurskýrsla, maí 2015).

Yfir sama tímabil jókst framleiðsla markvisst: frá 2003 hefur heildargreiðslumark á mjólk aukist um rúmlega 35%, en það er sú tala sem íslenska ríkið er tilbúið til að niðurgreiða samkvæmt búvörusamningi. Árið 2015 stóð sú tala í 140 milljón lítrum á ári; 140 milljón lítrum af dásamlegri mjólk sem mætti nota í margvíslegt góðgæti.

Heildargreiðslumarkið er mikilvæg tala: hún ákveður hversu mikla mjólk ríkið borgar fyrir. En hverjir ákveða heildargreiðslumarkið?

Samkvæmt lögum 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, þá er heildargreiðslumarkið áætlað út frá neyslu undanfarins árs og áætlunum Bændasamtaka Íslands um mjólkurþörf komandi árs. Ekki ríkisins, heldur Bændasamtaka Íslands. Það er að segja, samtök bænda ákveða sjálf hversu mikið ríkið mun borga mjólkurbændum.

Auðvitað kemur fleira til, og það mætti fara endalaust djúpt ofan í pælingar um umframframleiðslu, óframleiðslutengda styrki, innflutningstolla, starfsskilyrði og áhrif búvörusamninga, en látum það liggja milli hluta hér.

Grunnatriðið er þetta: komin er upp sú staða á Íslandi að lítill hópur fólks hefur nánast fullkomið vald yfir mjólkurframleiðslu á Íslandi. Það eru þó ekki þessir 650 mjólkurbændur sem eftir eru, sem þræla undir skilyrðum kvótakerfis sem setur þeim hámarkssöluverð á mjólkinni og setur kvótareglur sem takmarkar möguleika þeirra á að stækka. Þvert á móti eru það Mjólkursamsalan og Kaupfélag Skagfirðinga, sem reka afurðastöðvarnar sem versla með mjólkina. Afurðastöðvar eru undanþegin mörgum ákvæðum samkeppnislaga, og misnota stöðuna sína villt og galið eins og sést hefur að undanförnu. Þessu verður að breyta.

Fiskiveldið

Fyrir nokkrum vikum voru 1600 þroskígildistonn seld úr Þorlákshöfn eftir að HB Grandi keypti kvótann af Hafnarnesi á tæplega fjóra milljarða króna. Þessi tilfærsla virðist ætla að vera til hagsbóta fyrir byggð á Vopnafirði, en ekki er enn sem komið er ljóst hvaða þýðingu þetta hefur fyrir byggð á Þorlákshöfn. Það má leiða líkum að því að bolfisksvinnsla leggist af í Þorlákshöfn í kjölfarið. Nú ganga sögur um sem eiga að skýra hvernig það kom til að Hafnarnes, sem á að hafa verið í góðum rekstri, hafi ákveðið að selja frá sér mikilvægustu eign sína, en enn sem komið er eru engar sannanir til staðar.

Það er engu að síður full ástæða til að spyrja sig að því hvaða tilgangi þetta kvótabrask þjónar. Geimverur sem kæmu til jarðar til að velta fyrir sér hinar ýmsustu mannlegu stofnanir ættu líklegast ekki í neinum vandræðum með að skilja tilgang vegakerfisins, lögreglu, eða skóla, en myndu eflaust hika þegar þau sæju kvótakerfið. Líkt og gimsteinn úr alexandríti lítur það mismunandi út eftir því hvernig horft er á það. Frá sjónarhorni kvótaeigenda er þetta heimild frá ríkinu til að vinna auðlind út sjónum. Frá sjónarhorni þess fólks sem hefur atvinnu af því að vinna auðlindina úr sjónum er þetta forsenda þess að það fái laun. Frá sjónarhorni flestra annarra er þetta undarlega ósanngjarnt kerfi sem leyfir fáum að græða óspart meðan allir aðrir sitja eftir.

Þegar mótmæli voru á Austurvelli gegn upptöku veiðigjalds á sínum tíma, þá frétti ég af því úr nokkrum útgerðum að starfsfólki hafi verið gefið eins til tveggja daga frí og frítt far í bæinn, að því skyldu að það myndi mæta í mótmælin. Var þetta gert í nafni starfsmannafélaga á einhverjum stöðum, en þó oft án heimildar stjórna viðkomandi félaga. En fólk mætti að sjálfsögðu, ánægt með að fá smá frí frá vinnu.

