Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Töffari kann að taka L-inu

Töffari kann að taka L-inu

Fyrir fjórum árum flaug mér fjarlægur möguleiki í hug í tengslum við innvígsludaginn í Ameríku. Ég sá fyrir mér hinn nýkjörna, nýfasíska auðkýfingsson stíga fram í pontu og halda ræðu sem væri eitthvað á þessa leið:

 

Ég þakka öllum sem komu. 

 

Við alla sem buðu sig fram gegn mér vil ég segja: hvernig líst ykkur á mig núna? Ég ruddist inn í einhæfa, asnalega kosningakerfið ykkar og komst alla leið á hreinum dólg og ákveðni. Ég get ekki lýst því hversu ógeðslega auðvelt þetta var. Þið ættuð að skammast ykkar. 

 

Og við alla þá sem kusu mig vil ég segja: hvað í andskotanum er að ykkur? Heyrðuð þið ekkert sem ég sagði? Sáuð þið ekkert sem ég gerði? Hélduð þið í alvöru að ég hefði eitthvað plan? Að ég hefði upp á eitthvað annað að bjóða en hreint reiðirúnk? Hversu lengi endist rúnk yfirleitt? Fjögur ár? Tæplega. Kannski fjórar mínútur.

 

Í nóvember tókst mér að sanna það að enginn stenst mér snúning og í dag ætla ég að sanna að ég er yfir þetta foráttuheimskulega sjónarspil hafinn sem við köllum pólitík. Ég hef engan áhuga á að gegna þessu embætti og vil, satt best að segja, ekki búa á meðal þjóðar sem myndi kjósa mig.

 

Takið þetta starf og troðið því.

 

Trump út!

 

Með ræðu sem þessari hefði Trump tekist eina ætlunarverkið sem honum hefur nokkurn tíma verið honum hugleikið í alvöru; að meitla nafn sitt á klöpp sögunnar. Enginn hefði nokkurn tíma gleymt honum og fólk úr öllum þjóðfélagshópum hefði dáðst að kjarkinum. Milljónir af hans eigin kjósendum hefðu meira að segja tekið þessari ræðu fagnandi sem  metafýsískum uppistandsgjörningi og aðrir hefðu skráð þetta í sögubækurnar sem áhrifaríkustu ádeilu frá upphafi lýðveldisins.

 

Ég veit. Nokkrir hlutir standast ekki hér.

 

Þetta hefði t.d. þýtt að trúarhræsnarinn Mike Pence hefði komist til valda og ekki hefði sú stjórnartíð verið mikið skárri. Kannski hefði Trump getað afstýrt því með því að blammera flugnafrelsarann hvíthærða í áðurnefndri ræðu. Guðir vita að hann bar enga virðingu fyrir honum, enda talaði hann eitt sinn um það í háði að ef Pence mætti ráða væru hommar hengdir fyrir kynhegðun sína. En gloppan í þessari fantasíu er óneitanlega sú að Mikki Smápeningur hefði haft lagalegt vald til að taka við af Trump.

 

Meginástæða þess að þessi atburðarás hlýtur að teljast ótrúverðug er þó auðvitað sú að til að gera svona lagað þarf maður að vera töffari. Alvöru töffari. Fasistar eru voða hrifnir af töffaratáknum eins og örnum, norrænum goðum og hersýningum en meginfas þeirra er ekki drullusama-glott hins fáskiptna frumherja heldur hneykslunarsvipur hinnar eilíflega móðguðu smásálar. Þeir eru ekki einu sinni gúmmítöffarar af því að gúmmí er slitsterkt. Þeir eru pappamassatöffarar. Brothættir, óvatnsheldir narsissistar. Þess vegna kunna þeir hvorki að sigra né tapa.

 

Allt kemur þeim úr jafnvægi.

Allt er svo „ósanngjarnt” gagnvart þeim persónulega.

 

Töffari kann nefnilega að tapa án þess að fara að grenja — að taka L-inu eins og unga fólkið orðar það. Töffari kyngir ósigri með reisn, án þess að svo mikið sem skipta svipum, á meðan narsissisti eins og Trump veinar eins og stungin klóakrotta og krefst þess í krafti særðs stolts síns að fá að hrifsa gullmedalíuna af andstæðingi sínum. Töffara er í alvöru sama hvað fólki finnst. Narsissisti þarfnast stanslausrar staðfestingar á aðdáun fólks. 

 

Trump vildi aldrei stjórna. 

Hann vill bara láta hylla sig.

Þess vegna verður hann aldrei töff.

 

Og í dag tekur Joseph Robinette Biden jr. við af honum. Fjarri veri það mér að lofa þann pólitíska miðjumoðara, öfugugga, lygara og tækifærissinna sem myndi selja ömmu sína fyrir aukaframlag í kosningasjóð sinn ef hún væri ekki löngu dauð. En ég verð að játa að þegar helvítið með hálminn á höfðinu lætur af embætti verður það eins og þegar slökkt er á ryksugu með bilaða viftu.

 

Ó, hve dásamleg þögnin verður.

 

Jújú, hann mun enn tjá sig en engum mun bera skylda til að greina frá því einfaldlega vegna þeirrar stöðu sem hann er í. Staðan hans er núna þessi: Fyrrverandi forseti með skýr tengsl við fasísk þjóðfélagsöfl, vafasöm skattamál og tuttugu og fimm ásakanir um kynferðislega áreitni og/eða kynferðisofbeldi. Hann verður núna eins og jaðarhljómsveit sem átti óþolandi útvarpshittara en hvarf svo aftur inn í sína kreðsu og fær aldrei athygli nema í „hvar eru þeir núna?“-umfjöllunum.

 

Við tekur barátta almennings við að fá vel fjármagnaðan hægri krata til að gera eitthvað í þágu almennings í stað þess að þjóna bara peningaöflunum. Jákvæð teikn eru á lofti, þökk sé Bernie Sanders og fleiri af hans toga þar í landi, en togstreitan verður langvarandi og erfið. Skilaboðin til vinstrisins í Bandaríkjunum gætu því verið þau sömu og sóttvarnarteymið á Íslandi kemur á framfæri við almenning:

 

„Þetta er ekki búið.”

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni