Pólitísk þjóðaríþrótt Íslendinga
Mér var bent á það fyrir skömmu að við erum dottin í visst mynstur, Frónverjar. Ofbeldisásakanir og -kærur dúkka upp og við tökumst á um sekt og sýknu eftir því hvort við þekkjum hinn ákærða eða fílum pólitík hans o.s.frv.. Ef málsatvik liggja ljós fyrir þá tökumst við á um sjálfar forsendur siðferðishugsunar okkar og umræðan færist yfir á draugslegt svið hins óhlutbundna. Þegar fólk er svo farið að teygja sig í svo hátimbrað orðalag til að verja eigin hegðun (eða hegðun þeirra sem það heldur með) að skoðanapistlahorn vefmiðla taka á sig ásýnd Guðbrandsbiblíu er kannski kominn tími til að taka aðeins til í hugtakageymslunni.
Byrjum á orðinu meðvirkni.
Meðvirkni er kærleiksútgáfa einstaklingshyggjunnar; nokkuð sem leyfi mér að kalla kærlíki.
Eiríkur Örn Norðdahl tendraði þessa eldspýtu í höfðinu á mér í desember með tístinu: „Ég eiginlega fíla meðvirka fólkið betur en ómeðvirka fólkið.“ Í athugasemd bætir hann svo við: „Þið eruð öll mjög vond við meðvirka fólkið, sem hefur ekkert af sér gert nema elska of mikið, og ég ætla ekki að vera meðvirkur með þessari heift lengur!“ Ég veit. Hann er að grínast. Kannski jafnvel að vonast til þess að einhver biti í laukinn og setti ofan í við hann. En orðið meðvirkni er fyrir löngu búið að bæta utan á sig pólitískum merkingarauka og margir halda bókstaflega að þessi grínskilgreining Eiríks sé sú rétta:
Að vera meðvirkur þýðir að elska of mikið.
Það gæti eiginlega ekki verið fjær sannleikanum.
Meðvirkni er kærleiksútgáfa einstaklingshyggjunnar; nokkuð sem leyfi mér að kalla kærlíki. Áðurnefnd Guðbrandsbiblía útleggur kærleikann sem svo:
„Kærleikurinn er þolinmóður og vingjarnlegur. Kærleikurinn vanlætir eigi, kærleikurinn gjörir ekkert illmannlega, eigi blæs hann sig upp, ei er hann ósiðsamur, eigi leitar hann þess hvað hans er, eigi verður hann til ills egndur, hann hugsar ekki vondslegt, eigi fagnar hann yfir ranglætinu en fagnar sannleikanum. Hann umber alla hluti, hann trúir öllu, hann vonar allt, hann umlíður alla hluti. Kærleikurinn hann doðnar aldrei þótt spádómurinn hjaðni og tungumálunum sloti og skynseminni linni.“
Ekki eldist allt í þessum gamla doðranti vel en þessi frægi kapítuli hefur ekki tapað neinum gljáa í aldanna rás. Sumt í textanum gæti þó kannski hljómað eins og meðvirkni. Hvurs lags rugl er það eiginlega að umbera alla hluti, trúa öllu, vona allt og umlíða alla hluti? Þýðir það ekki að maður lætur allt yfir sig og samborgara sína ganga? Nei, lesum þetta aftur yfir. Kærleikurinn fagnar nefnilega ekki yfir ranglætinu heldur fagnar sannleikanum og það sem mest er um vert: Hann leitar eigi þess hvað hans er.
Kærleikur þarfnast einskis og meðtekur allt eins og það er. Meðvirkni er botnlaus þrá eftir samþykki og staðfestingu og getur snúist úr velvilja í heift á sekúndubroti ef krafan eftir því er ekki uppfyllt.
Það er ekki til sjálfhverfa í kærleikanum. Hann er algildur og skilyrðislaus. Þetta er ekki kennisetning eða trúarfroða heldur lifandi veruleiki sem er svo hversdagslegur að aðeins ofvirk hugsunarárátta okkar getur skyggt á hann. Það er ekki hægt að „elska of mikið.“ Aftur á móti er hægt að þrá of mikið, og þar komum við að því sem helst aðgreinir kærleika frá meðvirkni. Kærleikur þarfnast einskis og meðtekur allt eins og það er. Meðvirkni er botnlaus þrá eftir samþykki og staðfestingu og getur snúist úr velvilja í heift á sekúndubroti ef krafan eftir því er ekki uppfyllt. Eins og kókaín-fíkill þegar duftinu er stolið frá honum. Á meðan allt er í góðu mun hinn meðvirki hins vegar verja viðfang sitt fyrir allri gagnrýni, algjörlega burt séð frá alvarleika misgjörða þess. Það er helst á þennan hátt sem hið pólitíska afbrigði meðvirkninnar birtist.
Ég ætla að gerast svo breiður að fullyrða að við höfum flest einhvern tímann orðið meðvirk. Tíst Eiríks inniheldur því eina mjög heilbrigða tillögu; við skulum ekki vera vond við meðvirka fólkið. Við erum öll (að meira eða minna leyti) meðvirka fólkið. En verum vond við meðvirknina sjálfa. Þekkjum hana í sjálfum okkur sem það sem hún er áður en við lýsum því yfir að maður sem er sakaður um ofbeldi og níðingsskap sé „góður drengur með glæstan feril“ eins og það komi málinu eitthvað við. Og ef þær ásakanir reynast réttar er ein lélegasta og óheiðarlegasta klisja vestrænnar menningar að bera blak af einstaklingnum með því að vísa í fíkn hans.
Þegar Mel Gibson hélt fyrirlestur yfir lögregluþjónum um skítlegt eðli gyðinga og afgreiddi það með því að segjast eiga við áfengisvandamál að stríða varð mörgum á að spyrja: „Síðan hvenær gerir áfengi mann að gyðingahatara?“ Dóp gerir mann ekki heldur að kynferðisbrotamanni eða ofbeldissegg.
Eiturlyf hvers kyns geta útskýrt hegðun upp að vissu marki en ekki afsaka hana aldrei.
Við þurfum ekki að hata gerandann en að afsaka gjörðir hans með fíkn hans er útúrsnúningur og rugl. Þetta stendur hvort sem um er að ræða eiturlyfjafíkn eða gróðafíkn.
Hvað býður kærleikurinn okkur að gera þegar einhver gerir eitthvað á hluta annars? Að beina öllum hlýhug okkar til þeirra sem urðu fyrir ofbeldinu. Við þurfum ekki að hata gerandann en að afsaka gjörðir hans með fíkn hans er útúrsnúningur og rugl. Þetta stendur hvort sem um er að ræða eiturlyfjafíkn eða gróðafíkn. Þegar fréttir berast í nóvember um arðrán íslensks fyrirtækis í fátæku landi fara sömu tannhjól af stað. Félagar framámanna fyrirtækisins í ónefndum (bláum) stjórnmálaflokki drepa umræðunni á dreif og falla svo í yfirlið þegar greinahöfundur kemur með hér um bil fullkomna líkingu á hlutverki flokksins í þjóðarlíkamanum.
Tveir aðilar utan bláa flokksins detta þá í kunnuglegan fasa. Annar þeirra lýsir því yfir að svona eigi maður ekki að tala um menn sem styðja vini sína í því að búa sér til gullhauga úr auðlindum fátækra þjóða og hinn birtir það undir fyrirsögninni „Eitruð blanda af hatursorðræðu og heiftyrðum.“ Það er ekki kærleikur sem knýr þá til að taka þessa afstöðu. Kærleikur hefði beint sjónum þeirra að almenningi í Namibíu, ekki gert þá að almannatenglum auðvaldsins. Egill og Jón Hallur iðka þarna pólitíska þjóðaríþrótt Íslendinga sem byrjar á M-i og endar á I-i og er ekki mjúkbolti.
Ég get í fyllsta kærleika tekið undir það með Braga Páli að Sjálfstæðisflokkurinn sé krabbamein. Ég geng svo langt að segja að kapítalisminn eins og hann leggur sig sé krabbamein. Og krabbamein þarf að uppræta. Áframhaldandi tilvist mannkynsins liggur undir. Með því á ég ekki við að Sjálfstæðisflokksmenn eða aðrir þeir sem viðhalda kapítalismanum séu krabbamein. Málamiðlunarlaus róttækni með kærleikann sem áttavita beinir ekki spjótum sínum að kapítalistanum sem manneskju heldur að því stofnanahlutverki sem hann gegnir. Það verður honum til góðs þegar illa fenginn gróði hans er hirtur af honum.
Engum er hollt að reisa sér höll á herðum annarra.
Athugasemdir