Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Sá er til vamms segir

Sá er til vamms segir

Þegar ég sé heiftúðugar pólitískar athugasemdir valdamikils fólks í garð umbótasinna í samfélaginu hugsa ég stundum sem svo að þeir hljóti að vera að gera eitthvað rétt. Eitt dæmi um þetta er þegar formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir formann Eflingar hafa orðið félagi sínu til skammar með svörum sínum við málflutningi Samtaka atvinnulífsins um Lífskjarasamninginn og forsendubrest. Helst virðist eftirfarandi athugasemd Sólveigar Önnu hafa farið fyrir brjóstið á Bjarnheiði:

„Svo virðist sem ómenntað láglaunafólk sé sleipara í samningagerð en lukkuprinsana úr SA-Icelandair klíkunni grunaði, en í sönnum anda drambsemi og tækifærismennsku leggja þeir nú allt í sölurnar til að koma í veg fyrir að láglaunafólk njóti nokkurs ávaxtar af því.“

Bjarnheiður bregst ókvæða við:

„Sólveigu Önnu og hennar stuðningsfólki til upplýsingar, þá eru SA lýðræðisleg samtök allra atvinnugreina í landinu. Þar stjórna engir einstakir prinsar eða prinsessur. Allar eiga þessar atvinnugreinar fulltrúa í stjórn og framkvæmdastjórn Samtakanna, sem mun á endanum skera úr um hvort að kjarasamningum verði sagt upp. Þessar manneskjur, bæði konur og karlar, eiga sæti í þessum stjórnum fyrir hönd sinna fyrirtækja. Venjulegt fólk eins og ég og þú.  Fyrirtækin eru alls konar, bæði lítil og stór.“

[undirstrikanirnar eru mínar]

Fyrirtæki ≠ lýðræði

Maður veit vart hvar á að byrja þegar svona efnisgrein er annars vegar. Að kalla Samtök atvinnulífsins „lýðræðisleg samtök allra atvinnugreina í landinu“ er eins og að tala um að einhver sé varamarkvörður ríkisstjórnarinnar eða frændi Landakotskirkju.

Enginn af fyrirtækjaeigendunum í Samtökum ferðaþjónustunnar var lýðræðislega kjörinn yfirmaður. Það að vera málsvari fyrirtækis er ekki það sama og að vera málsvari fólks.

Atvinnugreinar eru ekki kjósendur og geta ekkert frekar talist færar um lýðræðislegar kosningar en endurnar á tjörninni geta dritað mynd af Halldóri Benjamín á Ráðhúsþakið. 

Lýðræði er fyrirkomulag þar sem almenningur fær að velja sér leiðtoga. Enginn af fyrirtækjaeigendunum í Samtökum ferðaþjónustunnar var lýðræðislega kjörinn yfirmaður. Það að vera málsvari fyrirtækis er ekki það sama og að vera málsvari fólks. Það er rétt hjá Bjarnheiði að meðlimir stjórnar og framkvæmdarstjórnar SA sitja í þeim „fyrir hönd sinna fyrirtækja“ en að grauta því saman við lýðræði er annað hvort misskilningur eða vísvitandi blekking. Fyrirtæki er tilbúningur og það er lögformlegur skáldskapur að það geti átt eitthvað, glatað einhverju eða verið ríkt eða fátækt.

Fyrirtæki eru ekki manneskjur.

Það eru eigendur fyrirtækjanna sem bindast samtökum í SA til að tryggja sínum hagsmunum brautargengi, ekki fyrirtækin sjálf. Það eru t.d. eigendur Sláturfélags Suðurlands sem troða peningunum í vasann þegar vel árar í sölu kjötafurðanna undir merki SS, ekki pylsan á hjólabrettinu. Gotti borðar kannski ost en það eru hluthafar Mjólkursamsölunnar sem auðgast þegar osturinn selst vel, ekki ljóshærði guttinn í auglýsingunni.

Gott og vont fólk

Hvaða máli skiptir það þótt eigendaklíkan innihaldi „bæði konur og karla“? Eins og það felist einhver jafnréttissigur í því að fólkið sem lifir á eignum sínum og verðmætasköpun verkafólks sé ekki allt karlkyns? Og hvað þýðir það eiginlega að í stjórnunum sé „venjulegt fólk eins og ég og þú“? Ég fékk ekki séð að Sólveig Anna hefði neins staðar haldið því fram í pistli sínum að í stjórnum SA sæti „óvenjulegt“ fólk, hvað sem það myndi annars þýða (eðlufólk?).

Ef ég segi að SA sé að vinna markvisst gegn hagsmunum vinnandi fólks og þú svarar „ertu að segja að þeir séu vondar manneskjur?“ þá er óhætt að segja að þú hafir engan áhuga á að komast að vitrænni niðurstöðu

Þessi tilhneiging eignastéttarinnar til að færa stangirnar í samtalinu er til marks um rökþrot hennar. Það er venjulegt fólk, ekki marsbúalið eða andaverupakk vonskunnar í himingeimunum, sem þjónar kerfinu sem við erum föst innan með því að stíga á andlit annars fólks í þágu hagvaxtar, útþenslu eða annarra kapítalískra sjónarmiða. Ef ég segi að SA sé að vinna markvisst gegn hagsmunum vinnandi fólks og þú svarar „ertu að segja að þeir séu vondar manneskjur?“ þá er óhætt að segja að þú hafir engan áhuga á að komast að vitrænni niðurstöðu. Þetta er argumentum ad absurdum. Óheiðarlegir samræðutilburðir.

Þess vegna er það viss vísbending um að maður sé á réttri braut þegar fýkur í fólk eins og formann Samtaka ferðaþjónustunnar.

Falskur popúlismi hægrisins

Því miður hefur ýmsum hins vegar tekist það ætlunarverk í pólitík að fletja út þennan sannleika. Við þekkjum núorðið alltof vel vissa tegund hægrisinnaðs lítilmennis (yfirleitt karlkyns en ekki alltaf) sem stillir sér upp sem einhvers konar sannleiksriddari sem vill „taka umræðuna“ um það hvort hælisleitendur séu byrði á ríkiskassanum og „þorir meðan aðrir þegja“. Þessi hetja segir okkur að kröfur minnihlutahópa um virðingu í samfélaginu séu eina raunverulega kúgunin sem sé í gangi og stelur jafnvel orðalagi vinstri hugsuða um valdatækin þöggun og gaslýsingu. Einn þeirra setti meira að segja límband fyrir munninn á sér í kosningasjónvarpi Rúv, tók það svo af og nýtti tímann sem hann fékk til að tjá sig um það að menn eins og hann fái aldrei að tjá sig.

Maður af þessu tagi spyr hvers vegna ekkert „megi lengur“ og kallar það rasisma að hann sé kallaður rasisti (eitt fullkomlega súrrealískt dæmi um þetta er þegar Ásmundur Friðriksson titlaði Þórð Snæ Júlíusson „rasista umræðunnar“, hvað sem það gæti þýtt). Sú venja að kalla menn af þessu tagi „popúlista“ þrátt fyrir að það gangi gegn upprunasögu þess orðs virðist hafa rutt sér til rúms og ég hef röflað nóg um það við önnur tækifæri til að þurfa ekki að fjölyrða frekar um það hér. Þetta eru menn sem segja gjarnan að hatrömm viðbrögð við athugasemdum þeirra og yfirlýsingum hljóti að vera vísbending um að þeir séu að gera eitthvað rétt; að þeir séu að „koma við kaunin“ á fólki og segja óþægilegan sannleika.

Hálfsannleikur öfgahægrisins er sá að ríkjandi hugmyndafræði er eitruð og að valdamikið fólk hefur hagsmuna að gæta.

Strýhærða órangútaninum í Hvíta húsinu hefur tekist manna best að fanga þessa firru. Stuðningsfólk hans telur honum það helst til hróss að athugasemdir hans láti „hausinn á góða fólkinu springa“ eða „triggeri“ snjóflyksurnar. Því ættum við að vera örlítið skýrari í þessum efnum. Það að valdamikið fólk taki því illa sem maður segir getur verið vísbending um að maður sé að segja því óþægilegan sannleika, eins og þegar Sólveig Anna bendir á óheiðarleika og gaslýsingu í málflutningi atvinnurekenda. Það þýðir ekki að í hvert skipti sem athugasemdir manns vekja reiði hafi maður rétt fyrir sér.

a) Ef ég bendi þér á að þú þurfir að koma betur fram við samstarfsfólk þitt þá getur verið að þú takir því illa.

b) Ef ég segi þér að börnin þín séu heimsk og ljót þá er einnig líklegt að þú takir því illa.

A er dæmi um óþægilegan sannleika. B er bara mannvonska.

Það að sumir kjósendur þekki ekki muninn á þessu tvennu er hættumerki fyrir lýðræðið. Hálfsannleikur öfgahægrisins er sá að ríkjandi hugmyndafræði er eitruð og að valdamikið fólk hefur hagsmuna að gæta. En andstæðingurinn er ekki opin landamærastefna og hagsmunir hinna valdamiklu felast ekki í lúmskri innleiðingu menningarlegs marxisma (hvur djöfullinn sem gáfnaljós eins og Anders Breivik meina annars með því). Andstæðingurinn er nýfrjálshyggja og bróðir hennar, fasismi. Og hagsmunir hinna valdamiklu felast í áframhaldandi samþjöppun auðs og valda.

Nú til dags er ærin ástæða til þess að verða reiður út í hina valdamiklu. En það þarf að gerast með kveikt á heilanum. Fyrirmyndir okkar í þeim efnum eru verkalýðsforystan.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni