Sérfræði ráðgjafa
Það er hægt að sætta sig við pólitískt skipaða ráðherra, að einhverju leyti. Það væri auðvitað æskilegt að þeir hefðu eitthvað til brunns að bera í sínum ráðuneytum, þótt það virðist lítið stundað á Íslandi. Maður biður ekki um mikið -- smá starfsreynslu, örlitla þekkingu á málaflokknum, eitthvað. Bara eitthvað.
Þegar ráðherrar eru svo til vanhæfir í sínar stöður er þó mögulegt að bæta það upp með góðu ráðgjafateymi. Ráðuneytin á Íslandi eru sem betur fer nokkuð vel mönnuð. Ég get ekkert nema gott sagt um þá sérfræðinga sem ég hef átt samskipti við í ráðuneytunum og utanríkisþjónustunni. Þótt ég sé skíthræddur við Humphrey Appleby og allt sem fylgir skrifræði, þá getur maður þó þakkað fyrir þegar skrifræðið er vel stundað.
Pólitískir ráðgjafar eru önnur saga. Það er alls ekki ásættanlegt að pólitískir ráðgjafar ráðherra séu svo innilega illa upplýstir um sinn málaflokk að engar teljandi líkur eru á því að nokkur heilsteypt ráðgjöf komi fram.
Tökum sem alls ekki svo handahófskennt dæmi, nýráðinn aðstoðarmann Gunnars Braga Sveinssonar. Nú efast ég hvorki um gáfnafar né mannkosti Gauta Geirssonar, en ég leyfi mér samt að efast um að hann sé mjög vel upplýstur á sviði alþjóðamála.
Það er kannski svolítið snúið að ímynda sér hvaða eiginleikar eru nauðsynlegir fyrir aðstoðarmann utanríkisráðherra, enda heill heimur af þekkingu sem er nauðsynlegur til að byrja að þræða þann grýtta veg sem alþjóðastjórnmál eru. En mér dettur svosem ýmis grunnatriði í hug.
Í fyrsta lagi væri ágætt að kunna skil á helstu alþjóðastofnunum og alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Sameinuðu þjóðirnar og EES augljóslega, en einnig EFTA, NATO, OSCE, WTO, CoE, OECD, WIPO, Schengen, og svo framvegis. Stórt atriði er að þekkja muninn á Evrópuráði og Ráði Evrópusambandsins. Ég get fyrirgefið hverjum sem er fyrir að kunna hvorki skil á þeim 88 samningum sem Ísland er aðili að varðandi loftferðir, en myndi helst vilja að aðstoðarmaðurinn vissi muninn á Schengen samningunum þremur. Einnig er ágætt að vita um helstu mannréttindasamninga, bæði þeirra sem Ísland er aðili að, og þeirra sem Ísland er ekki aðili að. Einnig er gott að hafa skoðað allaveganna yfirlitið yfir þá samninga Evrópuráðs sem Ísland er aðili að, þótt það sé engum bjóðandi að lesa í gegnum þann stafla.
Næst er gott að þekkja helstu leiðtoga nágrannalanda okkar. Þá meina ég ekki bara að vita um Obama, Merkel, Putin og Cameron, þótt það sé góð byrjun. Nei, það er nauðsyn að kunna skil á Lars Løkke Rasmussen, Mark Rutte, Ernu Solberg og Beatu Szydło. Einnig er mikilvægt að þekkja muninn á Jean-Claude Junker, Donald Tusk og Martin Schulz -- ekki bara nöfnunum, heldur líka því hvaða störfum þeir gegna. Já, Evrópusambandið er með milli þrjá og sjö forseta, eftir því hvernig þú spyrð, og já, þú þarft að vita hverjir þeir eru. Fólki verður fyrirgefið fyrir að þekkja ekki Xi Jinping, Narendra Modi, Joko Widodo, Dilmu Rousseff, Nawaz Sharif eða Muhammadu Buhari, en það er ófyrirgefanlegt að vita ekki hver fjölmennustu lönd heims eru.
Það er reyndar ekki nóg að þekkja helstu lönd heims -- það þarf einnig að þekkja helstu hópana. Til dæmis væri nokkuð vandræðalegt að vera mættur á fund hjá WTO og geta ekki gert greinarmun á BRICS og GRULAC, eða vita ekki hver munurinn er á G7 og G8. Helstu straumar og stefnur í alþjóðamálum koma hér við sögu: G8+5 bregður oft fyrir, þótt +5-parturinn standi oftar með G7-partinum, því Rússar eru ekkert voðalega vinsælir þessa dagana.
Allt þetta kemur fyrir áður en við förum að tala um dagsdagleg málefni, eins og hversu afleitur TISA samningurinn er, hvaða áhrif loftslagsbreytingar eru að hafa á norðurslóðir, hvar við stöndum í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, hvaða skyldur Ísland hefur gagnvart NATO í sínum stríðsrekstri, hvernig staða hinna ýmsu mála er hjá sendiráðunum okkar út um allan heim, og þar fram eftir götunum.
Í stuttu máli mætti segja að þetta sé starf þar sem reynsla, þekking og menntun skipti miklu máli. Stóra samhengið tekur mörg ár eða jafnvel áratugi að ná utan um. Gráða í stjórnmálafræði og alþjóðasamskiptum dugar ekki til að vita flest af þessu, en hún dugar til að geta byrjað að skilja umfangið, sögulega samhengið, og mikilvægi ýmissa mála. Hálfkláruð verkfræðigráða og reynsla af sjónum dugar skammt. En í þessu eins og öðru skiptir reynslan eflaust meira máli.
Ef Gunnari Braga Sveinssyni gengi eingöngu til að hafa pólitískan samherja innanborðs sem þiggur laun fyrir að vera jámaður, þá væri þetta sennilega ekki agalegt val á aðstoðarmanni. En að taka inn reynslulausan mann þegar rétt um ár er eftir af kjörtímabilinu mun ekki bæta stöðu Íslands í alþjóðamálum hið minnsta. Ef hann veit helminginn af ofantöldu, og er auk þess meiri snillingur í alþjóðapólitík en Zbigniew Brzezinski er hugsanlegt að við komum út á sléttu.
Gunnar Bragi er samt alls ekki sá eini sem hefur farið þessa leið. Andverðleikasamfélagið hefur getið af sér margar kynslóðir af pólitískum aðstoðarmönnum sem hafa ekki hundsvit á neinu. Það er löngu orðið tímabært að ráðherrar séu vel inní sínum málum frá upphafi, og að aðstoðarmenn þeirra séu ráðnir með einhverjar faglegar forsendur í huga, jafnvel þótt flokksskírteinið sé áfram látið passa.
Athugasemdir