Mikið af þessu sama fólki sem mætti á mótmælin, meðal annars sjómenn sem sátu á flautunni í Reykjavíkurhöfn, hafa staðið frammi fyrir öðru vandamáli: þau fá borgað eftir vigt aflans, en þá er reiknuð ákveðin ísprósenta sem kemur til frádráttar þyngdinni. Ísprósentan getur verið misjöfn, en hjá einhverjum útgerðum er hún alltaf reiknuð frekar rúmlega, þannig að útgerðin borgar minna fyrir sjómennskuna og heldur eftir meiri gróða. Fleiri sambærileg svindl eiga sér staðar hist og hér í kerfinu. Allir vita af þessu -- enginn sem vinnur í sjávarútvegi lætur sér koma þetta á óvart. En fáir þora að segja frá þessu, því lífið liggur við.

Þegar við tölum um fiskiðnaðinn tölum við gjarnan um stórar útgerðir, togara og sjómenn, trillukarla og aflahlut og afkomu og allskonar. Við tölum þó nánast aldrei um hver tilgangurinn er. Það virðist í rauninni ekki skipta neinu máli, meðan kvótagreifarnir hagnast. Samfélögum má fórna, fólki má fórna, öllu má fórna. Þarna má ugglaust bæta úr málum. 

Lundabúðin við Laugarveg

Það er allt morandi af lundabúðum og lattesölustöðum við Laugarveg. Ef þú myndir ákveða að fara í slíkan rekstur í dag, þá myndi íslenska ríkið ekki niðurgreiða reksturinn á því. Þú þyrftir að standa undir öllum kostnaði við að verða þér úti um húsnæði, ráða starfsfólk og kaupa inn söluvarning. Þú fengir ekkert sérstakt borgað frá ríkinu eftir því sem þú selur meira af uppstoppuðum lundum, né heldur myndi ríkið setja þér sölukvóta, sem þú gætir selt til annarra lundabúða sem eru búin með kvótann sinn, á uppsprengdu verði að sjálfsögðu. Nei. Þú þyrftir að standa eða falla með þínum rekstri.

Rökin fyrir beinum fjárstuðningi við bændur og fiskikvótabraski eru fyrst og fremst tvennskonar. Annars vegar er sagt að bændur gætu ekki lifað af á Íslandi ef það væri ekki fyrir beingreiðslur og annarskonar markaðsinngrip á borð við innflutningstolla (sem flestir eru nú afnumdir) og greiðslumark. Hins vegar er sagt að ef það væri ekki fyrir kvótabrask þá myndi markaðurinn verða óskilvirkari.

Sumsé: sumum finnst að ríkið verði að tryggja ákveðnum aðilum sérstæða fákeppnisstöðu og leyfa þeim aukinheldur að kaupa og selja réttindi til að nýta fákeppnisstöðuna, því annars fari allt á hausinn.

Mönnum þætti það skrýtið ef eigendur lundabúða á Laugarvegi heimtuðu að svona reglur væru settar. Að Samtök Uppstoppaðra Lundaseljenda við Laugarveg (SULL) myndu fara fram á þrjátíu krónum frá ríkinu fyrir hvern seldan lunda, eða að eigendur nýrra búða þyrftu að kaupa kvóta af gömlu búðunum til að mega fara að selja.

En þetta er engu að síður staðan í tveimur af okkar mikilvægustu iðngreinum á Íslandi.

Frelsun markaðarins

Eftirspurn eftir greiðslumarki mjólkur -- mjólkurkvóta -- hefur dregist saman verulega á síðustu árum, að líkindum vegna þess að mjólk umfram kvóta var að fá svipað verð á markaði og greiðslumarksmjólkin. Þessi breyting er líklegast til komin vegna þess að nokkrir smærri aðilar hafa rutt sig inn á markað að undanförnu og storkað mjólkurveldinu. Þessir uppreisnarseggir hafa skapað aðstæður þar sem neytendur hafa meira úrval, og kvótabrask borgar sig síður.

Sambærileg hreyfing hefur ekki orðið í sjávarútvegi. Að hluta til er það vegna þess að það er grundvallarmunur á nýtingu á takmarkaðri auðlind í mikilli eftirspurn sem fiskurinn er, og fræðilega ótakmarkaðri framleiðslu á vöru sem hefur takmarkaða eftirspurn, sem mjólkin er. Heimsmarkaðsverð á fiski stjórnar þó verðmæti kvótans, þannig að í stóra samhenginu er þetta furðusvipað.

Það er þó til leið að frelsun markaðarins undan fákeppni og einokun, sem jafnframt getur gefið af sér mikil auðæfi fyrir land og þjóð.

Í fyrsta lagi þarf að fara að hugsa um mjólkina miklu meira eins og við hugsum um fiskinn. Þetta er ekki einnota framleiðsla sem er einskis virði utan Íslands. Í Frakklandi er heilt hérað með svipaða íbúatölu og Ísland allt undirlagt af framleiðslu á einni ostagerð. Víða í heiminum eru mjólkurvörur framleiddar til útflutnings í verulegu magni. Það er því sárt að hugsa til þess að í Bandaríkjunum, þar sem skyr er að verða sífellt vinsælli mjólkurvara, er íslenskt skyr ófáanlegt.

Þessari hugsun þarf að fylgja viðhorfsbreyting í landbúnaði. Víðast í heiminum gengur landbúnaður á verulegum ríkisstyrkjum, en það er sammerkt með þeim svæðum þar sem landbúnaðarafurðir eru orðnar að verðmætum útflutningsvörum, að ríkisstuðningur er aðallega í formi styrkja fyrir vöruþróun, markaðssetningu, útvíkkun á framleiðslugetu og endurnýjun á tækjum, frekar en beingreiðslur fyrir lömb eða mjólkurlítra. Nýja Sjáland fór úr kerfi sem er ekki ósvipað því íslenska yfir í sjálfbæran og verðmætan útflutningsiðnað með stefnubreytingu fyrir þrjátíu árum. Öll skrefin voru tekin í rólegheitunum, enginn æsingur, en af skynsemi og þekkingu.

Við getum þetta líka. Smám saman myndi greiðslumarkið skilast út, sem og aðrar framleiðslutengdar greiðslur, og þar með væri fólki frjálst að starfa við matvælaframleiðslu í hvaða stærðareiningum sem best henta. Setja þarf sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga ofar öðru og byggja þannig upp atvinnumarkað sem þjónar samfélaginu í samræmi við markaðslögmál og í sátt við umhverfið. Samspil óhefts innflutnings á matvælum og útflutnings á íslenskum gæðavörum myn jafnframt líklega lækka neysluverð á landbúnaðarvörum innanlands, því framleiðslan myndi leiða af sér minni kostnað vegna yfirbyggingar til lengri tíma. Þetta getur leitt til öflugri og sjálfbærari matvælaframleiðslu á Íslandi.

Í sjávarútvegi þarf að fara svipaða leið markaðsvæðingar. Kvótinn sjálfur þarf að fara á markað, sem og öllum fiski sem veiddur er og landað, þannig að allir í framleiðslukeðjunni fái að njóta réttmæts arðs af sinni vinnu frekar en að fyrirframákveðnir stórgreifar sem hafa hagsmuni af aukinni samþjöppun (og fáu öðru) moki til sín bæði verðmætum og völdum.

Það þarf að huga að mörgu þegar markaðsvæðing þessarra kvótakerfa á sér stað. Þetta þarf einnig að gerast í vel ígrunduðum skrefum, svo að það verði ekki skyndileg röskun á hagkerfi landsins, svo ekki sé talað um atvinnu og afkomu fólks. Það er við því að búast að kvótagreifarnir muni refsa starfsfólki sínu duglega ef vegið verður að eignum þeirra, eins og var gert með sölu á skipum og niðurskurði á framleiðslustöðvum þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók upp veiðigjaldið á sínum tíma. En við megum ekki láta slíkan fantaskap ráða hvert við förum og verðum að vera viðbúin að létta á starfsfólkinu sem harðast verður úti.

En markmiðið er ekki að refsa kvótagreifunum, það verður að vera alveg ljóst. Þeir sem byggt hafa upp stórútgerðir og stór matvælafyrirtæki á Íslandi hefur unnið mikilvægt verk sem hefur skilað landinu miklu (þótt eitthvað hafi horfið ofan í skattaskjól í leiðinni -- og það þarf að taka það alveg fyrir). Það stendur ekki til að taka neitt af neinum, heldur að veita öllum landsmönnum jöfn tækifæri og koma í veg fyrir að einkavæðing verði til þess að meirihluti fólks hafi ekki aðgang að sameiginlegum auðlindum og mörkuðum.

Markmiðið er að búa til sanngjarnt kerfi þar sem allir geta grætt, þar sem þeir nýliðar sem koma inn, hvort sem það er í rómantískum eða viðskiptalegum tilgangi, geta komið sér upp á sama hátt og forverar þeirra. Markmiðið er að búa til kerfi sem stuðlar að sterkum efnahag þar sem landsmenn geta verið öruggir um atvinnufrelsi, viðskiptafrelsi, og heimsklassa velferð.

Þetta er ekki flókið. Fyrstu skrefin eru að gera nokkrar lagabreytingar í landi mjólkur og fisks. Þá fær rómantíkin kannski að rísa aftur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni