Okkur er illt í þjóðarsálinni
Ég skrifaði færslu á Pírataspjallið í gær þar sem ég kvartaði yfir tröllaskap, persónuárásum og fávitalegum umræðum. Fleiri voru sammála mér en ég átti von á og viðtökurnar almennt góðar, en á þreimur stöðum var efni færslunnar ekki bara slitið úr samhengi, heldur sett í algjörlega nýtt samhengi sem á lítið eða ekkert skylt við raunveruleikann. Þetta var á Vísi, á Eyjupressunni, og hjá Morgunblaðinu.
Píratar eru eini stjórnmálaflokkurinn sem rekur opið spjallsvæði þar sem öllum er frjálst að taka þátt. Enginn annar flokkur þorir þessu, því það er erfitt að halda umræðunum á siðmenntuðum grunni, sérstaklega þegar sumir reyna vísvitandi að skemma skynsamar umræður með bulli. Flestir stjórnmálaflokkar reyna að stýra umræðunni út á við og sýna fullkomna mynd af sér. Píratar vita að mannfólk er breyskt og enginn er fullkominn, og það er nákvæmlega ekkert að því að raunveruleikinn fái að njóta sín. Því er Pírataspjallið orðið að ákveðinni endurspeglun á þjóðarsálinni. En það þýðir líka að stundum þarf einhver að setja sig í hlutverk reiða foreldrisins og heimta að fólk hagi sér vel.
Hvers vegna þjóðarsálin er svo heiftug? Hvers vegna er svona erfitt fyrir fullorðið fólk að eiga samtal án þess að úr verði gífuryrtur leðjuslagur? Þetta er alls ekki einskorðað við Pírata -- þvert á móti. Það er alls ekki af ástæðulausu sem Kommentakerfið er svona frábært spil: það fangar og otar gríni að allri þeirri reiði, pirringi og undarlega samhengisleysi sem gegnsýrir alla þjóðfélagsumræðu á Íslandi.
Það er eflaust margt sem spilar inn í, en mig grunar að það hjálpi ekki að sumir helstu fjölmiðlar landsins beinlínis keppist við að mála sótsvarta mynd af öllum andskotanum. Svokallaðir blaðamenn skófla upp hverskyns bulli sem það sér á samfélagsmiðlunum og býr til dramatískar ekki-fréttir, án þess að gera neina einustu tilraun til að fá meiri dýpt. Sjaldnast er hringt í ummælendur, ítrekað er farið með kolrangt mál, og oft er ekki einusinni athugað hvort jafnvel einföldustu fullyrðingar séu réttar.
(Sem dæmi var ég fyrst titlaður aðstoðarmaður þingflokksformanns Pírata í grein á Vísi í gær, sem ég hef aldrei verið -- ég bý ekki einusinni á Íslandi. Svo var það "leiðrétt". Nú er ég titlaður "tölvuhakkari", hvað sem það á nú að þýða. Dylgjur ætlaðar til að gera mig skuggalegan.)
Blaðamannastéttin á Íslandi er ekki öfundsverð. Kröfurnar um framleiðni eru út í hött og pólitíska ægivaldið yfir fjölmiðlunum er skammarleg. En gæði fjölmiðlunar er líka út í hött. Nokkrir fjölmiðlar leggja sig eftir hágæða fréttaflutningi og greiningu, en flestir virðast sáttir við að láta frá sér hvaða rætnu drullu sem er.
Það eru ekki bara fjölmiðlar sem láta svona. Hafið þið fylgst með þeim skrípaleik sem Alþingi er orðið? Það er með ólíkindum að hægt hafi verið að finna svona mikið af fólki sem getur talað viðstöðulaust með rassgatinu.
Eftir að ég póstaði þessari grein á Pírataspjallið var eins og umræðan þar hafi smollið í nýjan farveg. Undanfarinn sólarhring hafa miklar og góðar umræður spunnist upp, og fólk er að hundsa tröllin. Ég mun ekki afskrá mig þaðan í bili -- þetta er fínt. Þjóðarsálin fékk smá valíum og allir eru hressir. Gott mál. Í bili.
En ég óttast að ef samfélagsumræðan bæði á Alþingi og í fjölmiðlum fer ekki að batna mun lítið duga til langs tíma að óska eftir skynsömum umræðum. Það mun koma sá tími þar sem enginn hreinlega man hvernig á að færa rök fyrir máli sínu, vera kurteis og gagnrýninn, og jafnvel stafsetja einföldustu orð. Kommentakerfið étur okkur öll lifandi.
Okkur er illt í þjóðarsálinni og heiftin stjórnar okkur. Þessi heift gefur fávitalegri umræðu forgang, heimilar aumkunarverða blaðamennsku, og leyfir valdhöfum að komast upp með að vera siðlaus mannvond fífl. Þessi reiði varpar skugga á allt sem við gerum. Ísland hefur ekki efni á hamingju.
Við verðum að breyta umræðuhefðinni.
Athugasemdir